Saga TM er samofin miklum samfélagsbreytingum og atvinnuþróun á Íslandi frá stofnun til dagsins í dag. Rætur félagsins liggja í íslenskum sjávarútvegi, en félagið var stofnað árið 1956 af útgerðarfyrirtækjum sem töldu hag sínum best borgið í eigin vátryggingarfélagi. TM byrjaði smátt og á upphafsárunum þjónaði félagið eingöngu frystihúsum og útgerðum. Starfsmenn fyrstu árin voru einungis innan við tíu talsins. Smám saman óx starfseminni fiskur um hrygg og á sjöunda áratug síðustu aldar hóf félagið sölu bifreiðatrygginga og síðan alhliða trygginga. Með tímanum hefur vöru- og þjónustuframboð TM breikkað og félagið hefur lagað sig að síbreytilegum þörfum einstaklinga og fyrirtækja fyrir vátryggingavernd og -þjónustu. Félagið hefur vaxið jafnt og þétt frá stofnun og þrátt fyrir sterkar rætur í miðbænum og sjarma við þá staðsetningu náði félagið á endanum slíkri stærð í upphafi aldarinnar að flutningar voru óhjákvæmilegir. Árið 2009 flutti TM úr Aðalstræti 6-8 í nýtt húsnæði við Síðumúla 24 sem gjörbreytti aðstöðunni fyrir starfsmenn og aðgengi fyrir viðskiptavini til hins betra. Þann 8. maí 2013 var TM skráð í Kauphöll Nasdaq OMX á Íslandi og í árslok 2018 voru hluthafar í TM 802 talsins, allt í senn lífeyrissjóðir, fjárfestingasjóðir, fagfjárfestar og almennir fjárfestar. Forstjóri TM er Sigurður Viðarsson, en hann hefur stýrt félaginu frá árinu 2007. Framkvæmdastjórar eru sex talsins, Garðar Þ. Guðgeirsson framkvæmdastjóri þróunar, Hjálmar Sigurþórsson framkvæmdastjóri tryggingar, Kjartan Vilhjálmsson framkvæmdastjóri samskipta, Markús H. Árnason framkvæmdastjóri fjárfestinga, Ólöf Jónsdóttir framkvæmdastjóri fjármögnunar, Óskar B. Hauksson framkvæmdastjóri fjármála og reksturs. Stjórnarformaður TM er Örvar Kærnested.
Mannauður
Starfsfólk TM er lykillinn að árangri og velgengni fyrirtækisins. Það er TM því sérstakt kappsmál að skapa lifandi og kraftmikið starfsumhverfi og vera aðlaðandi vinnustaður fyrir hæfileikaríkt og metnaðarfullt fólk. Aðeins þannig getur félagið þróast og eflst með það að markmiði að mæta kröfum framtíðarinnar. Fastráðnir starfsmenn TM eru 128 talsins, 69 karlar og 59 konur og er starfsfólk TM samhentur hópur með ólíka menntun og reynslu sem skapar jarðveg fyrir fjölbreytt sjónarmið og hugmyndir. Auk höfuðstöðva félagsins í Síðumúla starfrækir TM þrjú útibú, í Reykjanesbæ, í Vestmannaeyjum og á Akureyri. Því til viðbótar eru 6 umboðsskrifstofur TM víðs vegar á landinu. Þá hefur félagið starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu og í Færeyjum. Á undanförnum árum hefur TM lagt sérstaka áherslu á jafnréttismál og frá árinu 2017 hefur verið unnið að sérstöku verkefni til að styrkja stöðu jafnréttismála enn frekar. TM var með fyrstu fyrirtækjum til að fá viðurkenningu Jafnréttisvísis Capacent, en við veitingu hennar var meðal annars horft til menningar, samskipta og vinnuumhverfis, stefnu og skipulags, launa og fyrirmynda innan TM. TM hefur verið með jafnlaunavottun samfellt frá árinu 2014 og til að halda jafnlaunavottun verður óútskýrður kynbundinn launamunur innan félagsins að mælast undir 5%.
Helgun starfsfólks er mæld samkvæmt svörun þess á kjarnaspurningum Gallup í vinnustaðagreiningu. Helgun er einn af fimm lykilmælikvörðum TM og hefur félagið sett sér markmið um að helgun mælist 4,2 eða hærri og það markmið hefur náðst sl. þrjú ár. TM hefur undirritað yfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar um loftslagsmál og sett sér markmið í þeim efnum til ársins 2030. Markmið félagsins er að minnka kolefnisfótspor sitt um um a.m.k. 34% og auka flokkun úrgangs í 98% á tímabilinu. TM er enn fremur ábyrgur fjárfestir og tekur þannig mið af umhverfislegum og félagslegum þáttum og stjórnarháttum við fjárfestingarákvarðanir með það að markmiði að draga úr áhættu og skila sjálfbærri ávöxtun til langs tíma. TM var stofnaðili að samtökunum IcelandSIF árið 2017, en tilgangur samtakanna er m.a. að efla þekkingu fjárfesta á aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga. Starfsmenn TM og stjórn telja að með því að hafa samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi í störfum sínum minnki verulega líkur á því að félagið verði fyrir áföllum sem hafi skaðleg áhrif á ímynd þess og orðspor. Samfélagsleg ábyrgð er leiðarljós í daglegri ákvarðanatöku og þannig má hafa jákvæð áhrif á samfélagið, bæta nýtingu auðlinda, auka þekkingu og lækka kostnað. Skýrt leiðarljós um samfélagsábyrgð styður jafnframt við gildi félagsins um heiðarleika og sanngirni.
TM er virkur þátttakandi í íslensku samfélagi og hefur í gegnum árin stutt sérstaklega við unga íþróttamenn og kvennaíþróttir. Á ári hverju taka hundruð barna þátt í TM-mótum, t.d. í Vestmannaeyjum þar sem um 1000 stúlkur af öllu landinu keppa í knattspyrnu.
Framtíðarsýn og þróun
Í byrjun árs 2018 kynnti TM uppfærða sýn á framtíðina þar sem félagið setti fram þann ásetning sinn að vera það félag sem er leiðandi í nýsköpun á íslenskum vátryggingamarkaði og í forystu þegar kemur að nýjungum í vöruframboði og þjónustu. Skilaboð félagsins til viðskiptavina TM eru: „Hugsum í framtíð“ og í því felst bæði hvatning til að huga að framtíðinni þegar ákvarðanir eru teknar í dag, sem er á margan hátt kjarninn í vátryggingastarfsemi, og sömuleiðis brýning til að festast ekki farinu og fyrirkomulagi dagsins heldur taka breytingum og þróun opnum örmum. Það er óþarfi að tíunda hvernig tækniframfarir hafa gjörbreytt því hvernig þjónusta og viðskipti fara fram og það á undraverðum tíma. Netverslun Íslendinga hefur t.a.m. vaxið ár frá ári og 2018 keyptu 74% Íslendinga vörur eða þjónustu á netinu skv. könnun Gallup. Í aldurshópnum 18-44 ára var þetta hlutfall yfir 90%. Sá tími þegar landsmenn fóru á söluskrifstofu til að kaupa flugfarseðil og í banka til að greiða reikninga er órafjarri og um þessar mundir eru t.d. matarinnkaup heimila að færast hröðum skrefum inn á netið því neytendur kjósa að nýta verðmætan tíma sinn annars staðar en í matvöruverslunum. Þessari þróun hefur TM tekið fagnandi og á árinu 2018 hleypti félagið af stokkunum margvíslegum nýjungum sem hafa það að markmiði að auka þægindi viðskiptavina, aðgengi þeirra að upplýsingum og möguleika á þjónustu á þeim tíma sem þeim hentar.
Í upphafi ársins 2018 kynnti félagið TM appið og var þar með fyrst íslenskra tryggingafélaga til að bjóða viðskiptavinum sínum slíka þjónustu. Í appinu hafa viðskiptavinir TM skýra og einfalda framsetningu á öllum upplýsingum sem varða sín viðskipti við félagið, útskýringar á mannamáli á því hvað tryggingarnar þeirra innifela, hvað er bætt, hvað ekki og síðast en ekki síst hvað þær kosta.
Þessu til viðbótar er í gegnum appið hægt að tilkynna til TM öll algengustu tjón á heimilismunum, t.d. símum, tölvum og sjónvörpum og fá bætur greiddar á hraða sem á sér fáar, ef nokkrar, hliðstæður í heiminum. Um fjórðungur allra viðskiptavina sem hafa tilkynnt slík tjón á heimilismunum sl. 12 mánuði hefur valið að nýta sér appið og hlutfall þeirra sem nota það fer stöðugt vaxandi.
Það er markmið TM að viðskiptavinir séu rétt tryggðir á hverjum tíma og í því skyni var Launavernd TM hleypt af stokkunum haustið 2018. Með Launavernd TM gefst viðskiptavinum nú kostur á einstaklingsmiðaðri greiningu sem sýnir á einfaldan hátt hvernig fjárhagsleg afkoma fjölskyldu eða einstaklings breytist við fráfall, alvarleg veikindi eða örorku. Launavernd TM reiknar út réttindi hjá almannatryggingum, lífeyrissjóðum og stéttarfélögum og ráðleggur þá vátryggingavernd sem þarf til að mæta óskum viðskiptavinar um fjárhagslega stöðu sína eða fjölskyldu sinnar komi til andláts, veikinda eða slyss. Launavernd TM hefur hjálpað viðskiptavinum að gera sér raunverulega grein fyrir sinni stöðu, samspili bótakerfa og gert þeim kleift að vera rétt tryggðir í samræmi við sínar aðstæður.
Í lok ársins 2018 hóf TM svo sölu á tryggingum á netinu. Einstaklingar geta keypt helstu tryggingar heimilisins á netinu hjá TM, fengið samstundis verð og klárað málið til enda með rafrænni uppsögn til annars vátryggingafélags, allt á nokkrum mínútum. Með þægilegu ferli og hnitmiðuðum spurningum eru þarfir viðskiptavinarins greindar og honum gert tilboð í þá vernd sem félagið ráðleggur. Viðskiptavinur getur síðan breytt, bætt við og tekið út valkvæða þætti allt eftir því sem honum hentar. Við kaup á ökutækjatryggingum virkjar viðskiptavinur svo kaskótrygginguna með því að taka myndir af bílnum í gegnum TM appið og sparar sér þannig sporin við að koma með bílinn í skoðun. TM er eina tryggingafélagið á Íslandi sem býður upp á stafræna þjónustu af þessu tagi og hún hefur fengið góðar viðtökur hjá neytendum. Árið 2020 var viðburðaríkt fyrir margar sakir. TM hélt áfram vegferð sinni í þróun nýrra og þægilegra lausna fyrir viðskiptavini. Félagið bjó vel að þróunarstarfi undanfarinna ára þegar óvenjulegar aðstæður sköpuðust vegna kórónuveirufaraldursins og lokunar þjónustuskrifstofa í kjölfarið. Starfsmenn og viðskiptavinir þurftu að tileinka sér nýjar lausnir á stuttum tíma og það er óhætt að segja að röskun á daglegri þjónustu hafi verið óveruleg þökk sé góðum samskiptaleiðum og lausnum. Þá leiddi ástandið ótvírætt til þess að mörgum þróunarverkefnum var hraðað og gerði það starfsmenn og starfsemi í stakk búna að taka stærri og ákveðnari skref í átt til framtíðar í þessum efnum. Þá fór í hönd það krefjandi og spennandi verkefni að sameina Lykil að starfsemi félagsins en gengið var frá kaupum á fjármögnunarfyrirtækinu í upphafi árs 2020. Húsnæði TM við Síðumúla var breytt til að rúma nýja og fjölbreyttari starfsemi og drög lögð að öllu sem ráðast þarf í við sameiningu tveggja stórra og öflugra fyrirtækja. Fram undan var sókn með heildstæða lausn í fjármögnun og tryggingum fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Á haustdögum samdist um sameiningu TM, Lykils og Kviku banka sem opnar á nýja og spennandi möguleika við að veita viðskiptavinum sérmíðaðar heildarlausnir í fjármála- og tryggingaþjónustu. Í hönd fer vinna við sameininguna, lík þeirri sem fram fór fyrir ári, en enn meiri að umfangi og vöxtum. Til verður mjög öflugt fyrirtæki með djúpar rætur og þekkingu á íslensku samfélagi, viðskiptavinum og hluthöfum til hagsbóta. Starfsfólk TM er stolt af þeim nýjungum sem kynntar hafa verið undanfarin misseri en þetta er rétt að byrja. Tækniþróun og kröfur viðskiptavina knýja starfsmenn áfram til að leita bestu leiða til að veita þjónustu og lausnir sem eru í takt við þarfir þeirra, þegar viðskiptavininum hentar. Það bendir margt til þess að breytingar á starfsemi vátryggingafélaga verði meiri á næstu 10 árum heldur en hafa orðið á síðustu 50 árum samtals og það er stefna TM að vera fremst í flokki í þeirri þróun.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd