ThorShip er alhliða flutningafyrirtæki sem var stofnað árið 2007 af Karli Harðarsyni. Fljótlega í kjölfarið barst honum liðsauki með Bjarna Hjaltasyni. Lögðu þeir grunninn að rekstri ThorShip eins og hann er í dag. Báðir voru þeir vel kunnugir skipaflutningum og með mikla reynslu og þekkingu enda með sameiginlega starfsreynslu hjá samskonar fyrirtæki. Kjarnastarfsemi fyrirtækisins er sjóflutningar sem byggðust í upphafi á þjónustu og samstarfi við Rio Tinto í Straumsvík um að flytja ál og aðföng með skipum.
Starfsemin
Áherslan er fyrst og fremst á flutninga milli Straumsvíkur og Rotterdam með ál frá Íslandi en leiðin til baka er nýtt undir almenna vöruflutninga. Frá þeim tíma sem fyrirtækið var stofnað hefur átt sér stað uppbygging sem hverfist um flutningsmiðlun sem hefur aukist umtalsvert á undanförnum árum og er orðin stór hluti af starfsemi ThorShip í dag. Hinir almennu vöruflutningar eru þjónusta við fyrirtæki á markaði þar sem samkeppni ríkir við önnur flutningafyrirtæki sem hafa sterka stöðu fyrir; en það hefur sýnt sig að það er pláss fyrir ThorShip í því samkeppnisumhverfi bæði hvað varðar þjónustu og gæði. Þótt ThorShip sé smátt í sjálfu sér þá hefur smæðin reynst vera styrkur sem endurspeglast í þjónustunni sem byggir á nánum og persónulegum tengslum við viðskiptavinina sem njóta ávallt eins góðrar fyrirgreiðslu og kostur er. Áreiðanleiki í siglingum er eitt það mikilvægasta í starfseminni og það hefur verið aðalsmerki þess að gera allt til þess að áætlanir standist. Verði misbrestur á því t.d. vegna veðurs eða sjólags þá er brugðist skjótt við til að vinna upp slíkar tafir.
Sérstaða
ThorShip kann að vera smátt á íslenskan mælikvarða en er stórt erlendis. Samstarfsaðili þess sem sér um flutninga héðan og þaðan til Rotterdam er DSV. Það er alþjóðlegt risafyrirtæki með höfuðstöðvar í Danmörku og er einn af fjórum stærstu flutningmiðlurum heimsins í dag. ThorShip kann vel að athafna sig í stóru alþjóðlegu viðskiptaumhverfi og einblínir á það sem það gerir best. ThorShip hefur náð að skapa sér sérstöðu í krafti smæðarinnar þar sem kostirnir felast í sveigjanleika, persónulegum samskiptum og stuttum boðleiðum sem gerir fyrirtækinu kleift að vera snjallari í að gera hlutina hratt og vel á meðan þau stærri keyra á þyngri kerfum. Þar sem fyrirtækið vinnur með stórum og öflugum samstarfsaðilum þá næst að skapa betri lausnir fyrir viðskiptavinina. Á þeim rúma áratug sem fyrirtækið hefur starfað hefur það náð að koma sér upp breiðum hópi viðskiptavina með sanngjarnri verðlagningu og því sem vegur ef til vill enn þyngra; að veita framúrskarandi þjónustu. Sá áreiðanleiki sem ThorShip leggur svo mikið uppúr er eitt af því sem viðskiptavinirnir kunna hvað best að meta og vilja þar af leiðandi vera áfram í viðskiptum.
Innan fyrirtækisins starfar öflugt teymi starfsmanna sem vinnur eftir vel hönnuðu kerfi í flutningum. Það hefur náð að skapa samkeppni á markaðnum en er sjálfstætt að því leyti að vera með sína eigin flutningaleið til landsins. Fyrirtækið er vel samkeppnisfært í verðum en leggur ofuráherslu á að þjónusta viðskiptavinina á skilvirkan hátt í gegnum persónuleg samskipti, þótt auðvitað skipti miklu máli að fylgjast með tækniþróuninni í netsamskiptum svo það verði ekki eftirbátur þeirra sem keppt er við. Eitt af stærri hliðarverkefnum ThorShip er flutningsþjónusta fyrir Alcoa. Karl Harðarson ásamt norðmanninum Øyvind Sivertsen náðu langtímasamningum við Alcoa um flutninga og nýsmíði fjögurra tólfþúsund tonna skipa til að sigla milli Reyðarfjarðar, Rotterdam og upp til Mosjøen, til varð nýtt hollenskt skipafélag sem nefnist Cargow. Eru eigendur með tæpan fjórðungshlut í því félagi. Þjónustuskrifstofan á Íslandi hafði framan af milligöngu um þau viðskipti og heldur enn utan um ýmsa þætti svo sem gámastýringu, umboðsþjónustu og fleira.
Aðsetur og mannauður
ThorShip er til húsa við Selhellu 11 en hóf starfsemina í smærra húsnæði til hliðar við núverandi staðsetningu en var fljótt að sprengja það utan af sér. 2012 var hafist handa við flutninga í rýmið sem nú hýsir fyrirtækið og strax í framhaldinu var gengið frá kaupum á húsnæðinu sem í dag er orðið nokkuð þéttsetið þar sem starfsólki hefur fjölgað á síðustu árum. Vöruhúsið er ekki til þess fallið að geyma vörur til lengri tíma þar sem það þjónar sem milligeymsla hvar vörur flæða inn á mánudagsmorgni en eru farnar út í vikulok.
Bein og afleidd störf hjá Thorship eru í kringum 26 á ársgrundvelli. Starfsmannavelta er ekki mikil enda ríkir hálfgerður fjölskyldubragur yfir öllu þar sem starfólkið þekkist vel og líður alla jafnan vel í vinnunni. Kjarninn hefur verið sá sami frá upphafi og þeir nýjustu í starfi hafa verið hjá fyrirtækinu í þrjú ár. Það er vísbending um að gott sé að starfa hjá ThorShip. Starfsfólk gerir ýmislegt saman til að efla andann og skapa ánægjulega stemningu, t.d. með útivist og hreyfingu af ýmsum toga, skipulögðum ferðum innanlands og utan, svo dæmi séu tekin. Á heildina litið er góður andi meðal starfsmanna ThorShip og hópurinn býr yfir fjölbreytileika sem gefur dögunum lit. Karl Harðarson og Bjarni Hjaltason sem komu þessu á fót fyrir liðlega fimmtán árum, þekktu báðir vel til þessa starfsumhverfis og nýttu færið vel þegar það gafst. ThorShip er afsprengi þess hugrekkis sem þeir höfðu og ekki annað að sjá en að það hafi vaxið og dafnað æ síðan. Því miður er Karl ekki lengur á meðal vor en Bjarni starfar enn hjá fyrirtækinu og er stjórnarformaður.
Framtíðarsýn
Samkeppni í flutningum hefur aukist á síðustu árum og það hefur haft jákvæð áhrif og þrátt fyrir að einhverjir stærri aðilar hafi borið ægishjálm yfir hina, þá er rúm á markaðnum fyrir aðra. ThorShip er áfram í vexti og heldur áfram að velja sína viðskiptavini af kostgæfni. Samkvæmt því sem Ragnar Jón Dennisson, framkvæmdstjóri heldur fram þá er framtíðarsýnin afar skýr og einföld: Að halda áfram á sömu braut og gæta þess að staðna ekki.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd