Vélsmiðjan Þröstur Marsellíusson

2022

Þröstur Marzellusson ehf. er stofnað í maí 1977 af Þresti Marsellíussyni jársmíðameistara og Halldóru Magnúsdóttur kennara og skrifstofustjóra. Upphaflega var fyrirtækið rekið í bílskúr við Sundsræti 32 á Ísafirði en nokkrum árum seinna kaupa þau hjón Hnífsdalsveg 27 eða Ásgarð, sem einnig er þekkt undir nafninu Pétursborg. Þau hjón gerðu húsið upp sem iðnaðar- og íbúðarhúsnæði og unnu bæði hörðum höndum við reksturinn ásamt Haraldi syni þeirra, en þeir feðgar eiga mörg handtök saman við að gera húsnæðið rekstrarhæft. Halldóra sá um bókhald og fjármál, lengst af meðfram fullri vinnu.

Starfsemin
Fyrirtækið er vélsmiðja með mikinn og góðan tækjabúnað og sér um viðgerðir og nýsmíði af ýmsum toga. Viðhald vinnuvéla, hitaveitu, olíu og ammoníkaslagna. Smíði, hönnun og viðhald á handriðum og stigum. Viðgerðir og nýsmíði um borð í bátum og skipum hefur aukist mikið síðustu ár og er orðið stór hluti af verkefnum fyrirtækisins. Svo eitthvað sé talið af stærri og sértækari nýsmíðverkefnum sem fyrirtækið hefur komið að má nefna bílgrindur í sérútbúna jeppa, milligólf í tank við Perluna, lyftuhús við sjúkrahúsið á Ísafirði. Einnig hefur fyrirtækið hannað og framleitt marningsvélar fyrir harðfisk og snjóskóflur fyrir stærri vélar. Þröstur Marzellíusson ehf. er eitt elsta umboð Linde gas og selur iðnaðargas, grillgas og ýmsar vörur tengdar gasi. Nýlega festi fyrirtækið kaup á flutningabíl sem er verið útbúa sem færanlegt verkstæði. Það ásamt öflugri rafstöð gerir alla vinnu fjarri verkstæði þægilegri og opnar á fleiri verkefni sem annars hefði verið erfitt að taka að sér vegna fjarlægðar og annara aðstæðna. Hjá fyrirtækinu eru einnig seldar varmadælur og komin góð reynsla í uppsetningu og viðhaldi þeirra. Einnig eru smíðaðir hattar yfir dælurnar sé þess óskað

Stjórnendur og starfsmenn
Í dag er fyrirtækið rekið af Haraldi Hákonarsyni og Þórunni G. Jónsdóttur. Það hefur verið gæfa fyrirtækisins að hafa ávallt haft trausta og góða starfsmenn. Í dag eru fastir starfsmenn þess 6 og auk þeirra starfa yfirleitt nemar á sumrin. Starfsmenn fyrirtækisins eru feðgarnir Haraldur Hákonarson, framkvæmdarstjóri, járnsmiður og véliðnfræðingur, Hafþór Ingi Haraldsson, verkstjóri og stálsmíðameistari, Heiðar Smári Haraldsson, Ívar Markússon og Gísli Sveinsson. Þórunn sér um bókhald og annað tilfallandi.

Framtíðarsýn
Fagmennska og lausnamiðuð vinnubrögð er það sem Þröstur Marzellíusson ehf. stendur fyrir. Framtíðarsýn eigenda Þrastar Marsellíussonar ehf. er björt og er markvisst unnið að bættum tækjakosti, þjálfun og aðbúnaði starfsmanna. Verkefnastaða er góð og með áframhaldandi endurnýun á tækjum og vel þjálfuðum og góðum starfsmönnum er það trú eiganda að hún komi bara til með að aukast.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd