Trésmiðja Heimis var stofnuð þann 1. júlí árið 1984 af okkur; Heimi Guðmundssyni og Laufeyju Ásgeirsdóttur í kjallaranum á heimili okkar að Lyngbergi 5 hér í Þorlákshöfn. Árið 1988 byggðum við svo iðnaðarhúsnæði að Unubakka 3b þar sem við erum enn þann dag í dag með fyrirtækið.
Sagan
Í byrjun var Heimir eini starfsmaðurinn en fljótlega þurfti að ráða menn því verkefnin voru þess eðlis að ekki var hægt að sinna þeim einsamall.
Verkin
Verkin voru af ýmsum stærðum og gerðum. Allt frá því að byggja fiskeldisstöð, hraðfrystihús, verslunarhúsnæði, íþróttahús og viðbyggingu við grunnskóla Þorlákshafnar og svo ýmsar hafnarframkvæmdir, yfir í að byggja einbýlishús, raðhús, fjórbýli og svo mætti lengi telja hér í Þorlákshöfn.
Árið 1988 fór Trésmiðja Heimis að byggja sumarhús og gestahús fyrir félagasamtök og einstaklinga sem eru vönduð hús fyrir íslenskar aðstæður og er okkar markmið ávallt gæði og sveigjanleiki. www.tresmidjan.is
Með tímanum fór verkefnum fjölgandi og starfsmönnum fjölgaði um leið. Í fyrstu voru sumar-húsin byggð samkvæmt stöðluðum teikningum en í áranna rás hefur það breyst og í dag eru húsin byggð samkvæmt óskum hvers og eins. Smíði sumarhúsa og gestahúsa er í dag orðin stór partur af verkefnum fyrirtækisins. Einnig er viðhald á eldri sumarhúsum og breytingar og stækkanir á þeim alltaf að færast í vöxt.
Eftir að Suðurstrandavegurinn opnaði fékk Trésmiðja Heimis lóðir undir parhús og raðhús í Grindavík, einnig raðhús í Þorlákshöfn, enda stutt á milli þessara staða og hefur trésmiðjan verið með hús í byggingu þar allt frá opnun vegarins og til dagsins í dag.
Í dag, árið 2021, eru tveir starfsmenn á skrifstofunni og 14 smiðir eða menn vanir byggingar-vinnu, sem starfa hjá fyrirtækinu.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd