Tónlistarskóli Rangæinga var stofnaður fyrir forgöngu og áhuga Björns Fr. Björnssonar f.v. sýslumanns um áramótin 1955-1956 og var Guðmundur Gilsson sem þá var forystumaður og kennari við Tónlistarskóla Árnesinga fenginn til að taka að sér faglega stjórn og kennslu við Tónlistarskóla Rangæinga.
Árið 1976 varð skólinn sameign allra hreppanna í sýslunni og var rekinn af þeim samkvæmt lögum um tónlistarskóla. Skólinn var rekinn samkvæmt lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla til ársins 1989 en þá voru tónlistarskólar fluttir til sveitarfélaga og hefur byggðasamlagið Tónlistarskóla Rangæinga rekið skólann síðan og skipað skólanefnd.
Skólanefndina skipa Ágúst Sigurðsson formaður og sveitarstjóri Rangárþings Ytra, Lilja Einarsdóttir ritari og sveitarstjóri Rangárþings Eystra, Brynja J. Jónasdóttir f.h. Ásahrepps, Guðjón Halldór Óskarsson fulltrúi kennara og Sandra Rún Jónsdóttir skólastjóri.
Sandra Rún Jónsdóttir tók við störfum sem skólastjóri í ágúst 2020. Það er ekki frásögur færandi nema það að hún var einungis 26 ára gömul þegar hún tekur við starfinu sem þykir mjög ungt fyrir skólastjóra, og er hún yngst í starfsmannahópnum. En þrátt fyrir ungan aldur hefur hún mikla reynslu og menntun er varðar starfið.
Kennarar og nemendur
Í dag starfa um 20 kennarar við skólann í rúmlega 10 stöðugildum. Nemendur eru um 300 í allt, en skólinn sér um forskólakennslu í grunnskólum sýslunnar, forskólanemendur eru tæplega helmingur nemendafjölda skólans.
Skólastarfið
Skólinn starfar eftir Aðalnámskrá Tónlistarskólanna og er aðili að Prófanefnd tónlistarskóla. Boðið er uppá fjölbreytt nám í hljóðfæraleik og söng, bæði klassískt sem og rytmískt; á píanó, gítar, söng, stok strengi, blásturshljóðfæri og harmonikku.
Skólinn kennir á þremur stöðum í sýslunni; Laugalandi, Hellu og Hvolsvelli. Á Laugalandi fær skólinn lánaðar kennslustofur til afnota fyrir tónlistarkennslu, en á Hellu (Laufskálum 2) og á Hvolsvelli (Vallarbraut 16) hefur skólinn til umráða eigið húsnæði.
Árið 2020 hefur sett sitt strik í hvernig kennslu er háttað í skólanum vegna COVID-19. Þessi reynsla hefur kennt okkur margt en mun aldrei koma í stað fyrir hefðbunda kennslu en getur komið að góðum notum vegna óviðráðanlegra aðstæðna eins og veðurfars því nemendur skólans eru á mjög stóru og dreifbýlu svæði.
Markmið
Markmið skólans er að veita almenna tónlistarfræðslu og stuðla að eflingu söngs og tónlistarstarfs í héraðinu og að allir sem vilja geti stundað tónlistarnám á sínum eigin forsendum.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd