Útfararþjónusta kirkjugarða Akureyrar

2022

Útfararþjónusta Kirkjugarða Akureyrar var stofnuð árið 1997 samhliða því að nýtt líkhús var tekið í notkun við kirkjugarðinn á Naustahöfða á Akureyri. Tilkoma líkhússins og kapellunnar sem í húsinu er var mikið framfaraskref fyrir samfélagið en rétt þótti á þessum tímapunkti að færa þjónustu í kringum útfarir í sérstakt fyrirtæki og því var Útfararþjónusta Kirkjugarða Akureyrar ehf. stofnuð. Starfsemi hennar og skrifstofa er í húsinu á Naustahöfða og eru fastráðnir starfsmenn þrír.

Víðtæk þjónusta við andlát og útför
Útfararþjónusta KGA annast alla þjónustuþætti fyrir aðstandendur við andlát en breytilegt er hvaða þætti aðstandendur vilja annast sjálfir og hvaða verkefni þeir fela starfsfólki Útfararþjónustu KGA. Mikil áhersla er lögð á persónuleg og fagleg vinnubrögð enda býr starfsfólk að langri reynslu í samskiptum við aðstandendur á þessum viðkvæma tímapunkti.
Starfsmenn Útfararþjónustunnar veita ráðgjöf um þau verkefni sem þarf að inna af hendi þegar andlát ástvina ber að garði, s.s. hvað varðar andlátstilkynningar og undirbúning útfarar. Hjá Útfararþjónustunni eru líkkistur til sýnis og sölu, líkklæði, leiðiskrossar og annað sem huga þarf að þegar að útför og greftrun kemur. Sama gildir um aðkomu að útförum og greftrunum þegar líkbrennslu er óskað en í þeim tilvikum annast Útfararþjónustan flutning kistu til brennslu í Reykjavík og flutning duftkers á greftrunarstað.
Starfsmenn Útfararþjónustunnar búa um látna í kistu og undirbúa kistulagningarathafnir en algengt er að bæna- og kveðjustundir nánustu aðstandenda séu í fallegri kapellu líkhússins á Naustahöfða. Í sumum tilfellum er kistulagning í kirkju fyrir útför og annast starfsfólk Útfararþjónustunnar undirbúning þeirrar athafnar, ef óskað er.
Þegar kemur að útförinni sjálfri stendur aðstandendum til boða að Útfararþjónusta KGA aðstoði við allan undirbúning hennar, t.d. umsjón með gerð sálmaskrár, blómaskreytingar, umsjón með tónlistarflutningi við útför, útfarartilkynningar og fleira.

Þjónustan nær til alls Norðurlands
Útfararþjónusta KGA á og rekur tvo líkbíla og annast alla flutninga að og frá líkhúsi, eftir því sem aðstandendur óska. Þjónustusvæði Útfararþjónustunn nær í raun til alls Norðurlands þó að stærstur hluti verkefna tengist Akureyri og næsta nágrenni.
Á árinu 2019 voru um 144 greftranir í görðum Kirkjugarða Akureyrar. Miðað við aldursam-setningu þjóðarinnar er fyrirséð að útförum mun fjölga umtalsvert á komandi árum.
www.kirkjugardur.is/utka

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd