Trésmiðjan Rein ehf

2022

Trésmiðjan Rein er alhliða byggingaverktaki sem sinnir öllu sem viðkemur nýbyggingum, viðhaldi og almennri þjónustu við fyrirtæki og stofnanir, með höfuðáherslur á Norðurland eystra. www.trerein.is

Upphafsárin
Trésmiðjan Rein var stofnuð á vordögum 1963 af hjónunum Stefáni Óskarssyni og Aðalbjörgu Gunnlaugsdóttur. Stefán var þá nýútskrifaður húsasmiður og flutti fjölskyldu sína heim á sinn uppeldisstað, Reykjarhól í Reykjahverfi. Fyrsta sumarið fór að mestu í að koma upp verkstæði og aðstöðu til reksturs en fyrsta stóra verkið var endurbygging og stækkun á Grenjaðar-staðarkirkju á árunum 1964-1965. Á fyrstu árunum tók Aðalbjörg starfsmenn iðulega í vist þar sem samgöngur og farartækjaeign var ekki með sama hætti þá og er í dag.
Eignarhald Trésmiðjunnar Rein var allt þeirra hjóna fram til 1998 að Sigmar Stefánsson, sonur þeirra og núverandi framkvæmdastjóri kaupir hlut. Arnþór Haukur Birgisson (barnabarn þeirra hjóna og núverandi tækjamaður Trésmiðjunnar) kaupir svo hlut 2014. Ehf. kennitala var stofnuð 1996 vegna breytinga á rekstrarformi.

Framgangurinn
Til að byrja með var reksturinn smár í sniðum og starfsmenn fáir, nokkur stór verk komu inn og þar má meðal annars nefna áðurnefnda kirkju á Grenjaðarstað og Hafralækjarskóla sem var tekinn í notkun 1972. Fyrirtækið óx og dafnaði jafnt og þétt og markaðssvæðið stækkaði með. Mörg útihús og hlöður reistar fyrstu 20 árin, ásamt íbúðarhúsum í bland. Flestallt var smíðað á verkstæðinu sem til þurfti, stigar, innréttingar og hvað það sem viðskiptavinurinn bað um. Viðhaldsverk og nýbyggingar fyrir Landsvirkjun komu inn snemma í rekstrinum og þá aðalega í Kröfluvirkjun. Kæliturnar og annað var reist fyrir þá og svo í framhaldi tók við almennt viðhald. Í rekstri Trésmiðjunnar hefur löngum verið lögð áhersla á tækjabúnað og verkfæri. Alltaf hefur verið reynt að vera með sem bestan tækjakost við vinnuna, sem endur-speglast í því að snemma var fjárfest í flekamótum til steypuvinnu og vörubíl með krana, sem jók afkastagetu fyrirtækisins til muna. Árið 1978 kaupir Trésmiðjan steypustöð og rak til ársins 1993 þegar hún var seld til aðila sem enn eru með hana í rekstri. Árið 1999 kaupir Gunnlaugur Stefánsson, sonur þeirra hjóna fyrirtækið Sögina ehf. ásamt Trésmiðjunni Rein. Saman flytja þau vinnsluna heim í Reykjahverfi en halda úti lager og verslun í Kópavogi. Síðasti áratugur hefur einkennst af stórum verkum í bland við önnur minni. Helst má minnast á Jarðböðin í Mývatnssveit þar sem byggð var upp aðstaða fyrir baðgesti og starfsfólk. Sjóböðin á Húsavík (Geosea) þar sem böðin voru byggð í heild sinni og Útgarð 6 sem er 18 íbúða blokk. Steypuverk eru margskonar og meðal annars voru steyptar undirstöður undir gufulögn á Þeistareykjum. Þessi listi er alls ekki tæmandi en er dæmi um fjölbreytileika og víðfemi verkefna fyrirtækisins.

Aðsetur og núverandi rekstrarmynd
Aðsetur og heimilisfang Trésmiðjunnar Rein er nú við Víðimóa14 á Húsavík, en þar var byggt stálgrindarhús (1200 fm) til að hýsa starfsemina árið 2012 og svo var byggt annað hús (1000 fm) árið 2017 sem var hannað meðal annars til einingarframleiðslu, bæði á steyptum einingum og timbureiningum. Á þessum tímum var mikið uppgrip á svæðinu með byggingu jarðvarmavirkjunar á Þeistareykjum og iðnaðarframkvæmdum á Bakka sem notað var til endurnýjunar á tækjum og verkfærum. Fyrirtækið er vel tækjum búið og tilbúið í flest allt sem viðkemur framkvæmdum. Trésmiðjan er í góðu samstarfi við undirverktaka af öllum stærðum og gerðum, ásamt því að hafa hönnuð í starfi og greiðan aðgang að tæknifræðingum og verkfræðingum. Jafnt og þétt færist í aukana að viðskiptavinir komi með hugmynd og Trésmiðjan klári málið, allt frá pappírum til afhendingar á fullbúnu verki.
Starfsmenn eru vel á þriðja tug og er hlutfall sveina/meistara á móti ófaglærðum/nemum nokkuð jafnt. Meðal starfsaldur er um 12 til 15 ár en sá starfsmaður sem starfað hefur lengst hjá fyrirtækinu, fyrir utan eigendur, fór á eftirlaun 2019 eftir rúmlega 50 ára starfsferil.
Stjórnarformaður er Stefán Óskarsson og meðstjórnendur eru Arnþór Haukur Birgisson og Sigmar Stefánsson.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd