Þórsberg ehf.

2022

Útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Þórsberg ehf. var stofnað á Tálknafirði árið 1975. Stofnendur þess voru Magnús Kr. Guðmundsson og kona hans Jóna Sigurðardóttir ásamt Særúnu, Sigurði, börnum þeirra og Guðjóni Indriðasyni, manni Særúnar. Guðjón Indriðason er núverandi framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Þess má geta að á fyrri tíð var Magnús þekktur sem skipstjóri á aflasælum síldarbátum á borð við Guðmund á Sveinseyri, Sæfara og Jörund III. Á árunum 1984-93 rak Þórsberg ásamt öðrum, fiskeldisfyrirtækið Þórslax hf. Það var á sínum tíma mjög umfangsmikið í laxeldi og var með eldi bæði í sjó og á landi.

Skipulag og sérstaða
Árið 1983 eignaðist fyrirtækið Maríu Júlíu BA-36 sem var 108 tonn. Skipið var upphaflega byggt sem björgunarskúta Vestfirðinga. Lengi vel þjónaði María Júlía Landhelgisgæslunni og tók t.d. þátt í þorskastríði við Breta árið 1958, þegar landhelgin var færð út um 12 mílur, en henni var breytt í fiskiskip árið 1968. Þórsberg hefur í gegnum tíðina átt 13 báta og þar af er Kópur BA-175 stærstur. Í dag gerir Þórsberg út tvo krókaflamarkslínubáta, Indriða Kristins BA-751 og Steinunni BA-517. Indriði Kristins BA-751 var smíðaður í Trefjum árið 2019, báturinn er 30 tonn og er gerður út allt árið. Steinunn BA-517 var smíðuð hjá Trefjum 2007. Báturinn er 15 tonn og er gerður út lengstan hluta ársins.

Aðsetur
Frá upphafi hefur Þórsberg ehf. rekið saltfiskverkunarhús við Strandgötu. Á vormánuðum árið 2000 festi Þórsberg ehf. kaup á frystihúsi Hraðfrystihúss Tálknafjarðar. Húsnæðinu var breytt að hluta.
Árið 2015 hætti Þórsberg ehf. starfsemi í fiskvinnslu og breytti starfseminni í útgerð krókaflamarksbáta. Árið 2018 var húsnæði hraðfrystihússins selt.

Starfsmenn og velta
Eftir lokun vinnslunnar minnkaði starfsmannafjöldi úr 75 niður í 15 og starfsmenn hjá fyrirtækinu í dag eru sjómenn og stjórnendur. Í stjórn fyrirtækisins eru Finnur Jónsson stjórnarformaður, Kristrún A. Guðjónsdóttir og Ægir Páll Friðbertsson. Varamenn eru Magnús Kristján Guðjónsson, Indriði Kristinn Guðjónsson og Guðmundur Kristjánsson. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins er Guðjón Indriðason.
Þórsberg ehf. keypti fyrirtækið Grábrók ehf. af Brim hf. sem átti krókabátinn Steinunni HF 108.
Steinunn er með tæplega 800 þorskígildistonn. Fyrir Grábrók var greitt með hlut í Þórsbergi til Brims hf. sem á eftir viðskiptin 40% hlut í Þórsbergi.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd