Tréverk ehf. er rótgróið verktaka- og byggingaþjónustufyrirtæki og eitt hið elsta sinnar tegundar sem enn starfar á Eyjafjarðarsvæðinu. Á undanförnum áratugum hefur fyrirtækið verið atkvæðamikið í sínu fagi og skilað af sér fjöldamörgum byggingum og kennileitum sem setja sterkan svip á umhverfi sitt í Eyjafirðinum.
Upphafið og eignarhaldið
Tréverk var opinberlega stofnað þann 1. október árið 1962 af fimm hluthöfum sem allir höfðu áður starfað sjálfstætt sem trésmiðir. Þeir voru Aðalberg Pétursson, Bragi Jónsson, Hallgrímur Antonsson, Ingólfur Jónsson og Sveinn Jónsson. Þrátt fyrir langan lífaldur fyrirtæksins hafa eingöngu starfað hjá því þrír framkvæmdastjórar. Sá fyrsti var fyrrnefndur Ingólfur Jónsson sem gegndi hlutverki sínu allt fram til ársins 1981. Þetta sama ár urðu breytingar á eignarhaldi og við stöðunni tók Bragi Jónsson sem sinnti henni til ársins 1989. Síðan þá hefur Björn Friðþjófsson sinnt framkvæmdastjórn Tréverks og er fyrirtækið mjög eftirsóttur vinnustaður með góðum vinnuanda. Starfsmannafjöldinn telur um 25 manna samstilltan hóp húsasmíðameistara, húsasmiða og verkamanna sem margir hverjir hafa tekið þátt í starfseminni um áratuga skeið. Árið 2016 voru breytingar á eignarhaldinu og seldu þrír starfsmenn sem starfað höfðu mjög lengi hjá félaginu sína huti ásamt Sveini Jónsyni sem var búinn að vera hluthafi frá upphafi. Í stað þeirra komu þrír starfsmenn inn í hluthafahóp félgasins. Í dag eru hluthafar í Tréverki; Björn Friðþjófsson, Guðmundur Ingvason, Rögnvaldur Skíði Friðbjörnsson, Hafþór Gunnarsson, Ívar Örn Vignisson og Kristján Örnólfsson. Allir hluthafarnir eru starfsmenn félagsins að Rögnvaldi undanskildum sem sem lét af störfum sökum aldurs 2020 en heldur áfram sem stjórnarformaður félagsins. Allt frá stofnun hefur félagið lagt mikla áhersu á að taka unga menn á námssamning og hafa um 60 einstaklingar lokið við trésmíðanám hjá félaginu.
Framgangurinn og verkefnin
Tréverk hefur frá upphafi tekið að sér nýbyggingasmíð á útboðsmarkaði ásamt breytingum og viðhaldi á eldri fasteignum. Jafnframt hefur fyrirtækið byggt íbúðir á eigin reikning og rekið trésmíðaverkstæði í höfuðstöðvum fyrirtækisins að Grundargötu 8 á Dalvík. Starfsemin hefur verið mjög farsæl í gegnum árin, enda reksturinn farið fram á sömu kennitölunni alveg frá upphafi. Tréverk hefur reynt að sníða sér stakk eftir vexti og valið sér verkefni í samræmi við þá stefnu.
Fyrsta stóra verkefnið á sjöunda áratugnum var smíði orlofshúsa fyrir verkalýðsfélögin á Illugastöðum í Fnjóskadal. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Ef stiklað er á stóru í nær 60 ára sögu Tréverks eru helstu verkefnin á Eyjafjarðarsvæðinu, t.d. Ráðhúsið á Dalvík, skrifstofu-og verksmiðjuhús fyrir Sæplast á Dalvík, tveir áfangar við Dalvíkurskóla, Svarfdælabúð á Dalvík, Íþróttahús við Síðuskóla á Akureyri, Sundlaug Dalvíkur sem opnuð var 1994, nýbygging við Dvalarheimilið Hlíð á Akureyri og ýmsir verkþættir í verlsunarmiðstöðinni Glerártorgi á Akureyri. Einnig má nefna 2.300 fm nýbyggingu við Háskólann á Akureyri sem tekin var í notkun í ágúst 2009, íþróttamiðstöð á Dalvík með tilheyrandi aðstöðu sem afhent var Dalvíkurbyggð 1. október 2010 og lokið við byggingu á 83 íbúðum á Akureyri fyrir Búseta á Norðurlandi.
Sem dæmi um stærstu framvæmdir Tréverks síðustu árin má nefna lúxushótel að Deplum í Fljótum, tvö fjölbýlishús við Austubrú á Akureyri, stækkun á grunnskóla á Siglufirði, uppsteypa og fleiri verkþættir við Sigló hótel á Siglufirði, viðbyggingu við leikskólann Krílakot á Dalvík, viðbyggingu við aðstöðu Vegagerðarinnar á Akureyri, hafnarframkvæmdir á Dalvik og á Akureyri og tvö fjölbýlishús við Geirþrúðarhaga á Akureyri. Einnig má nefna að Tréverk byggði á eigin vegum tíu íbúðir fyrir aldraða á Dalvík og eru fleiri slíkar íbúðir í undirbúningi hjá stjórnendum félagsins. Jafnframt var Tréverk með ýmsa verkþætti við byggingu nýja frystihússins á Dalvik.
Þar fyrir utan hefur fyrirtækið fullklárað fjölda einbýlis-, par- og raðhúsa og fjölbýlishúsa á svæðinu ásamt ýmsum viðhaldsverkefnum fyrir opinbera aðila, útgerðar- og iðnfyrirtæki. Félagið fylgist vel með allri þróun sem er að verða í byggingaiðnaðinum og er vel í stakk búið að takast á við breytingar á næstu misserum.
Vefsíða: www.treverk.is
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd