TVG-Zimsen ehf.

2022

TVG-Zimsen er alhliða flutningsmiðlun sem býður alla þjónustu tengda inn- og útflutningi. Fyrirtækið er í eigu Eimskips og er í samstarfi við mörg af stærstu flutningsfyrirtækjum heims. TVG-Zimsen varð til í núverandi mynd árið 1996 en sögu þess má rekja allt til ársins 1894.

Sagan
Kaupmaðurinn Jes Zimsen stofnaði verslun í sínu nafni árið 1894 en þar starfrækti hann annars vegar járn- og byggingavöruverslun og hins vegar nýlenduvöruverslun. Ein deild innan verslunar Jes Zimsen var skipaafgreiðsla en sú deild varð sjálfstætt fyrirtæki árið 1932. Fyrirtækið var umboðsaðili Sameinaða danska gufuskipafélagsins sem var um tíma eitt stærsta skipafélag í heimi. Tollvörugeymslan var stofnuð árið 1962 og tók til starfa tveimur árum síðar. Með tilkomu fyrirtækisins bauðst nú íslenskum fyrirtækjum að geyma ótollafgreiddar vörur á lager á hérlendis. Starfsemi Tollvörugeymslunnar jókst stöðugt og árið 1985 voru leigjendur orðnir 350 talsins. Árið 1984 kaupir Eimskip Skipaafgreiðslu Jes Zimsen en á níunda áratugnum hélt framþróun Jes Zimsen áfram og hóf fyrirtækið meðal annars samstarf við TNT Skypak um meðhöndlun hraðsendinga. Bæði Jes Zimsen og Tollvörugeymslan voru framarlega í að innleiða nýja tækni eins og tölvur og síðar Internetið.
Árið 1993 gerði Jes Zimsen samning við þýsku flutningsmiðlunina Kuehne & Nagel sem þá starfrækti fjölda skrifstofa um allan heim. Sama ár var einnig gerður samstarfssamningur við UPS, eitt stærsta hraðflutningafyrirtæki heims, um dreifingu innanlands og útflutningi hraðsendinga fyrirtækisins. Almenna tollvörugeymslan hf. á Akureyri og Tollvörugeymslan hf. í Reykjavík voru sameinaðar árið 1995 og störfuðu upp frá því sameiginlega undir merki TVG.
TVG-Zimsen varð til við sameiningu TVG og Skipaafgreiðslu Jes Zimsen árið 1996 og í framhaldinu jókst umfang fyrirtækisins til muna og var sérstök sjóflutningadeild stofnuð innan fyrirtækisins árið 1999. Fyrirtækið var til húsa við Héðinsgötu í Reykjavík en í upphafi nýs árþúsunds tók TVG-Zimsen þátt í uppbyggingu Vöruhótelsins og flutti í kjölfarið starfsemi sína í Sundahöfn. Á sama tíma var geymslusvið fyrirtækisins flutt yfir til Vöruhótelsins.
Áfram hélt TVG-Zimsen að stækka og fleiri samningar voru gerðir við alþjóðleg flutningafyrirtæki sem opnuðu á frekari tækifæri til að þjónusta stærri viðskiptavini. Björn Einarsson tók við sem framkvæmdastjóri árið 2006 og hóf hann endurskipulagningu og innleiðingu nýrrar stefnu innan fyrirtækisins að alþjóðlegri fyrirmynd. Fyrirtækið hóf samstarf við enn fleiri erlend flutningafyrirtæki og gerði meðal annars stóran samning við CMA-CGM, sem þá var þriðja stærsta skipafélag heims.
Á næstu árum útvíkkaði TVG-Zimsen starfsemi sína enn frekar og auk þess að vera leiðandi flutningsmiðlun á Íslandi rekur fyrirtækið öfluga sérverkefnadeild, sinnir lyfjaflutningum og þjónustu við netverslanir.

Stjórnarhættir
Framkvæmdastjóri TVG-Zimsen er Elísa Dögg Björnsdóttir en hún tók við starfinu af Birni Einarssyni árið 2020. TVG-Zimsen er í eigu Eimskips.

Starfsemi
TVG-Zimsen er í dag leiðandi flutningsmiðlun á Íslandi og er í samstarfi við fjölmörg erlend flutningsfyrirtæki. Fyrirtækið býður alhliða flutningslausnir um allan heim, hvort sem er á landi, í lofti eða á sjó, auk aðstoðar við skjalagerð og aðra flutningstengda þjónustu.
Millilandaflutningar
TVG-Zimsen býður vikulegar siglingar til og frá Evrópu og N-Ameríku í inn- og útflutningi auk aksturs til og frá lestunar- og losunarhöfnum. Þá hefur TVG-Zimsen verið í samstarfi við innlend og erlend flugfélög varðandi flugflutning og byggt upp mikla reynslu á því sviði.
Sérverkefni
Sérverkefnadeild TVG-Zimsen er mjög öflug og byggir á mikilli reynslu en sérfræðingar fyrirtækisins hafa tekist á við fjölbreytt verkefni í gegnum árin. Meðal þeirra verkefna sem sérverkefnadeild TVG-Zimsen hefur tekist á við eru flutningur og uppsetning stórtónleika, fjölmörg kvikmynda- og auglýsingaverkefni, flutningur á listaverkum og flutningur á hvölum til Vestmannaeyja svo eitthvað sé nefnt.
Lyfjaflutningar
Árið 2018 festi TVG-Zimsen kaup á sérhönnuðum lyfjaflutningabíl sem er sérstaklega hannaður til flutnings á lyfjum og heilsutengdum vörum. Lyfjaflutningaþjónustan var þróuð út frá evrópskum leiðbeiningum um góða starfshætti í lyfjadreifingu (GDP) og fjárfesti TVG-Zimsen í tækjum og þjálfun starfsfólks til að sinna þessari þjónustu sem allra best og út frá ströngustu kröfum. Í gegnum eignarhald Eimskips hefur TVG-Zimsen lyfjaheildsöluleyfi fyrir hýsingu lyfja en leyfið var það fyrsta sem veitt var flutningsfyrirtæki hér á landi.
Umboðsþjónusta við skip
Gára, dótturfélag TVG-Zimsen, veitir yfirgripsmikla umboðsþjónustu fyrir alla skipaeigendur og rekstraraðila áætlunarskipa. Þjónustan felst í hafnarþjónustu sem veitt er skipum af ýmsu tagi; flutningaskipum, skemmtiferðaskipum, rannsóknarskipum og fiskiskipum.
Þjónusta við netverslanir
TVG-Zimsen býður netverslunum alhliða þjónustu varðandi flutning, hýsingu og dreifingu undir nafni TVG Xpress og hafa fjölmargar netverslanir nýtt sér þjónustuna, hvort sem er í heilu lagi eða að hluta. Dreifingarhluti þjónustunnar hefur verið hvað stærstur en í dag býður TVG-Zimsen meðal annars samdægursdreifingu til viðskiptavina netverslana á öllu SV-horni landsins auk fjölda annarra afhendingarmöguleika.
Þjónusta TVG-Zimsen við netverslanir hefur verið í hvað mestum vexti og horfir fyrirtækið til enn fleiri tækifæra á þeim vettvangi í náinni framtíð. Vefsíða: www.tvg.is

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd