Umhverfis- og loftslagsmál eru með mikilvægustu málefnum samtímans. Umhverfis-ráðuneytið var stofnað árið 1990, en fyrir þann tíma höfðu málefni umhverfis og náttúru heyrt undir ólík ráðuneyti. Árið 2012 varð ráðuneytið að umhverfis- og auðlindaráðuneyti með flutningi málefna úr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og iðnaðarráðuneyti.
Umhverfismálin hafa öðlast aukið vægi undanfarna áratugi ekki síst á undanförnum árum. Ráðuneytið hefur stækkað umtalsvert frá stofnun og málaflokkum þess fjölgað. Í dag er verkefnum þess skipað á sex skrifstofur: skrifstofu ráðuneytisstjóra, skrifstofu alþjóðamála og samþættingar, skrifstofu loftslagsmála, skrifstofu landgæða, skrifstofu umhverfis og skipulags og skrifstofu fjármála og rekstrar.
Loftlagsmál
Verkefni ráðuneytisins ná til fjölmargra sviða þjóðfélagsins. Þau eru skilgreind í forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Baráttan við loftslagsbreytingar af mannavöldum er meðal þeirra viðfangsefna sem ber hvað hæst í umhverfismálum og fer ráðuneytið með umsjón með stefnumótun, framkvæmd og eftirfylgni loftslagsmála. Í júní 2020 kom út önnur útgáfa aðgerðaáætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum, en þar eru settar fram 48 aðgerðir sem hafa það markmið að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka kolefnisbindingu. Aðgerðirnar ná til alls samfélagsins og er þeim skipt í níu flokka: samgöngur á landi, skip og hafnir, orkuframleiðslu og smærri iðnað, F-gös og efnanotkun, landbúnað, úrgang og sóun, hvata til umskipta, ETS (flug og iðnað) og landnotkun. Starfshópur skipaður af umhverfis- og auðlindaráðherra vinnur að fyrstu stefnu Íslands vegna aðlögunar að loftslagsbreytingum.
Úrgangur
Úrgangsforvarnir, meðhöndlun úrgangs og myndun hringrásarhagkerfis er annar málaflokkur ráðuneytisins sem hefur öðlast aukið vægi. Í hringrásarhagkerfi halda vörur, hlutir og efni verðmæti sínu og notagildi eins lengi og mögulegt er. Verði vara að úrgangi tekur við skilvirk flokkun, söfnun og endurvinnsla sem heldur hráefnum í hringrás. Skrifstofa umhverfis og skipulags hefur umsjón með þeim málaflokkum, en markmið hringrásarhagkerfis er að draga úr auðlindanotkun, lengja líftíma auðlinda jarðar og koma í veg fyrir að efni og hlutir hverfi úr hagkerfinu sem úrgangur.
Náttúruvernd
Unnið er markvisst að eflingu náttúruverndar, meðal annars með friðlýsingum svæða sem Alþingi hefur ályktað að skuli friðlýsa, bæði á náttúruverndaráætlunum og í verndarflokki verndar- og orkunýtingaráætlunar. Einnig hefur verið unnið að því síðustu ár að efla innviði á friðlýstum svæðum með Landsáætlun um uppbyggingu innviða, landvörslu og vöktun á náttúruverndarsvæðum og að verndun vistkerfa, búsvæða og tegunda, sem tryggja eiga líffræðilega fjölbreytni.
Önnur verkefni
Meðal annarra verkefna ráðuneytisins má nefna loftgæðamál, landsskipulag og landnýtingu, skógrækt, landgræðslu, fráveitumál, vernd hafs og vatns, veður og náttúruvá, mengunarvarnir og hollustuhætti, mat á umhverfisáhrifum, upplýsingarétt, veiðistjórnun villtra dýra og landupplýsingar.
Alþjóðlegt samstarf
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið er í nánu samstarfi við ýmsar alþjóðlegar stofnanir og tekur ráðuneytið virkan þátt í norrænu og evrópsku samstarfi, auk samvinnu alþjóðlegra stofnana á borð við Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) og hefur skrifstofa alþjóðamála og samþættingar umsjón með þeirri vinnu. Ráðuneytið fer einnig með umsjón fjölda alþjóðasamninga á sviði umhverfismála á borð við Loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna, Samninginn um líffræðilega fjölbreytni og OSPAR-samninginn um vernd NA-Atlantshafsins.
Stofnanir
Fjórtán stofnanir heyra undir fagsvið umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Það eru:
Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR), Landgræðslan, Landmælingar Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn (RAMÝ), Skipulagsstofnun, Skógræktin, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, Umhverfisstofnun, Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, Úrvinnslusjóður, Veðurstofa Íslands, Vatnajökulsþjóðgarður og Þingvallaþjóðgarður.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd