Uppsteypa ehf.

2022

Fyrirtækið Uppsteypa ehf. var stofnað í febrúar 2017. Við stofnun átti fyrirtækið ekkert húsnæði en var skráð með aðsetur á Syðri-Hofdölum í Skagafirði. Í lok árs 2019 festi Uppsteypa ehf. svo kaup á 447,8 fermetra húsnæði að Syðri-Hofdölum og var því breytt í verkstæði og aðstöðuhús.

Eigendur og stofnendur
Trausti Valur Traustason, byggingatæknifræðingur B.s.c og húsasmíðameistari. Hann er jafnframt stjórnarformaður fyrirtækisins. Gunnar Gíslason, húsasmíðameistari, Helgi Hrannar Traustason, húsasmíðameistari. Fyrirtækið Uppsteypa ehf. var stofnað utan um kaup á nýjum steypumótum og byggingakrana sem og til að sinna almennri byggingastarfsemi sem byggingaverktar. Fyrirtækið er ungt að árum en hefur vaxið jafnt og þétt og dafnað á þessum árum sem liðin eru frá stofnun þess. Eigendur eru þeir sömu og voru í upphafi.

Starfsemin
Aðfanga og efnis er aflað hjá birgjum innanlands til að sinna þeirri almennu byggingastarfsemi sem Uppsteypa ehf. ástundar. Í Skagafirði er og hefur verið blómlegt atvinnulíf á undanförnum árum. Hafa þeir verktakar sem hér starfa nóg fyrir stafni. Uppsteypa ehf. hefur tekið þátt í útboðum á vegum sveitarfélagsins Skagafjarðar sem og annara fyrirtækja og einstaklinga.
Við fyrirtækið starfa eigendurnir þrír auk fjögurra starfsmanna, en þar af eru þrír sumarstarfsmenn og einn heilsársstarfsmaður. Auk þes hefur fyrirtækið nýtt sér þjónustu undirverktaka sem margir hverjir hafa fylgt fyrirtækinu frá upphafi. Um þessar mundir eru allt að 10 undirverktakar að störfum í okkar verkefnum. Velta hefur aukist ár frá ári og afkoman verið góð.

Verkefni
Verkefnin sem Uppsteypa ehf. hefur annast eru fjölbreytt og má þar helst nefna:
– Bygging íbúðarhúsnæðis og frístundahúsa.
– Landbúnaðarbyggingar, einkum fjósbyggingar en á árunum 2017-2019 voru byggð fjós eða viðbyggingar við fjós á sjö bæjum í Skagafirði en þeir eru Sólheimar, Brúnastaðir, Neðri-Ás, Hlíðarendi, Syðri-Hofdalir, Daufá og Framnes.
– Á vordögum 2021 lauk Uppsteypa ehf. byggingu leikskóla á vegum sveitarfélagsins Skagafjarðar. Skólinn er viðbygging við Grunnskólann austan vatna á Hofsósi og á að rúma 22 börn. Leikskólinn er hannaður af arkitektum Úti og inni en uppbygging hans hófst á vordögum 2020.
– Í gangi er skemmtilegt verkefni þar sem verið er að breyta gamalli hlöðu, sem stendur við Sauðá á Sauðárkróki, í veitingastað sem áætlað er að opni í sumar. Uppbygging veitingastaðarins hófs síðsumars 2020.
– Bygging á hesthúsi og reiðhöll ásamt frístundahúsi er nú í gangi á jörðinni Staðarhofi í Skagafirði. Undirbúningur að byggingu frístundahússins hófst haustið 2020 og jarðvinna við reiðhöllina og hesthúsið, sem eru sambyggð, hófst vorið 2021.
– Árið 2020 var lokið við tvær fjósbyggingar á bæjunum Marbæli, þar sem byggt var við eldra fjós og á bænum Réttarholti þar sem byggt var nýtt fjós.
– Byggð var bogareiðskemma á bænum Ljótsstöðum.
– Aðstöðuhús var byggt á bænum Þrasastöðum í Stíflu í Austur-Fljótum.
– Lokið var við byggingu íbúðarhúss á Fagraholti í Skagafirði og Uppsteypa ehf. sá um sökkla og byggingastjórn á þremur íbúðarhúsum á Sauðárkróki.
– Í gangi er bygging íbúðarhúss í Glaumbæ.
– Farið var í þakviðgerðir fyrir Háskólann á Hólum í Hjaltadal og þeim lokið á vordögum 2020.
– Unnið að ýmiss konar viðhaldsverkefnum að mestu leyti í íbúðarhúsum, t.d. við gluggaskipti, þakskipti og þess háttar.

Framtíðarsýn
Við reiknum með að fyrirtækið haldi áfram að vaxa og dafna og að verkefni verði áfram jafn fjölbreytt og skemmtileg og verið hefur til þessa.

Tækjakostur
Tækjakostur fyrirtækisins hefur vaxið ár frá ári. Bætt hefur verið við steypumótum, vinnulyftum og lyfturum en eins og áður kom fram var fyrirtækið upphaflega stofnað utan um kaup á steypumótum og byggingkrana sem vissulega er í notkun enn í dag.

COVID-19
Á tímum heimsfaraldurs hefur þess verið gætt að fylgja öllum tilmælum sóttvarnaryfirvalda eftir því sem við hefur átt.

Samfélagsmál
Uppsteypa sýnir samfélagslega ábyrgð í verki með því að styðja við góð málefni. Má þar nefna íþróttafélög í héraðinu, körfuknattleiksdeild Tindastóls, SÁÁ, SOS-barnaþorp og fleiri.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd