Þjónusta við sjávarútveg í tvo áratugi
Þrymur hf. vélsmiðja á Ísafirði var stofnuð 1. desember 1991 og fagnar 30 ára starfsafmæli í desember 2021. Félagið var stofnað til kaupa á húsnæði og tækjabúnaði Vélsmiðjunnar Þórs hf. sem fór í þrot sama ár eftir farsælan rekstur frá árinu 1942. Stofnendur Þryms hf. voru Jónas H. Pétursson, vélvirkjameistari og synir hans, Pétur Þ. Jónasson, vélvirkjameistari og Valgeir Jónasson, vélstjóri ásamt Reyni Ragnarssyni vélstjóra.
Aðal markmið stofnenda félagsins var að veita áfram þá góðu þjónustu sem veitt hafði verið af Vélsmiðjunni Þór til skipaflota landsmanna og varðveita þá fagkunnáttu sem var til staðar og miðla henni til komandi kynslóða.
Starfsemin
Uppistaðan í rekstri félagsins hefur verið rekstur véla- og renniverkstæðis og þjónusta við sjávarútveg auk viðhalds vinnuvéla fyrir ýmsa verktakaþjónustu. Árið 1995 var fyrirtækið Brimeyri ehf. stofnað vegna kaupa á eignum Vélsmiðjunnar Kubba ehf. á Flateyri.
Árið 2010 festir Þrymur hf. síðan kaup á vörulager Skeljungs hf. í Bolungarvík og opnaði verslun að Suðurgötu 9. Árið 2016 gerðist Þrymur umboðsaðili Tandurs hf. og hefur vöruúrval verslunarinnar aukist til muna. Þar eru til sölu allar helstu olíuvörur og hreinlætisvörur fyrir fyrirtæki og heimili. Þá hefur starfsmaður Skeljungs hf. aðstöðu í húsnæði Þryms hf. til að annast olíuafgreiðslu á norðanverðum Vestfjörðum.
Eigendur og aðsetur
Í dag eru eigendur hjónin Pétur Þ. Jónasson og Kolbrún Halldórsdóttir og eru starfsmenn sjö hjá Þrym hf. og hefur sonur þeirra Högni Gunnar Pétursson sem er vélvirki tekið við verkstjórn fyrirtækisins. Fyrirtækið hefur yfir að ráða 1.200 fm húsnæði að Suðurgötu 9 á Ísafirði auk 300 fm húsnæðis á Flateyri.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd