Tungusilungur ehf.

2022

Fjölskyldufyrirtæki
Tungusilungur ehf. er rótgróið fjölskyldufyrirtæki á Tálknafirði og eitt elsta fiskeldisfyrirtæki landsins. Magnús Kr. Guðmundson stofnaði Tungusilung árið 2002 en hann hefur áratuga reynslu af ferskvatnseldi og vinnslu fiskafurða. Magnús er af mörgum kunnugur enda hefur hann verið viðloðandi sjávarútveg í yfir áttatíu ár. Síðan fyrirtækið var stofnað hefur það stækkað hægt og rólega. Dætur hans fimm komu snemma inn í reksturinn, seinna komu inn barnabörn Magnúsar og nú starfa barnabarnabörn hans þar í skólafríum á sumrin.
Núverandi eigendur Tungusilungs eru Magnús og þrjár dætur hans Sædís, Margrét og Freyja og barnabörnin Ragnar Þór og Árný Hekla.

Starfsemin
Starfsemin skiptist í landeldi við strendur Tálknafjarðar og fiskvinnslu í þorpinu. Þar starfa 10 manns sem mörgum þykir eflaust ekki mikið en í litlu sjávarþorpi telur það þeim mun meira og samfélagsleg ábyrgð fyrirtækisins því talsverð. Tungusilungur sérhæfir sig í framleiðslu hágæða sælkeravöru á borð við birkireyktan regnbogasilung, reykta og grafna bleikju, ferska bleikju og regnbogapaté. Stór hluti ferskvörunnar fer í útflutning og á fiskmarkað innanlands en aðrar afurðir fást í verslunum víða um land.

Verðlaunavörur
Lengi vel hefur kynning á vörunum verið lágstemmd, rómur þeirra einfaldleg spurst út og eftirspurn ávallt verið næg. Árið 2019 var þó ákveðið að blása til sóknar og auka markaðssetninguna. Útbjuggum við sjálf heimasíðu, virknin aukin á samfélagsmiðlunum Facebook og Instagram og ákveðið að taka þátt í jólamatarmarkaði í Hörpunni í desember 2019. Á jólamatarmarkaðnum gekk allt framar björtustu vonum og salan á fyrri deginum svo mikil að allar vörur kláruðust fyrir lok dags. Þá voru góð ráð dýr en starfsfólkið á Tálknafirði sá þó til þess að áfylling barst rétt fyrir opnun á sunnudeginum. Í kjölfar vel heppnaðrar kynningar og hvatningar frá matreiðslufólki sem smakkaði það sem við höfðum upp á að bjóða var ákveðið að taka þátt í Fagkeppni meistarafélags kjötiðnaðarmanna 2020. Sendar voru fjórar vörur inn í keppnina og skemmst er frá því að segja að allar vörurnar unnu til verðlauna; gull fyrir reykta bleikju og regnbogapaté, silfur fyrir grafna bleikju og brons fyrir reykta silunginn.
Svo skemmtilega vildi til að þegar tilkynningin um verðlaunin barst var stórfjölskyldan samankomin í 90 ára afmælisveislu Magnúsar. Það var vel við hæfi að fagna saman enn einni rósinni í hnappagat hans því eflaust eru fáir sem státa af eins glæstum ferli í sjávarútvegi og hann.

Söguágrip
Í gegnum tíðina hefur Magnús hlotið fjöldamargar viðurkenningar, m.a. Fálkaorðuna sem honum var veitt árið 2004 fyrir störf að sjávarútvegsmálum og 2011 var hann heiðraður af Landsambandi fiskeldisstöðva fyrir áratuga starf í fiskeldi á Tálknafirði. Hann á að baki einstæðan feril sem skipstjóri, útvegsmaður, fiskverkandi og fiskeldisbóndi. Hann hóf sinn sjómannsferil 9 ára gamall og var skráður háseti 12 ára á Gylli BA-272. Síðar tók hann þar við sem skipstjóri aðeins 17 ára að aldri. Sumarið 1964 setti hann aflamet þegar hann sem skipstjóri á Jörundi RE-300 landaði stærsta síldarfarmi sem saltaður hefur verið upp upp úr einu skipi.
Hann hefur stundað línu-, dragnótar- og netaveiðar og hugvitssemi hans gagnast enn þeim sem línuveiðar stunda því hann fann bæði upp dráttarkarlinn og línubrautina. Fyrir það þáði hann engin höfundarlaun önnur en ánægjuna af að hafa unnið gott verk til heilla íslenskum sjávarútvegi. Árið 1975 stofnaði hann útgerðina og fiskvinnsluna Þórsberg sem lengi vel var stærsti vinnuveitandi á Tálknafirði.
Fiskeldi hefur lengi verið áhugamál Magnúsar og hóf hann tilraunir með klak, seiða- og frameldi í kringum 1984. Fyrst með lax, síðan þorsk en síðast bleikju og regnbogasilung. Það má því með sanni segja að Tungusilungur sé byggður upp af áratuga reynslu og þekkingu Magnúsar. Hann er þekktur fyrir mikinn kraft og dugnað og er enn viðloðandi fyrirtækið nú níræður að aldri því eins og hann segir sjálfur: „Á meðan maður stendur í lappirnar þá reynir maður að gera eitthvert gagn.“

Framtíðarsýn
Mikill kraftur er í afkomendum Magnúsar á Tálknafirði og það ríkir bjartsýni yfir framtíð Tungusilungs. Sem endranær verður aðaláhersla lögð á gæði umfram magn. Stefnt er að því að byggja áfram á traustum grunni og stækka bleikjueldið jafnt og þétt, bæta eldiskerin, vinnsluna og vinnuaðstæður og ná þannig fram meiri afköstum. Einnig geta verið möguleikar á að fjölga vöruflokkum í samstarfi við önnur fyrirtæki á svæðinu því mikill uppgangur hefur verið í fiskeldi á sunnanverðum Vestfjörðum undanfarin ár. Tungusilungur lítur svo á að öll þau fyrirtæki sem nú starfa á svæðinu geti sótt styrk til hvors annars og í samvinnu framleitt og selt mikið magn af hágæðamatvælum erlendis sem og innanlands.
Tungusilungur fæst í mörgum matvöruverslunum, fiskbúðum og bakaríum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og út á landi. Tungusilungur er til húsa að Strandgötu 39 á Tálknafirði. Fyrirspurnir má senda á netfangið [email protected] eða í gegnum Facebook-síðu Tungusilungs. Einnig er hægt að hringja í síma 456-2664 og 774-2523. Skemmtilegast er þó að gera sér ferð um héraðið, versla á staðnum, spjalla við starfsfólkið og skoða starfsemina í leiðinni.
www.tungusilungur.is

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd