Tónlistarskóli Árnesinga var stofnaður árið 1955 að frumkvæði sr. Sigurðar Pálssonar fyrrum vígslubiskups og Rotaryklúbbs Selfoss, en fyrsti skólastjóri tónlistarskólans var Guðmundur Gilsson (1955-1968). Um stjórnartaumana hafa í kjölfarið haldið þeir Jón Ingi Sigurmundsson (1968-1971), Glúmur Gylfason (1971-1972), Jónas Ingimundarson (1972-1974), Sigurður Ágústsson (1974-1978), Ásgeir Sigurðsson (1978-2000) og Róbert A. Darling (2000-2017). Núverandi skólasjóri er Helga Sighvatsdóttir. Jóhann I. Stefánsson er aðstoðarskólastjóri, en deildarstjórar eru Edit Anna Molnár, Gestur Áskelsson, Guðmundur Kristmundsson, Margrét S. Stefánsdóttir og Vignir Ólafsson.
Rekstur skólans og nemendur
Að rekstri skólans koma öll átta sveitarfélög Árnessýslu, undir merkjum Héraðsnefndar Árnesinga og fer kennsla fram í öllum grunnskólum sýslunnar auk kennsluhúsnæðis að Eyravegi 9 og 15 á Selfossi (alls 14 kennslustaðir).
Strax í upphafi voru nemendur um 50 talsins, en í dag 65 árum frá stofnun skólans, eru 550 nemendur skráðir til náms og 37 kennarar sem starfa við skólann. Allt samspils-, hljómsveita- og kórastarf hefur vaxið og dafnað og eru starfandi 49 hópar í vetur.
Skólastarfið
Sem sjá má er starfsemi Tónlistarskóla Árnesinga umsvifamikill bæði hvað þjónustusvæði og fjölda nemenda varðar. Það sem skiptir þó mestu máli er að starfsemin er gríðarlega öflug og kennarahópurinn er skipaður vel menntuðu, metnaðarfullu og áhugasömu fólki. Árlega er haldinn mikill fjöldi tónleika. Auk smærri haust- og vortónleikar, spila nemendur út um allt samfélagið fyrir jólin og á ýmsum viðburðum. Stórtónleikar hvers árs eru margir, en nefna má deildatónleika þar sem hópastarfið fær að njóta sín, á Degi tónlistarskólanna eru haldnir svæðisbundnir tónleikar víða um sýsluna og síðast en ekki síst má nefna óperusýningar sem settar eru upp þriðja hvert ár. Á öllum þessum stórviðburðum tekur um helmingur nemenda skólans þátt hverju sinni og kennarar lyfta grettistaki með vinnu sinni.
Tónlistarskóli Árnesinga hefur tekið virkan þátt í viðburðum bæði á landsvísu og milli landa, sem er mjög eflandi og gefandi fyrir nemendur. Innanlands má nefna æfingabúðir blásara-, strengja- og blokkflautusveita, samstarfsverkefni milli tónlistarskóla og uppskeruhátíð Nótunnar. Utanlands má nefna námskeið strengjanemenda í Póllandi, Suzuki-námskeið á Englandi, heimsókn blokkflautunemenda til Hollands og blásaramót á Spáni.
Markmið
Tónlistarskóli Árnesinga mun halda áfram að leggja sitt af mörkum til eflingar tónlistarfræðslu í Árnessýslu.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd