Transporter / Diesel

2022

Kolbeinn Blandon rekur bílasöluna Diesel að Klettshálsi 15 í Reykjavík. Ferill hans sem bílasala hófst fyrir margt löngu að sögn. Hann segist hafa verið á ferð í Þýskalandi að þreifa fyrir sér um bílakaup fyrir sjálfan sig. Hann keypti sér bíl þar og skömmu síðar keypti hann bíla fyrir aðra í fjölskyldunni og þegar fram liðu stundir var hann farinn að kaupa bíla fyrir hina ýmsu aðila sem hann var kunnugur og orðinn bílasali án þess beinlínis að það hafi verið ásetningur hans í upphafi. Kolbeinn hefur verið í þessum bransa allar götur síðan eða í tuttugu og fimm ár.

Sagan
Diesel hefur starfað síðan 2003 en Kolbeinn rak einnig fyrirtækið Bílar og List við Vegamótastíg en hann hefur sinnt umboðssölu fyrir ýmsa myndlistarmenn meðfram bílasölunni. Kolbeinn hefur marga fjöruna sopið og þá haðfi ekki síst hrunið afgerandi áhrif á allt starfsumhverfi og rekstur en hann náði með herkjum að halda sjó. Innflutningur nýrra og notaðra bíla hafði verið meginuppistaðan í rekstri fyrirtækisins. Hann byrjaði með litla bílasölu eftir hrunið og hefur gengið vel allar götur síðan.

Starfsemin
Kolbeinn elskar bíla og hefur gaman af því sem hann er að gera. Það felst einkum í því að hitta margt fólk, kynnast því og vera í góðum samskiptum við það. Það fer ekki framhjá neinum sem leggur leið sína upp að Klettshálsi að þar um kring úir og grúir af bílasölum. Samkeppnin er gríðarlega hörð og bílakaupendur eru duglegir að fara á milli til að kanna verð og gæði enda þekkt hvað Íslendingar hafa mikið dálæti á bílum. Umhverfið í sölu á notuðum bílum hefur gjörbreyst á síðustu árum með tilkomu samfélagsmiðla þar sem bílar ganga kaupum og sölum í gegnum netsíður og kannski sumpart gamaldags að kíkja á bílasölur og hitta bílasalana að máli en þau samskipti kunna að vera mörgum mikilvæg. Bílasalar eru að sýsla með fjármuni annarra og það krefst fagmennsku, ábyrgðar og heiðarleika í viðskiptunum. Á hinn bóginn hefur internetið gert mönnum kleift að stunda bílakaup og bílasölu sín á milli á mjög einfaldan og skilvirkan hátt. Má vera að þegar verð bílsins er farið að skipta einhverjum milljónum að það þyki gott að hafa heiðarlegan og faglegan bílasala til að hafa milligöngu um viðskiptin. Innflutningurinn er engu að síður kjölfestan í rekstri Diesel.

Listin
Athygli vekur að tilkomumikil málverk prýða marga veggi bílasölunnar en Kolbeinn hefur einmitt verið að selja málverk fyrir valinkunna listamenn og haft gaman af allar götur frá því hann var með Bíla og List. Kolbeinn hefur gaman af því sem hann er að gera og er ástríðu hans fyrir því að kaupa og selja lítil takmörk sett. Rétt eins og kaupmennska sé honum í blóð borin og þá er ekki verið að tala um að telja peninga heldur þá skemmtun að eiga samtöl og samskipti við fólk því maður er manns gaman eins og sagt er.

Skrifstofan
Á bílasölunni Diesel eru fimm fastir starfsmenn og starfsandinn með allra besta móti. Kúnnarnir vilja flestir eiga samskipti við Kolbein sjálfan og þykir honum stundunm nóg um þótt oftast sé gaman í vinnunni. Það er eftirtektarvert hversu mikið flæði er af fólki inn og út en þó er það að stærstum hluta karlmenn. Það er engu logið um það að afar fáar konur leggja það fyrir sig að selja bíla. Enn er bílasala sá heimur sem tilheyrir körlum; að mestu.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd