Rekstur Toyota á Íslandi hófst árið 1965 þegar fyrsti Toyotabíllinn var seldur hér á landi. Páll Samúelsson stofnaði fyrirtækið sem óx jafnt og þétt eftir því sem japanskir bílar unnu sér sess á Íslandi. Strax frá byrjun var góð þjónusta sett á oddinn og er þessi stefna stofnandans enn þá leiðarljós í allri starfsemi fyrirtækisins. Lengst af var starfsemin til húsa við Nýbýlaveg í Kópavogi en með vaxandi umsvifum bættust við starfsstöðvar á öðrum stöðum. Með árunum óx þörfin fyrir hagkvæmt húsnæði og aðstaðan á Nýbýlavegi dugði ekki lengur ef fyrirtækið átti að þróast eðlilega. Árið 2012 var tekin ákvörðun um að flytja alla starfsemina á einn stað og varð Kauptún 6 í Garðabæ fyrir valinu. Húsið hentaði vel og auðvelt var að aðlaga aðstöðuna að þörfum Toyota. Hér gafst einstakt tækifæri til að færa alla starfsemina undir eitt þak og mæta kröfum samtímans um góða aðstöðu fyrir viðskiptavini og starfsfólk. Toyota á Íslandi er umboðsaðili fyrir Toyota- og Lexus bifreiðar, auk varahluta og aukahluta. Eigendur eru Úlfar Steindórsson, forstjóri og Kristján Þorbergsson, fjármálastjóri. Þeir eru einnig eigendur að stærsta viðurkennda sölu- og þjónustuaðilanum sem er Toyota Kauptúni. Í Kauptúni er einnig til húsa viðurkenndur sölu- og þjónustuaðili fyrir Lexus. Aðrir viðurkenndir sölu- og þjónustuaðilar eru Toyota Reykjanesbæ, Toyota Selfossi og Toyota Akureyri. Að auki eru 8 önnur bílaverkstæði víða um land viðurkenndir þjónustuaðilar Toyota. Í Kauptúni er starfrækt standsetning þar sem bílar eru gerðir tilbúnir fyrir kaupendur, þar er einnig fullkomið verkstæði með 47 lyftum, málningar- og réttingaverkstæði, vara- og aukahlutalager, verslun með bílvörur og sýningarsalir fyrir nýja og notaða Toyota- og Lexusbíla.
Gildin
Í allri starfsemi Toyota er tekið mið af svökölluðum Toyota Way gildum. Gildin eru fimm og eru eftirfarandi:
Áskorun. Við tökum áskorun fagnandi. Toyota notar orðið áskorun í mun víðara samhengi en bara einföld áskorun. Við erum að tala um viðhorf en ekki hugarástand. Við greinum og metum þróun yfir lengra tímabil, höfum sýn til allt að næstu 10 ára.
Stöðugar framfarir (Kaizen). Margir ferlar stöðugra framfara í rekstrinum sem beinast ávallt að nýjungum og framþróun. Kaizen þýðir að gagngrýna og skoða þau kerfi sem fyrir eru og að allir séu tilbúnir að gagnrýna og skora á núverandi kerfi. Sköpunargleði er lykillinn – við getum náð meiri árangri án þess að auka fjármagn eða mannafla.
Þekkingarleit (Genchi Genbutsu). Felst í því að við leitum að uppsprettunni og kynnum okkur staðreyndir. Að við skiljum vandamálið og greinum uppsprettuna, náum í allar staðreyndir og komum með bestu lausnina.
Virðing. Felst í einlægum og heiðarlegum samskiptum og að bera virðingu fyrir öllum sem að málum koma. Gagnkvæmt traust og ábyrgð.
Samvinna. Við hámörkum árangur einstaklingsins og hópsins. Skuldbinding við fræðslu og framfarir. Virðing fyrir einstaklingnum og skilningur á styrk okkar sem hóps.
Umhverfisstefna Toyota á Íslandi
Umhverfismál hafa verið nátengd starfsemi Toyota á Íslandi um langt skeið. Stofnandinn, Páll Samúelsson var ötull skógræktarmaður og hann lagði grunn að stuðningi fyrirtækisins og samvinnu við Skógræktarfélag Íslands sem nú hefur staðið óslitið í rúm 30 ár. Toyota á Íslandi vill vera í fararbroddi fyrirtækja á sviði umhverfismála hér á landi og til að ná því höfum við tekið upp ISO 14001 staðalinn fyrst bílaumboða hér á landi.
Boðorðin okkar eru:
ISO 14001 staðallinn er öflugt stjórntæki sem notað er í allri starfsemi fyrirtækisins. Umhverfismál eru samofin starfseminni og eru ávallt höfð til hliðsjónar í öllum þáttum rekstrarins.
Það var okkur því mikil viðurkenning er Samtök atvinnulífsins útnefndi Toyota á Íslandi sem Umhverfisfyrirtæki ársins 2018. Samhljómur er með stefnu móðurfyrirtækisins í Japan og starfsemi Toyota á Íslandi þegar kemur að umhverfismálum því Toyota hefur sett sér metnaðarfull markmið fyrir starf fyrirtækisins á heimsvísu. Framtíðarsýnin er skýr eins og kemur fram í markmiðum sem ná á fyrir árið 2050. Umhverfisáskorun okkar fyrir árið 2050 var kynnt árið 2015 og hún samanstendur af sex ólíkum áskorunum sem ná til allra þátta fyrirtækisins, vöru- og tækniþróunar á okkar vegum og hlutverks okkar að auðvelda einstaklingum og samfélögum að fræðast um náttúruna og leggja sitt af mörkum í umhverfisvernd.
Áskorun 1 – Engin losun koltvísýrings úr nýjum bílum
Áskorunin „Engin losun koltvísýrings úr nýjum bílum“ snýst um að minnka losun koltvísýrings í bílum okkar um 90% fyrir árið 2050, miðað við losunina árið 2010. Þetta gerum við með því að gera hefðbundna orkugjafa sparneytnari og hvetja til þróunar á bílum með litla eða enga kolefnislosun, þar á meðal Hybrid, Plug-in Hybrid, rafmagnsbílum og vetnisbílum. Bílar sem nota hreina og umhverfisvæna orkugjafa fara aðeins að hafa veruleg áhrif þegar almenningur byrjar að nota þá í stórum stíl. Þess vegna vinnum við að því að auka framboð þeirra og hvetja til þróunar og uppbyggingar innviða sem styðja við notkun þeirra, svo sem áfyllingar- og hleðslustöðva.
Áskorun 2 – Engin losun koltvísýrings á endingartíma bíla
Með áskoruninni „Engin losun koltvísýrings á endingartíma bíla“ viljum við gera meira en að minnka koltvísýringslosun við framleiðslu bílanna sjálfra og akstur viðskiptavina okkar.
Við viljum draga úr losun koltvísýrings við framleiðslu efna og hluta sem við notum og sem hlýst af aðgerðum okkar við vörustjórnun og förgun og endurvinnslu ökutækja að loknum endingartíma þeirra. Þetta gerum við með því að vinna að umhverfisvænni hönnun sem notar kolefnissnauðari hráefni og færri efnishluta. Við munum nota endurnýjanleg náttúruleg efni í ríkari mæli og auðvelda sundurhlutun og endurvinnslu ökutækja okkar.
Áskorun 3 – Engin losun koltvísýrings frá verksmiðjum Toyota
Losun koltvísýrings er ekki einungis bundin við aksturinn; hún á sér einnig stað við framleiðslu bíla í verksmiðjum. Til að vinna gegn loftslagsbreytingum höfum við gert áætlun um hvernig við getum náð að losa engan koltvísýring í verksmiðjum okkar og einblínt á að bæta þá tækni sem við notum og skipta yfir í umhverfisvænni orkugjafa. Við munum gera framleiðsluferli okkar skilvirkari og styttri til að minni koltvísýringur myndist. Starfsstöðvar okkar verða orkunýtnari og við munum skipta yfir í endurnýjanlega orkugjafa, svo sem sólarorku og vindorku, og orkugjafa með litla kolefnislosun, til dæmis vetnisorku.
Áskorun 4 – Vatnsnotkun lágmörkuð og vatnsnýting hámörkuð
Vatnsþörf heimsins fer sífellt vaxandi og því er afar mikilvægt að sparlega sé farið með hráefnin, til dæmis með því að minnka efnisnotkun við framleiðslu og endurnýta eins mikið og hægt er.
Við höfum þegar byrjað að safna regnvatni á framleiðslustöðum til að verksmiðjur okkar gangi ekki jafn mikið á grunnvatn og vatnsveitur. Einnig höfum við þróað aðferðir til að hreinsa vatn til að við getum notað vatnið oftar en einu sinni eða skilað því öruggu aftur í vatnsveitukerfin.
Þar sem mikill munur er á vatnskerfum á mismunandi svæðum gætum við þess að aðgerðir okkar séu lagaðar að þörfum hvers staðar fyrir sig.
Áskorun 5 – Uppbygging samfélags og ferla á grunni endurvinnslu
Fólksfjölgun, aukin hagsæld og krafan um þægilegan lífsstíl ganga frekar á náttúruauðlindir en áður og allt þetta leiðir til aukinnar sóunar. Við viljum byggja upp samfélag sem er til fyrirmyndar hvað varðar auðlindanýtingu og endurvinnslu með því að einblína á fjögur lykilatriði: að nýta umhverfisvæn efni í auknum mæli, hanna og nota hluta sem endast lengur, þróa skilvirkari og víðtækari endurvinnslutækni og nota meira af efni sem er endurheimt við förgun bíla þegar nýir bílar eru framleiddir. Við búum yfir meira en 40 ára reynslu af nýsköpun og hugmyndavinnu á þessu sviði og erum staðráðin í að ná enn betri árangri í framtíðinni.
Áskorun 6 – Uppbygging framtíðarsamfélags í samhljómi við náttúruna
Til að vernda náttúruna og bæta umgengni okkar við hana þurfum við að vernda skóglendi og önnur mikilvæg vistkerfi. Ýmis verkefni, stór og smá og á öllum stigum fyrirtækisins, styðja markmið okkar um að bæta lífsskilyrði með endurræktun skóga, gróðursetningu, grænum borgaráætlunum og öðrum átaksverkefnum, bæði á starfsstöðvum og utan þeirra. Við munum nýta innsýn okkar í þetta málefni til að taka virkan þátt í að bæta menntun og vitund um umhverfismál til að byggja upp samfélag þar sem fólk býr í samhljómi við náttúruna.
Aðgerðir í umhverfismálum
Skógrækt – Toyota á Íslandi hefur stutt Skógræktarfélag Íslands óslitið frá árinu 1990. Toyota útvegar félaginu bíla til starfseminnar auk fjárframlags. Sérstakir Toyotaskógar eru á 6 stöðum á landinu. Í Brynjudal, við Esjuhlíðar, í Kjarnaskógi, í Reyðarfirði, við Sanda í Dýrafirði og við Varmaland í Borgarfirði. Með stuðningi við skógrækt vill Toyota leggja sitt af mörkum til að minnka áhrif losunar gróðurhúsalofttegunda.
Blái herinn – Blái herinn er heiti á grasrótarstarfi sem unnið er undir stjórn Tómasar J. Knútssonar, frumkvöðuls í umhverfismálum. Hann starfaði sem kafari og sá við vinnu sína hvernig umhorfs var á sjávarbotni í höfnum landsins. Hann ákvað að hefja hreinsun hafnanna og strandlengjunnar, aðallega á Reykjanesi. Toyota hefur stutt Bláa herinn með því að leggja til pallbíl til starfseminnar frá 2005.
Endurheimt votlendis – Toyota á Íslandi hefur stutt við tvö verkefni við endurheimt votlendis í Garðabæ, við Kasthúsatjörn 2016 og við Urriðavatn 2017.
Hybridbílar – Bílgreinin hefur lagt mikla áherslu á endurbætur á nýjum bílum þannig að þeir séu umhverfisvænni en áður. Fjöldi nýrra lausna hefur komið fram og ekki er ljóst núna hver hagkvæmasta lausnin til framtíðar verður. Þó er ljóst að orkugjafar í bílum og öðrum samgöngum verða fjölbreyttari í framtíðinni en verið hefur. Mismunandi orkugjafar munu verða notaðir eftir stærð og hlutverki ökutækisins Toyota kynnti Hybridtæknina með Prius árið 1997. Síðan þá hefur Hybridtæknin verið kynnt í stórum hluta vörulínu Toyota og Lexus. Hybridbílar eyða minna eldsneyti en sambærilegir bílar því þeir endurheima orku sem annars færi til spillis, t.d. þegar bremsað er og breyta henni í raforku sem notuð er í akstrinum. Þá er fyrsti vetnisknúni billinn frá Toyota, Mirai kominn í nortkun á Íslandi.
Stöðugar umbætur
Umhverfismál eru samofin allri starfsemi fyrirtækisins og alltaf er leitast við að taka ákvarðanir í rekstrinum með hag umhverfisins í huga. Markvisst er unnið að því að flokka sorp og árið 2018 var aðeins 12,6% sorpsins óflokkað. Þá eru sprautuklefar á málningarverkstæði Toyota í Kauptúni hitaðir með hitaveituvatni í stað olíu áður og nýtt bílaplan var lagt mottum úr endurunnu plasti.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd