Útgerðarfélagið Otur / Siglunes

2022

Útgerðarfélagið Otur ehf., Siglunes hf. og Lífsbjörg ehf. eru allt fyrirtæki sem eru í eigu Matthíasar Sveinssonar. Bátar og skip sem tilheyra þessum fyrirtækjum eru eftirfarandi: Finnbjörn ÍS 68 sem er dragnótarbátur, Otur ÍS 73 sem er gerður út á handfæri og
Otur II ÍS 173 sem er línubátur sem gerir út á landbeitta línu.

Sagan og starfsemi
Útgerðarfélagið Otur ehf. var stofnað árið 2011 af Matthíasi Sveinssyni og Sverri Karl Matthíassyni. Árið 2011 kom upp sú hugmynd að fara út í nýsmíði á tveimur bátum af gerðinni Sómi 870. Markmiðið var að hafa þá klára fyrir sumarið 2012 og hefja á þeim veiðar á svæði B á strandveiðum, nánar tiltekið í Norðurfirði á Ströndum. Þegar nýsmíðin var kominn í ferli þá bættist þriðji aðilinn í hópinn. Þá voru systurskipin orðin þrjú talsins. Strandveiðikerfinu á þessum tíma var þannig háttað að landinu var skipt í 4 svæði: A, B, C og D. Hvert og eitt svæði fékk úthlutaðan kvóta til að veiða fyrir hvern mánuð fyrir sig. Miðað við úthlutun og fjölda báta þá fannst okkur Svæði B henta best upp á að ná sem mestum afla á bátana yfir sumarið. Leiðin lá því norður á Strandir lok apríl 2012. Við sváfum í bátunum allt sumarið og fengum að kynnast þessu frábæru heimafólki og gjöfulum fiskimiðum sem Húnaflóinn hefur upp á að bjóða. Aflabrögð voru góð yfir sumarið. Næsta vor snérum við aftur norður á Strandir og tók við annað strandveiðitímabil sem gekk enn betur en það fyrra. Að loknum strandveiðunum haustið 2013 sigldum við feðgar á Otri í heimahöfn sem er Ísafjörður og komum við seint að kvöldi þar í höfn. Þar hittum við mann á bryggjunni sem sagðist vera skipstjóri á 31 feta línubáti sem gerður var út frá Ísafirði. Við spjölluðum lengi saman og það kemur til tals að mögulega eigi að selja útgerðina sem hann vinnur fyrir ásamt kvóta og bát (Björg Hauks ÍS-33). Í framhaldi af þessu samtali þá hefjast viðræður og síðar meir fjárfestir Útgerðarfélagið Otur í kvóta og bát. Kvótinn var samtals 217.753 þorskígildi, mest þorskur, ýsa og steinbítur. Þar með fórum við að gera Björgu Hauks út á línuveiðar frá Ísafirði. Róið var með 32-36 bala og hver bali innihélt 450 króka. Með þessum hætti var róið alla daga þegar veður leyfði fiskveiðiárið 2013-2014. Heildarafli Bjargar Hauks þetta fiskveiðiár var 360.946 kg upp úr sjó sem er ágætis afli miðað við 8 tonna bát. Næsta fiskveiðiár 2014-2015 þá jókst kvótastaðan á Björgu Hauks ÍS 33 úr 217.753 í 244.484 þorskígildi.
Áfram var róið með sama hætti en markmiðið var alltaf að fjárfesta í stærri bát. Svo gerðist það í janúar 2015, að útgerð frá Siglufirði var til sölu. Það var Siglunes hf. sem gerði út 15 tonna línubát sem gerði út á landbeitta línu og voru aflaheimildir rúm 400.000 þorskígildi, að stærstum hluta þorskur. Það var ákveðið að kaupa allar eignir félagsins. Þetta styrkti útgerðina og var róið á báðum bátum út fiskveiðiárið 14/15.
Í byrjun fiskveiðiársins 15/16 var úthlutun á þessa tvo báta samtals 703.033 þorskígildi.
Otur II fer þá í allsherjar breytingar, meðal annars var skipt um vél, settur skutkassi, pera að framan, útbúið þurrpúst o.fl. Á meðan réri áhöfnin á Björgu Hauks fram í lok desember 2015. Gekk strákunum nokkuð vel á Björgu Hauks og fiskuðu þeir 264.362 kg upp úr sjó frá
1. september -31. desember 2015. Eftir að Otur II ÍS 173 hafði verið breytt í lok desember 2015, þá byrjaði áhöfnin á Otri II að róa og gekk veiði vel út það fiskveiðiár.
Alls komu 738.931 kg upp úr sjó frá 27. desember 2015-31. ágúst 2016 (Sjá töflu). 
Heildarafli hjá þessum tveimur bátum var samtals 1.164.439 kg upp úr sjó (Sjá töflu). Kvótastaðan hefur haldist mjög svipuð síðan Siglunes hf. var keypt inn í útgerðina.

Fiskveiðiárið 16/17 var fyrsta fiskveiðiárið sem Otur II nær að róa allt fiskveiðiárið og var heildarafli það fiskveiðiárið 905.293 kg upp úr sjó. Björg Hauks réri að hluta til það fiskveiðiár og landaði 207.688 kg upp úr sjó. Fiskveiðiárið 17/18 var síðasta árið sem Björg Hauks var á veiðum fyrir Útgerðarfélagið Otur og var hún seld til Noregs haustið 2018. Allt aflamark af Björgu Hauks var fært yfir á Otur II. Heildarafli hjá Otur II fiskveiðiárið 17/18 var 1.134.275 kg upp úr sjó.
Á fiskveiðiárinu 18/19 var úthlutun á Otur II 789.795 þorskígildi. Heildarafli hjá Otur II var 996.077 kg upp úr sjó, mest þorskur. Við feðgar vorum lengi búnir að fylgjast með dragnótarbátum um landið og þá aðallega á Vestfjörðum. Vorið 2019 kemur á sölu bátur sem ber heitið Finnbjörn ÍS 68 (áður Farsæll GK) sem var keyptur til Bolungarvíkur árið 2015. Við þekktum til eigandans og skipstjórans á Finnbirni og ákváðum að kaupa af honum útgerðina, en báturinn hafði verið gerður út á leigukvóta. Áhöfnin fylgdi bátnum og í dag er verið að svipast um eftir aflaheimildum til að kaupa á bátinn. Á meðan verður leigður kvóti á bátinn og einnig færður þorskur af Otri II ÍS 173 yfir á Finnbjörn ÍS 68.

Framtíðarsýn
Stefna Útgerðarfélagsins Oturs er að efla bæði kvótastöðu og skipakost á komandi árum.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd