Vörumerki Toyota er flestum á Íslandi sem og annarstaðar vel kunnugt enda Toyota um þessar mundir stærsti bílaframleiðandi heims og hefur verið umsvifamikill í áratugi. Velgengni Toyota, bæði á Íslandi sem og annarstaðar má fyrst og fremst rekja til þess að fyrirtækið framleiðir áreiðanlega og endingargóða vöru. Orðspor Toyota á Íslandi er sérlega gott og markaðshlutdeild með þeim hærri sem gerast. Toyota umboð eru nú rekin á fjórum stöðum um landið, Akureyri, Garðabæ, Reykjanesbæ og Selfossi. Toyota umboðið á Akureyri er staðsett í glæsilegri byggingu við Baldursnes 1 og er vonandi eitt það fyrsta sem grípur augað þegar keyrt er inn í bæinn norðanmegin. Þar eru seldir bæði nýjir og notaðir bílar sem og boðið upp á alla almenna viðgerðar- og varahlutaþjónustu. Starfsmannavelta hjá fyrirtækinu hefur frá stofnun verið merkilega lítil og að jafnaði starfa þar um 20 manns sem allir leggja sig fram eftir fremsta megni að veita góða þjónustu.
Upphafið og bakgrunnurinn
Toyota-umboðið á Akureyri hefur verið starfrækt í að verða 40 ár. Allan þann tíma hefur Haukur Ármannsson haldið þar um tauma sem framkvæmdastjóri en hann er jafnframt stofnandi fyrirtækisins. Haukur er fæddur á Akureyri árið 1961, að loknu verslunarprófi í gagnfræðiskólanum, þá 19 ára gamall réðst hann til starfa í víxla- og skuldabréfadeild Iðnaðarbankans og varð síðar útibústjóri hjá sömu stofnun aðeins 22 ára gamall. Samfara því fór Haukur að sinna ýmsum sjálfstæðum viðskiptum á hliðarlínunni og fór svo að bankastörfin voru endanlega gefin upp á bátinn. Árið 1984 fjárfesti hann í bílasölunni Stórholti sem enn í dag er nafnið á einkahlutafélaginu sem rekur Toyota umboðið og þar með var lagður grunnur að farsælum rekstri.
Framgangurinn og uppbyggingin
Fyrsta aðsetur Stórholts árið 1985 var við Hjalteyrargötu 2, sem allt var tekið í gegn og málað í hinum alkunnu rauðu og hvítu litum hins sígilda vörumerkis. Í góðu samstarfi við aðalumboðið P. Samúelsson eh. í Kópavogi, hóf Haukur Ármannsson þarna umboðssölu fyrir nýjar Toyota bifreiðar og þá í húsnæði sem rúmaði 10-12 bifreiðar innandyra en athafnasvæðið í heild sinni náði yfir um 350fm. Umboðið var rekið á þessum stað til ársins 1991 en þá var flutt í mun stærra athafnasvæði eða 650fm húsnæði í nýju iðnaðar- og verslunarhverfi að Óseyri 4. Sú staðsetning þótti heppilegri og meira í alfaraleið. Innandyra var gott rými með sýningarsal sem rúmaði 20-30 nýjar bifreiðar. Þegar líða tók á áratuginn átti aukið þjónustustig eftir að skila sér í 30-40% markaðshlutdeild Toyota á Akureyri og ekki óalgengt að um 100-140 bifreiðar skiptu um eigendur í gegnum umboðið í hverjum mánuði.
Stórhýsi rís
Ekki leið að löngu þar til góður árangur Toyota á Akureyri tók að vekja athygli aðalumboðsins fyrir sunnan. Árið 1997 var ákveðið að reisa umboðinu fyrir norðan veglega aðstöðu á góðum stað í bænum. Mikil áhersla var lögð á að með nýju húsnæði myndi öll þjónusta vera undir einu þaki, þar með talið verkstæði og varahlutalager. Farið var af stað með hönnunarsamkeppni en þar hlaut brautargengi tillaga Fanneyjar Hauksdóttur hjá Arkitektastofu Hauks Haraldssonar á Akureyri. Hönnunin er í heild sinni mörkuð af mikilli hugkvæmni og hvert smáatriði hugsað út frá þeirri starfsemi sem í húsinu átti að vera, sem er nokkuð sem ekki margar bílasölur eða umboð geta státað sig af. SS byggir tók að sér að reisa þetta glæsihýsi sem er í heild 1.280fm. Innandyra er sýningarsalur sem rúmar vel 14 bifreiðar en á útisvæði er gert ráð fyrir smekklegri uppröðun á um 150 bifreiðum, þó í dag séu þar oft mun fleiri bifreiðar en sem því nemur. Húsnæðið er í raun tvískipt og í öðrum helmingnum er verstæði og varahlutalager á meðan í hinum helmingnum er sýningarsalur og bílasala. Bæði á sjálfri lóðinni og í formi byggingarinnar má sjá að þar ráða sporöskjulaga útlínur Toyota merkisins ríkjum. Í byggingunni sjálfri eru bogalagaðir veggir sérlega áberandi og ef horft er á lóðina úr lofti má sjá að athafnasvæðið í heild sinni hefur nákvæmlega sömu lögun og Toyota merkið sem má svo finna í grilli flestra bíla á planinu. Þegar kom að því að velja plöntur á útisvæði fannst sölumanninum Hauki Ármannssyni auðvitað ekki annað koma til greina en að þar væru Reynir og Selja mest áberandi. Formleg vígsla stórhýsis Toyota umboðsins á Akureyri fór síðan fram þann 17. júní árið 2000.
Framtíðin
Eftir góð fyrri ár er ekki annað hægt en að horfa björtum augum til framtíðar. Í kjölfar fjármálakreppunnar 2008 komu vissulega nokkur mögur ár en sökum hófsemis sem ávallt hafði verið gætt og sterkrar eiginfjárstöðu kom fyrirtækið vel undan henni. Í gegn um tíðina hefur ýmslegt tekið stakkaskiptum hjá fyrirtækinu og starfsemin þróast, um tíma var starftækt samhliða umboðinu bónstöð, hjólbarða og dekkjaverkstæði sem og umboð fyrir snjósleða og bifhjól. Í dag nær starfsemin ekki í aðra byggingu utan Baldursness 1 þar sem þungamiðjan er bílasalan sem selur nýjar og notaðar Toyota bifreiðar, ásamt verkstæði og varahlutalager sem síðan þjónusta þessar sömu bifreiðar.
Hvað varðar framtíð vörumerkisins þá hefur Toyota líkt og aðrir framleiðendur lagt mikið í þróun á vistvænari bifreiðum án þess þó að gefa eftir í þeim atriðum sem hafa gert vörumerkið jafn vinsælt hjá viðskipavinum og raun ber vitni. Hybrid tækni Toyota sem sífellt verður þróaðari er vinsæl meðal þeirra sem vilja taka þátt í að minnka kolefnissporið sitt. Þegar þetta er skrifað eru um 56% þeirra bifreiða sem í boði eru Hybrid, seldar sem slíkar og til stendur að hægt verði að fá allar tegundir framleiðandans í þeirri útfærslu á allra næstu árum. Bæði á verkstæði og í bílasölu er séð til þess að allir fái þjálfun í að umgangast þessar bifreiðar og kemur þar endurmenntunarstefna Toyota sterk inn.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd