Þórsnes ehf.

2022

Þórsnes er útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki sem stofnsett var af Kaupfélagi Stykkishólms árið 1955 og er því orðið 65 ára gamalt og búið að fara í gegnum uppsveiflur og niðursveiflur í gegnum tíðina, eins og títt hefur verið um slík fyrirtæki á Íslandi.
Reksturinn hófst með því að keyptur var 69 tonna eikarbátur, Þórsnes SH 108 og hefur fyrirtækið vaxið út frá því. Gert var út á net og aflinn verkaður í saltfisk. Lífið var því saltfiskur framan af. Árið 1975 var ráðist í að byggja anýtt fiskverkunarhús en á sama tíma og það var tekið í notkun, fékk fyrirtækið afhentan nýjan bát, Þórsnes II. Nýja verkunarhúsið var 2000 fm á einu gólfi. Vöxtur fyrirtækisins hélt áfram og í kringum 1980 var litla Þórsnesið selt og keyptur stærri bátur frá Patreksfirði, Helga Guðmundsdóttir BA, sem hlaut nafnið Þórsnes eins og sá gamli.

Sagan
Árið 1982 fær Þórsnes ehf. leyfi til að vinna skelfisk og var unninn skelfiskur alveg þar til að skelfiskstofninn hrundi í kringum 2003, ásamt með saltfiskvinnslunni. Stórar breytingar héldu áfram að eiga sér stað og árin 1985-1987 er ráðist í stórbreytingar á Þórsnesi og Þórsnesi II. Samhliða er ráðist í að stækka vinnsluna með 1000 fermetra viðbyggingu. Ástæðan var sú að keypt var rækjuverksmiðja frá Noregi og farið í rækjuvinnslu. Stóð sú vinnsla stutt yfir þar sem rækjan var sett í kvóta og fyrirtækið fékk lítið sem engan kvóta í rækju.
Árið 1998 var ráðist í kaup á nýjum bátum, Bjarna Sveini SH 103 og hraðfiskibátnum Jónsnesi SH 118. Voru bátar fyrirtækisins því orðnir fjórir um þetta leyti.
Árið 2001 voru keypt öll hlutabréf í Rækjunesi h.f og voru félögin síðan sameinuð undir nafni Þórsness ehf. Kaupin voru gerð til að styrkja og efla Hörpudiskvinnslu Þórsness.
Í kringum 2003 hrynur skelstofninn vegna sýkingar og hafði það veruleg áhrif á afkomu félagsins og má segja að það hafi staðið tæpt, ekki síst vegna kaupanna á Rækjunesi. Var farið í uppsagnir til að mæta þessu mikla áfalli.
Árið 2004 kaupir Gunnlaugur Hreinsson allt hlutafé í Þórsnesi og hefur rekið það síðan og árið 2016 keypti núverandi framkvæmdastjóri, Eggert Halldórsson 15% hlut af Gunnlaugi og eiga þeir félagið saman og reka í dag. Í dag á félagið einn bát en gerir út tvo. Þórsnes SH 109 sem keyptur var frá Noregi 2017 og Bíldsey SH 65 sem Sæfell hf. á. Þórsnes er hluthafi í Sæfelli hf. Þórsnes SH er aðallega gerður út á þorsk og grálúðuveiðar en Bíldsey er gerð út á línu. Í dag er eingöngu unnin flattur saltfiskur í vinnslu félagsins og er unnið úr 4-5 þúsund tonnum árlega. Þórsnes ehf. er einn af stærri vinnustöðum í Stykkishólmi og vinna þar að jafnaði 50-60 manns.

Framtíðin
Framtíðin er björt, fiskistofnar sterkir ef frá er talinn hörpudiskurinn. Eina ógnin eru stjórnvöld og hvað þau hyggjast gera með fiskveiðistjórnunarkerfið.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd