Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum hefur verið starfrækt í rúmlega sjö áratugi, en miðað er við að starfsemin hafi formlega hafist þann 15. nóvember 1948.
Tilraunastöðin var sett á laggirnar að stórum hluta til að rannsaka sauðfjársjúkdóma sem bárust til landsins með sauðfé frá Þýskalandi, svokölluðu karakúl-fé. Það bar með sér sjúkdómana garnaveiki, votamæði og mæði-visnu sem íslenskt fé reyndist afar næmt fyrir.
Forstöðumenn Keldna frá upphafi hafa verið sex og tók núverandi forstöðumaður Sigurður Ingvarsson við embætti árið 2001. Aðrir forstöðumenn eru Björn Sigurðsson (1946-1959), Páll Agnar Pálsson (1959-1967), Guðmundur Pétursson (1967-1993), Kári Stefánsson (1993) og Guðmundur Georgsson (1994-2001). Björn Sigurðsson var skipaður fyrsti forstöðumaður Tilraunastöðvarinnar árið 1946 og tveimur árum síðar, árið 1948, var ný rannsóknastofuaðstaða tekin í notkun að Keldum. Björn lést um aldur fram og hafði þá aðeins verið rúman áratug í starfi forstöðumanns Tilraunastöðvarinnar. Björn varð víðfrægur fyrir störf sín og bera hæst rannsóknir hans á hæggengum smitsjúkdómum og skilgreiningar hans á þeim. Björn var upphafsmaður hugmynda um sérstakan flokk smitsjúkdóma sem hann nefndi annarlega hæggenga smitsjúkdóma og var sú skilgreining afrakstur rannsókna hans á ýmsum sýkingum í sauðfé, svo sem votamæði, þurramæði, visnu og riðu. Störf Björns eru þekkt í dag meðal vísindamanna víða um heim sem vinna að rannsóknum á hæggengum veirusýkingum í mönnum og dýrum og nýtur starfsemin á Keldum enn góðs af þeirri viðurkenningu, sem stofnuninni tókst að afla sér á alþjóðlegum vettvangi á fyrstu starfsárunum.
Frá upphafi hafa verkefni Tilraunastöðvarinnar fyrst og fremst verið rannsóknir á sjúkdómum og sjúkdómavörnum dýra og er hún leiðandi stofnun á því sviði. Viðfangsefnin hafa breyst í áranna rás samhliða breytingum í atvinnuháttum. Í dag starfar Tilraunastöðin eftir lögum um stofnunina nr. 67 frá 1990, en að auki er henni ætlað sérstakt hlutverk við rannsóknir á fisksjúkdómum samkvæmt lögum nr. 50 frá 1986. Á Keldum eru stundaðar rannsóknir á sjúkdómum í flestum spendýrategundum Íslands og allmörgum fugla- og fisktegundum. Tilgangur rannsóknanna er að efla skilning á eðli sjúkdóma og skapa nýja þekkingu. Heilbrigð dýr eru forsenda arðvænlegs landbúnaðar og fiskeldis. Mikilvægt er að dýr beri ekki sjúkdóma í menn með matvælum eða öðrum hætti. Stofnunin þarf að geta brugðist sem skjótast við nýjum og aðkallandi vandamálum á sviði sjúkdómagreininga. Viðbúnaður þarf að vera til staðar vegna vandamála sem upp kunna að koma með tilheyrandi mannauði og aðstöðu.
Tilraunastöðin hefur þjónustuskyldur varðandi greiningar á dýrasjúkdómum, en þær eru unnar í nánum tengslum við rannsóknirnar til að samlegðaráhrif verði sem best.
Tilraunastöðin starfar sem innlend tilvísunarrannsóknastofa á nokkrum sviðum. Unnið er eftir gæðakerfi og hafa valdar prófunaraðferðir hlotið faggildingu samkvæmt alþjóðlegum faggildingarstaðli. Starfsemin innan stofnunar er fjölþætt og aðferðum margra fræðigreina er beitt í grunn- og þjónusturannsóknum á sviði líffærameinafræði, örverufræði, ónæmisfræði, sníkjudýrafræði, lífefnafræði og sameindalíffræði. Keldur sér innlendum rannsóknastofum fyrir dýrablóði, úr hestum og kindum, sem þær nota til að framleiða sýklaæti. Frá upphafi hefur verið framleitt bóluefni á Keldum, aðallega til að verja sauðfé gegn smitsjúkdómum. Nú um mundir er þar framleitt bóluefni gegn lungnapest og blandað bóluefni gegn lambablóðsótt, flosnýrnaveiki og bráðapest. Þá er í litlum mæli framleitt mótefnasermi gegn lambablóðsótt og garnapest. Víðtækt samstarf er við innlendar og erlendar stofnanir og háskóla í verkefnum og notkun á kjarnaaðstöðu. Samhliða þessu er fjölbreytt samstarf við atvinnulífið, má þar nefna landbúnað, fiskeldi, sjávarútveg og stangveiðifélög, matvælaframleiðslu og líftækniiðnað. Starfið á Keldum er gott dæmi um hvernig tengsl atvinnulífs og vísindastarfs geta verið. Tilraunastöðin fjármagnar starfsemi sína með framlagi skv. fjárlögum, þjónustutekjum og styrkjum úr samkeppnissjóðum.
Tilraunastöðin er háskólastofnun sem tengist læknadeild Háskóla Íslands en hefur sérstaka stjórn og sjálfstæðan fjárhag og heyrir undir mennta- og menningarmálaráðuneytið. Stjórnina skipa fimm manns, einn þeirra er tilnefndur af Læknadeild Háskóla Íslands, einn af Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, tveir af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, þar af annar úr hópi starfsmanna Tilraunastöðvarinnar, og einn stjórnarmaður er kosinn af starfsmönnum stofnunarinnar. Sérstaða Keldna felst í því að hún er eina stofnunin á Íslandi sem vinnur eingöngu að rannsóknum á dýrasjúkdómum. Starfseminni er skipt í fjórar fagdeildir; 1) stjórnsýsludeild, 2) veiru- og sameindalíffræðideild, 3) bakteríu-, sníkjudýra- og meinafræðideild og 4) rannsóknadeild fisksjúkdóma.
Á Keldum starfa sérmenntaðir og framsæknir vísindamenn sem hafa faglega forystu á ýmsum fræðasviðum og þar að baki býr mikil þekking og reynsla. Við rannsóknir á dýrasjúkdómum og við sjúkdómagreiningar skiptir miklu máli að hafa öflugt rannsóknateymi með reyndum sérfræðingum á fræðasviðum Tilraunastöðvarinnar. Unnið er eftir sérstakri gæðastefnu, jafnréttisstefnu, starfsþróunarstefnu og starfsþróunaráætlun. Sérfræðingar stofnunarinnar vinna jöfnum höndum við grunn- og þjónusturannsóknir og kynna niðurstöður sínar í vísindagreinum og bókarköflum í erlendum ritrýndum ritum. Ennfremur fer kynningarstarfsemi fram á ráðstefnum, innlendum og erlendum.
Á Íslandi eru einstakar aðstæður fyrir ýmis rannsóknar- og skimunarverkefni á sviði dýrasjúkdóma. Þessar aðstæður hafa skapast vegna landfræðilegrar einangrunar landsins og stærðar þess. Sökum þessa hefur ónæmiskerfi dýra á Íslandi ekki verið útsett fyrir ýmsum smitefnum, og mismunandi stofnum þeirra, í sama mæli og víða erlendis. Margir dýrastofnar á Íslandi hafa því annað næmi fyrir ýmsum smitsjúkdómum en gengur og gerist í heiminum. Miðað við flest önnur lönd er íslensk náttúra tegundafá, sem hefur skapað rannsóknum á Tilraunastöðinni nokkra sérstöðu. Vaxandi lífsýnasöfn gefa aukna möguleika á nýjum samanburðarrannsóknum af ýmsum toga. Stöðug þróun er á fræðasviðum sjúkdómalíffræðinnar varðandi þekkingu og aðferðir. Nýjar aðferðir eru teknar inn sem auka greiningarhæfni, afkastagetu og afkastahraða. Tölvuvæðing mælingartækja og tengsl þeirra við myndgreiningar eru í hraðri þróun. Flókin úrvinnsla gagna er tölvuvædd í auknum mæli. Ýmsar áskoranir eru framundan. Má þar nefna aukna hnattvæðingu með ferðalögum og vöruflutningi sem skapar ný viðmið í allri hugsun um dreifingu smitsjúkdóma í mönnum, dýrum og plöntum. Með auknum innflutningi ferskra landbúnaðarvara og aukinni ferðamennsku er einstakri smitsjúkdómastöðu íslenskra búfjárstofna ógnað. Hætta er á að ný smitefni, sem munu hafa áhrif á heilsu manna og dýra, berist út í lífríkið. Nýjar áskoranir fylgja auknu fiskeldi og aukin heilsufarsvandamál hafa skapast vegna sýklayfjaónæmra baktería, sem gætu aukist enn frekar, sé ekki gripið til aðgerða í tíma. Aðstæður í umhverfi geta haft áhrif á útbreiðslu sjúkdóma, s.s. loftslagshlýnun og breytingar á vistkerfum (t.d. skóglendi og votlendi).
Tilraunastöðin hefur frá upphafi verið staðsett á jörðinni Keldum, sem ríkið eignaðist árið 1941. Þá var jörðin í Mosfellssveit en er nú innan Reykjavíkurborgar.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd