Utanríkisráðuneytið

2022

Íslendingar fengu forræði utanríkismála árið 1918 og heyrði málaflokkurinn í upphafi undir forsætisráðherra. Frá árinu 1929 var starfrækt sérstök utanríkismáladeild við forsætisráðuneytið en stofnun utanríkisþjónustunnar er miðuð við 10. apríl 1940. Þá ákvað Alþingi að Ísland tæki meðferð utanríkismála að öllu leyti í eigin hendur. Það ár var utanríkismáladeild breytt í ráðuneyti en lög um utanríkisráðuneyti Íslands og fulltrúa þess erlendis voru sett árið 1941.
Utanríkisráðuneytið starfar eftir lögum nr. 39 frá 16. apríl 1971 um utanríkisþjónustu Íslands en samkvæmt þeim greinist utanríkisþjónustan í ráðuneyti, sendiráð Íslands, fastanefndir hjá alþjóðastofnunum og ræðisskrifstofur. Ráðuneytið skiptist í átta skrifstofur: skrifstofu ráðuneytisstjóra, alþjóða- og þróunarsamvinnuskrifstofu, laga- og stjórnsýsluskrifstofu, prótokollskrifstofu, rekstrar- og þjónustuskrifstofu, skrifstofu tvíhliða samstarfs og svæðisbundinna málefna, viðskiptaskrifstofu og öryggis- og varnarmálaskrifstofu. Ísland starfrækir að auki 26 sendiskrifstofur í 21 ríki, þar af sextán sendiráð, fjórar aðalræðisskrifstofur og sex fastanefndir hjá alþjóðastofnunum. Aðsetur ráðuneytisins er við Rauðarárstíg 25 og starfsmenn eru um 300, þar af um helmingur erlendis. Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra er Guðlaugur Þór Þórðarson og ráðuneytisstjóri er Martin Eyjólfsson.
Samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu Stjórnarráðsins í ráðuneyti nr. 118 frá 2018 er utanríkisráðuneytið eitt af tíu ráðuneytum Stjórnarráðsins. Það sem greinir utanríkisráðuneytið frá öðrum ráðuneytum er að það er með varanlegar starfsstöðvar eða starfsfólk erlendis. Samkvæmt lögum um utanríkisþjónustuna gætir hún hagsmuna Íslands, þar með talið íslenskra ríkisborgara og fyrirtækja, gagnvart öðrum ríkjum. Hún styður við íslensk fyrirtæki sem vilja hasla sér völl erlendis, vinnur að því að tryggja aðgang að alþjóðamörkuðum og efla fríverslun. Þá kynnir hún íslenska menningu og listir um víða veröld. Utanríkisþjónustan sinnir pólitískum og diplómatískum samskiptum Íslands við erlend ríki og gætir hagsmuna þess innan alþjóðastofnana, allt frá mannréttindum til öryggismála, og annast auk þess gerð samninga við önnur ríki og alþjóðastofnanir í umboði forseta Íslands. Alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands er ætlað að skila mælanlegum árangri við að uppræta fátækt, bæta lífsskilyrði og skapa jafnrétti, frelsi og hagsæld í heiminum. Utanríkisráðuneytið gætir hagsmuna og öryggis íslenskra ríkisborgara erlendis og veitir þeim ýmis konar aðstoð, s.s. þegar slys, veikindi eða andlát ber að höndum á erlendri grundu.

Alþjóðamál
Virðing fyrir þjóðarétti og fjölþjóðasamvinna eru smáum herlausum ríkjum eins og Íslandi afar mikilvæg. Hlutverk utanríkisþjónustunnar er að viðhalda traustum alþjóðatengslum, gæta hagsmuna Íslands í hvívetna og tryggja að rödd Íslands heyrist á alþjóðavettvangi. Ýmsar skyldur felast í aðild Íslands að alþjóðasamningum, alþjóðlegu regluverki og dómstólum en jafnframt réttindi sem geta skipt miklu um þjóðarhag. Utanríkisstefnan byggist á grundvallargildum um frið, lýðræði, mannréttindi, kynjajafnrétti og sjálfbæra þróun. Að undanförnu hefur verið vegið að fjölþjóðakerfinu sem reist er á þessum sömu gildum og skipa Ísland og Norðurlöndin sér í framvarðasveit þeirra ríkja sem standa vilja vörð um þann árangur sem náðst hefur. Stjórnvöld láta mjög til sín taka á sviði mannréttinda og hafa í auknum mæli sett kynjajafnrétti og réttindi hinsegin fólks á oddinn í málafylgju á alþjóðavettvangi. Ísland var í fyrsta sinn kosið til fullrar aðildar að mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í júlí 2018 og sat þar til loka ársins 2020. Seta Íslands í ráðinu er eitt veigamesta hlutverk sem Ísland hefur gegnt á alþjóðavettvangi. Framganga Íslands vakti athygli sem sýndi að fámenn ríki geta haft afgerandi áhrif og jafnframt að íslenska utanríkisþjónustan ráði fyllilega við verkefni af þessum toga. Í samræmi við stefnu stjórnvalda í loftlagsmálum og framgang heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna er aukin áhersla lögð á þátttöku á alþjóðavettvangi í auðlinda- og umhverfismálum. Í þeim málaflokkum fer saman mikilvægi þess að verja rétt Íslands til auðlindanýtingar með sjálfbærum hætti og ábyrg stefna í loftslagsmálum og umhverfisvernd. Vaxandi alþjóðleg eftirspurn er eftir því að Íslendingar miðli af þekkingu sinni og reynslu á sviði orkumála, sérstaklega hvað varðar jarðhitanýtingu. Í maí 2019 tók Ísland við formennsku í Norðurskautsráðinu undir yfirskriftinni „Saman til sjálfbærni“ en aðildarríkin fara með þetta hlutverk til skiptis tvö ár í senn. Norðurskautsráðið er mikilvægasti samráðsvettvangurinn um málefni norðurslóða og hefur alþjóðapólitískt vægi formennskunnar aukist til muna á undanförnum árum. Í formennskutíð Íslands er lögð áhersla á málefni hafsins, loftslagsmál og endurnýjanlega orku, og fólk og samfélög á norðurslóðum ásamt því að efla enn frekar starfsemi Norðurskautsráðsins.

Utanríkisviðskipti
Öflug viðskipti við útlönd er mikilvæg undirstaða hagvaxtar og velferðar á Íslandi. Á viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins er unnið að því að gæta hagsmuna íslenskra ríkisborgara og atvinnulífs með því að tryggja þeim bestu viðskiptakjör og aðgang að alþjóðamörkuðum auk þess að stuðla að jákvæðu orðspori og alþjóðlegri samkeppnishæfni. Viðskiptaskrifstofa annast samskipti og samstarf Íslands við erlend stjórnvöld, alþjóðleg viðskiptasamtök og stofnanir við gerð og framkvæmd alþjóðlegra og tvíhliða viðskiptasamninga og annan erindrekstur á sviði utanríkisviðskipta. Skrifstofan vinnur einnig náið með innlendum stjórnvöldum, sendiráðum og fastanefndum Íslands, stofnunum og hagsmunasamtökum á sviði utanríkisviðskipta. Viðskiptaskrifstofa annast framkvæmd EES-samningsins, málefni Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA), viðskiptasamninga við önnur ríki, ýmsa samningargerð í sambandi við Schengen-samstarf, auk málefna Efnahags og framfarastofnunarinnar (OECD) og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO).
Hálf öld er liðin frá því að Ísland gerðist aðili að EFTA en fríverslunarnet EFTA nær nú til 40 ríkja og landsvæða utan ESB. Aðildin að EFTA hefur alla tíð verið einn mikilvægasti þáttur í utanríkisviðskiptastefnu Íslands og átt mikilvægan þátt í hagsæld hér á landi. EFTA-aðild Íslands leiddi til gerðar tvíhliða fríverslunarsamnings við Efnahagsbandalag Evrópu (EEC) árið 1972 og aðildar Íslands að EES-samningnum. Kjarninn í starfsemi EFTA er fríverslun og eitt af meginverkefnum samtakanna undanfarin ár hefur snúist um gerð nýrra fríverslunarsamninga ásamt því að viðhalda og uppfæra þá sem fyrir eru. Auk fríverslunarsamninga á vettvangi EFTA-samstarfsins hefur Ísland gert tvíhliða fríverslunarsamninga við Kína og Færeyjar.
Bretland gekk formlega úr Evrópusambandinu 31. janúar 2020 og þar með úr EES-samstarfinu. Við tók svokallað aðlögunartímabil sem endaði í árslok 2020. Í desember 2020 undirrituðu íslensk og bresk stjórnvöld loftferðasamning og bráðabirgðafríverslunarsamning þar til nýr fríverslunarsamningur getur tekið gildi. Sameiginlegar fríverslunarviðræður EFTA-ríkjanna innan EES og Bretlands hófust sumarið 2020 og áætlað er að þeim ljúki árið 2021.
Ný lög um Íslandsstofu voru samþykkt árið 2018 sem í kjölfarið var endurskipulögð með það að markmiði að hún gæti sinnt hlutverki sínu enn betur gagnvart fyrirtækjum á sviði útflutnings, fjárfestinga og ferðaþjónustu. Fagleg stjórn tólf viðskiptafulltrúa sem eru við störf á ellefu sendiskrifstofum Íslands erlendis, hefur verið færð undir Íslandsstofu. Haustið 2019 kynnti Íslandsstofa langtímastefnumótun stjórnvalda og atvinnulífs fyrir íslenskan útflutning þar sem samstaða var um að sjálfbærni væri samnefnari yfir áherslur Íslands í markaðsstarfi.
Forgangsmál utanríkisþjónustunnar eftir að COVID-19 heimsfaraldurinn breiddist út á fyrri hluta ársins 2020 hefur verið stuðningur við íslenskar útflutningsgreinar. Má þar m.a. nefna upplýsingagjöf og aðstoð við ferðalög starfsfólks í brýnum viðskiptaerindum og sérstaka sólarhrings viðskiptavakt fyrir íslenskan útflutning sem sett var upp að fyrirmynd borgaraþjónustunnar. Utanríkisþjónustan hefur þannig ásamt Íslandsstofu lagt sig fram um að aðstoða íslensk útflutningsfyrirtæki að fóta sig við gjörbreyttar aðstæður og vinnur áfram að því að kortleggja hindranir og greiða úr þeim eftir því sem hægt er.

Öryggis- og varnarmál
Ísland sem herlaust ríki tryggir öryggi sitt og varnir með virku samstarfi við önnur ríki og eru aðildin að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningur við Bandaríkin hornsteinar þess. Ísland tekur virkan þátt í borgaralegum hluta norræna varnarsamstarfsins (NORDEFCO) sem hefur vaxið frá upphafi þess árið 2009. Þá skiptir máli í þessu tilliti tvíhliða samstarf við grannríki og þátttaka í starfi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) og Sameinuðu þjóðanna. Þjóðaröryggisstefnan er leiðarljós en hún nær til virkrar utanríkisstefnu, varnarstefnu og almannaöryggis.
Ísland leggur áherslu á pólitíska samstöðu um eflingu öryggis, stöðugleika og sameiginlegar varnir á vettvangi Atlantshafsbandalagsins samhliða því að leita leiða til að draga úr spennu og byggja upp traust. Öryggismál og viðbúnaður á Norður-Atlantshafi, vopnatakmarkanir og afvopnunarmál, auk virkrar þátttöku kvenna í öryggismálum eru forgangsmál. Sem bandalagsríki ber Ísland ábyrgð á rekstri íslenska loftvarnakerfisins, eftirlitskerfa með hafsvæðum, samskiptakerfa, og annarra varnarmannvirkja og -búnaðar á Íslandi.
Í takt við þróun öryggismála í Evrópu hefur reglubundin viðvera Bandaríkjanna og annarra Atlantshafsbandalagsríkja aukist á Íslandi einkum vegna kafbátaeftirlits og loftrýmisgæslu. Ráðist hefur verið í nauðsynlegar endurbætur og viðhald á varnarmannvirkjum og eru framkvæmdirnar að mestu fjármagnaðar af Bandaríkjunum og Mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins. Fleiri varnaræfingar eru nú haldnar hér við land á vegum Atlantshafsbandalagsins og í samstarfi við Bandaríkin og tekur Ísland virkari þátt en áður í undirbúningi og framkvæmd þeirra.
Þá er sjónum í auknum mæli beint að fjölþáttaógnum á borð við falsfréttir, upplýsingaóreiðu og netógnir, sem geta m.a. grafið undan alþjóðakerfinu og lýðræðislegum ferlum. Örar tækniframfarir hafa að sama skapi haft í för með sér nýjar ógnir og áskoranir og sett öryggi lykilinnviða og fjarskiptakerfa í forgrunn.

Þróunarsamvinna
Ný stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu var samþykkt af Alþingi í maí 2019. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru leiðarljós stefnunnar sem hefur það að yfirmarkmiði að draga úr fátækt og hungri og stuðla að almennri velferð á grundvelli mannréttinda, kynjajafnréttis og sjálfbærrar þróunar.
Malaví og Úganda eru tvíhliða samstarfsþjóðir Íslands í þróunarsamvinnu en þar vinna íslensk stjórnvöld að mestu leyti í samstarfi við héraðsyfirvöld og stofnanir Sameinuðu þjóðanna.
Alþjóðabankinn, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), Stofnun Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women), og Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) eru áherslustofnanir Íslands í fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu. Ísland á reglulega sæti í stjórnum þessara stofnana og frá 2019-2021 gegnir Ísland samræmingar- og forystuhlutverki í kjördæmi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í stjórn Alþjóðabankans.
Vopnuð átök, loftslagsbreytingar og fátækt hafa leitt til þess að þörfin fyrir neyðar- og mannúðaraðstoð fer stöðugt vaxandi. Ísland leggur þar sitt af mörkum einkum í samstarfi við stofnanir Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðaráð Rauða krossins. Þá er lögð áhersla á samstarf og stuðning við þátttöku atvinnulífsins og frjálsra félagasamtaka í þróunar- og mannúðarmálum.
Undir lok ársins 2019 hófst nýr kafli í sögu skólanna fjögurra sem starfað hafa hér á landi um langt árabil; Jarðhitaskólans, Sjávarútvegsskólans, Landgræðsluskólans og Jafnréttisskólans. Tekið var upp samstarf við Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) og í tengslum við það stofnuð sjálfstæð miðstöð með eigin stjórn sem nefnist
GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu.

Borgaraþjónusta
Borgaraþjónustan veitir Íslendingum vernd og aðstoð erlendis og er ein af grunnstöðum utanríkisþjónustunnar. Umfang verkefna hefur vaxið mjög samfara efnahagsþróun og hröðum tæknilegum breytingum, en nær 50 þúsund Íslendingar höfðu skráða búsetu erlendis 2020. Þegar heimsfaraldur kórónuveirunnar skall á heimsbyggðina snemma árs 2020 reyndist nauðsynlegt að umbylta störfum utanríkisþjónustunnar tímabundið til að bregðast við þessum fordæmalausu aðstæðum. Sveigjanleiki þjónustunnar, sem lögð hefur verið rík áhersla á að hlúa að og efla, reyndist vel þegar um helmingur allra starfsmanna tók þátt í því að aðstoða hátt í tólf þúsund Íslendinga erlendis. Norrænt samstarf um borgaraþjónustu reyndist einnig ómetanlegt til að kortleggja verustaði og heimferðaleiðir strandaglópa erlendis vegna faraldursins.

Stjórnendur

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd