Íslensk stjórnvöld hafa sett sér það markmið að draga skipulega úr myndun úrgangsefna og koma úrgangi í endurnotkun og endurnýtingu. Til þess að vinna að þessu markmiði hafa m.a. verið sett lög um úrvinnslugjald nr. 162/2002 og samkvæmt þeim er Úrvinnslusjóði falið að skapa hagræn skilyrði fyrir endurnotkun og endurnýtingu úrgangs, draga úr magni úrgangs sem fer til endanlegrar förgunar og tryggja viðeigandi förgun spilliefna.
Starfsemin
Úrvinnslusjóður innheimtir úrvinnslugjald af vöru áður en hún fer á markað. Gjaldið stendur undir kostnaði við endurnýtingu úrgangs sem verður eftir þegar líftíma vöru lýkur. Kostnaðurinn felst í meðferð flokkaðs úrgangs á söfnunarstöð, flutning frá söfnunarstöð til móttökustöðvar, endurnýtingu eða förgun úrgangsins og greiðslu skilagjalds eftir því sem við á.
Hugmyndafræði framleiðendaábyrgðar var ofarlega á blaði við undirbúning sjóðsins auk ákvæða um að sá borgar sem mengar (polluter pays principle). Framleiðendaábyrgð felur m.a. í sér að framleiðendum er falin ábyrgð á fjármögnun og/eða framkvæmd söfnunar og ráðstöfunar á ákveðnum úrgangsflokkum. Horft var til þess að framleiðendaábyrgð yrði hvati til að koma í veg fyrir myndun úrgangs, ýta undir umhverfisvæna hönnun og stuðla að aukinni söfnun og endurvinnslu.
Mannauður
Það má segja að sjóðurinn sé samstarfsverkefni opinberra aðila og atvinnulífs um hagræna hvata til að auka endurvinnslu og endurnýtingu. Atvinnulífið fer með meirihluta í stjórn sjóðsins, þá eiga sveitarfélögin fulltrúa í stjórn og umhverfis- og auðlindaráðherra skipar formann. Stjórn sjóðsins skipa: Laufey Helga Guðmundsdóttir, formaður skipaður af ráðherra og meðstjórnendur eru: Lárus M.K. Ólafsson, varaformaður, skipaður af Samtökum iðnaðarins, Bryndís Gunnlaugsdóttir og Eygerður Margrétardóttir skipaðar af Samtökum íslenskra sveitarfélaga, Hlíðar Þ. Hreinsson skipaður af Félagi atvinnurekenda, Benedikt S. Benediktsson skipaður af Samtökum verslunar- og þjónustu og Hildur Hauksdóttir skipuð af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.
Guðmundur G. Þórarinsson, verkfræðingur leiddi undirbúningsvinnu fyrir stofnun sjóðsins og var formaður stjórnar frá 2003-2019.
Starfsmenn sjóðsins eru fjórir, Ólafur Kjartansson, framkvæmdastjóri og rekstrarstjórarnir: Ása Hauksdóttir sem sér um fjármál og rekstur skrifstofu, Íris Gunnarsdóttir og Guðlaugur G. Sverrisson sem sjá um rekstur vöruflokka.
Þjónustan
Fjölmargir vöruflokkar falla undir sjóðinn og skiptast í spilliefni, umbúðir, raftæki og rafhlöður, hjólbarða, ökutæki og veiðarfæri. Verkefni sjóðsins eru mismunandi fyrir hina ýmsu vöruflokka. Þau geta falist í að ná tilteknum markmiðum um söfnun og endurvinnslu. Þetta á við um umbúðir úr pappa og plasti, raftæki og rafhlöður og rafgeyma. Verkefnin geta einnig falist í að tryggja innsöfnun og rétta ráðstöfun eins og í tilviki spilliefna og hjólbarða. Að lokum má nefna skilagjaldskerfi fyrir úrsérgengin ökutæki og samning um endurnýtingu veiðarfæra.
Fyrirkomulag Úrvinnslusjóðs felur í sér að þjónustuaðilar safna úrgangi frá söfnunar-stöðvum, fyrirtækjum eða heimilum, meðhöndla hann og koma honum til ráðstöfunaraðila. Ráðstöfunaraðili getur verið, eftir atvikum, endurvinnslu/endurnýtingaraðili eða förgunaraðili. Úrvinnslusjóður eignast aldrei úrganginn.
Úrvinnslusjóður gerir samninga við þjónustuaðila en samþykkir ráðstöfunaraðila á grundvelli skilmála fyrir hvern vöruflokk. Þjónustuaðilar eru í samkeppni um úrganginn, taka þátt í útboðum sveitarfélaga um að þjóna söfnunarstöðvum og semja við fyrirtæki. Þegar þeir hafa meðhöndlað úrganginn og komið honum til ráðstöfunaraðila teljast þeir hafa lokið sínum verkþáttum og fá þá greitt frá Úrvinnslusjóði.
Þjónustuaðilar semja við ráðstöfunaraðila um greiðslur hvort sem greiða þarf með efninu eða það er selt. Þeir eru einnig í viðskiptasambandi við úrgangshafa, hvort sem um er að ræða sveitarfélög, fyrirtæki eða heimili.
Til að jafna aðstöðu sveitarfélaga og fyrirtækja um allt land til að safna úrgangi og koma til ráðstöfunar greiðir Úrvinnslusjóður flutningsjöfnun. Flutningsjöfnunin er ákveðin greiðsla sem tekur mið af nauðsynlegri flutningsvegalengd til næsta staðar þar sem hægt er að meðhöndla úrganginn og koma honum til ráðstöfunar.
Það má segja að Úrvinnslusjóður auki verðgildi úrgangsins með þessum greiðslum og láti síðan markaðinn um að sjá um framkvæmdina.
Framtíðarsýn
Frá því að Úrvinnslusjóður tók til starfa hefur átt sér stað mikil þróun í úrgangsmálum á Íslandi. Úrvinnslusjóður hefur gert sér far um að laga framkvæmdina að þessari þróun eins og hægt er innan ramma laga um úrvinnslugjald.
Á árinu 2020 var unnið að stefnumótun Úrvinnslusjóðs þar sem hlutverk, gildi og framtíðarsýn voru dregin fram. Liður í þessari stefnumótun var undirbúningur fyrir vinnu við innleiðingu hringrásarhagkerfis.
Framundan eru krefjandi og spennandi verkefni sem kalla á gott samstarf allra sem koma að umhverfismálum.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd