„Alltaf nóg að gera!“
Trésmiðjan Borg, eignarhaldsfélag á Sauðárkróki, hefur verið starfrækt í nær sextíu ár, reksturinn hefur verið verkstæðisvinna, viðhald eldri húsa og nýbyggingar. Seinni árin hefur þróunin verið á þann veg að trésmiðjan hefur sérhæft sig meira í smíði vandaðra innréttinga fyrir heimili og fyrirtæki.
Framleiðslan
Helsta framleiðsla Trésmiðjunnar Borgar er smíði á sérhönnun fyrir bæði fyrirtæki og heimili sem eru hönnuð af arkitektum. Má þar nefna allar gerðir af innréttingum í skrifstofuhúsnæði, eldhús, þvottahús og á baðherbergi; skápa, hillur og innihurðir.
Eigendur og stjórnendur
Trésmiðjan Borg var formlega stofnuð þann 1. júlí árið 1963 og voru stofnendur þeir Vilhjálmur Hallgrímsson, Stefán Guðmundsson og Hreinn Jónsson. Áður átti Vilhjálmur, eða Villi Hall eins og hann var gjarnan kallaður, Litlu trésmiðjuna og var rekstur hennar gerður út við Aðalgötuna á Króknum, við hlið Verslunar Haraldar Júlíussonar, í húsnæði því sem síðar fékk nafnið Leikborg og var aðsetur Leikfélags Sauðárkróks til langs tíma. Árið 1967 er hafin bygging nýs húsnæðis undir reksturinn við Borgarmýri 1, þar sem hann er enn í dag. Alfarið var flutt í það húsnæði í kringum 1969. Upp úr því bættust fleiri starfsmenn í eigendahópinn og sáu þeir um reksturinn fram til ársins 2005 er Kaupfélag Skagfirðinga eignaðist fyrirtækið og hefur verið eigandi síðan. Frá þeim eigendaskiptum hefur Sigurgísli Ellert Kolbeinsson starfað sem forstöðumaður og séð um daglegan rekstur. Fulltrúi rekstrarstjórnar Kaupfélags Skagfirðinga er hans næsti yfirmaður en þeirri stöðu gegnir Reimar Marteinsson í dag.
Mikið lagt upp úr sérsmíði
Áður fyrr var mikið um útivinnu hjá Trésmiðjunni Borg þar sem heilu húsin voru steypt upp ásamt ýmissi annarri hefðbundinni trésmíðavinnu, líkt og viðhaldi á húsum bæði inni og úti, en síðar var uppsteypu húsa hætt. Í kringum 1980 var verslun með sýningarsal standsett í Reykjavík, þar störfuðu tveir arkitektar sem sáu um sölumennsku samhliða teiknivinnu fyrir trésmiðjuna en í kringum árið 2006 var sú þjónusta lögð niður. Í dag má segja að starfsemin skiptist í tvennt, inni og útiflokk. Fyrrgreindi flokkurinn sér um allt sem tengist verkstæðisvinnu og uppsetningu innréttinga en sá síðarnefndi sér eingöngu um útiverk sem einkennast af viðhaldi húsa, pallasmíði og ýmsu öðru er til fellur.
Sérstaða
Sérstaða framleiðslunnar hjá Trésmiðjunni Borg er, og hefur alltaf verið, að leggja upp með vandaðar innréttingar og er aðalsmerkið sérsmíði þeirra. Það sem ekki er hægt að fá í stöðluðum stærðum sérhæfir fyrirtækið sig í að hanna og smíða „Flókin og vönduð stykki, sem á að leggja mikið í,“ segir Sigurgísli. Óhætt er að segja að Trésmiðjan Borg smíði allan pakkann í heilu húsin, allt frá hillum í stórar eldhúseiningar.
Trésmíði er í sjálfu sér aldagömul iðngrein sem hefur lagað sig að tækni nútímans líkt og hjá Trésmiðjunni Borg. Sumt í smíðavinnunni hefur ætíð verið gert upp á gamla mátann en Borgin hefur reynt að fylgja tíðarandanum í hvívetna og endurnýjað sínar vélar þegar þurfa þykir. Útkoman með nýjum vélum skal vera sambærileg því sem áður var en ávinningurinn er fólginn í styttri tíma sem tekur að smíða og framleiða.
Haldið í horfinu
Reksturinn hjá Trésmiðjunni Borg hefur verið nokkuð stöðugur undanfarin ár og í góðu jafnvægi. Verkefnastaða fyrirtækisins er einnig góð, „Alltaf nóg að gera!“ eins og forstöðumaðurinn orðar það, horfurnar eru góðar þegar litið er til framtíðar. Hann segir að með tilkomu Kaupfélags Skagfirðinga sem eiganda hafi stór hluti verkefna fyrirtækisins verið að viðhalda eignum þess og byggja við þær enda er hentugt að nota eigið fyrirtæki í þess háttar verkefni. Má þar t.d. nefna verk sem hófst árið 2020 og er enn þá í vinnslu en það er gamla Minjahúsið á Sauðárkróki sem stendur við Aðalgötu 16b. Þar er verið að stækka og breyta húsnæðinu í gistiheimili fyrir farandverkafólk sem kemur til að vinna hér í sláturtíðinni. Þar voru fengnir verktakar, K-tak á Sauðárkróki, til að steypa upp veggi og setja þak á viðbyggingar sem reistar voru við sinn hvorn gaflinn en Trésmiðjan Borg sér um annað er viðkemur verkefninu.
Að sögn Sigurgísla forstöðumanns er framtíðarsýn fyrir Trésmiðjuna Borg mjög góð þar sem nóg er að gera eins og staðan er í dag og þá eru ekki fyrirætlanir um breytingar á rekstrinum. Frekar er horft til þess að halda sig í því fari sem verið hefur undanfarin ár. „Það má segja að við ætlum okkur að viðhalda starfseminni eins og hún er í dag,“ segir Sigurgísli.
Mannauður
Í dag vinna 18 manns hjá Trésmiðjunni Borg. Tíu þeirra starfa á verkstæði við innréttingasmíði og þar af eru tvær konur, en í útiflokknum eru átta starfmenn. Á Borginni vinna fimm ófaglærðir starfsmenn en að sögn Sigurgísla eru flestir þeirra að læra trésmíði, aðrir eru lærðir smiðir og flestir þeirra eru með meistararéttindi. „Meðalaldur starfsmanna er liðlega fjörutíu ár en alltaf bætast þó ungir og efnilegir starfsmenn í hópinn,“ segir Sigurgísli að lokum.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd