Útvík

2022

Útvík hf. var stofnað í september 1973 af þeim Vilhjálmi Jónssyni, Jóni Pálmari Ólafssyni, Karli Njálssyni, Guðrúnu Vilhjálmsdóttir og Guðrúnu Á. Sigurðadóttur. Fljótlega eftir stofnun byggði félagið 300 fm húsnæði undir reksturinn að Eyrartröð 9, Hafnarfirði.
Hjónin Þorsteinn Svavarsson og Jóna Jónsdóttir kaupa allt hlutafé félagsins í júni 1979. Þau ráðast í endurbætur á húsnæðinu og er það útbúið til fiskvinnslu. Vinnsla hefst svo í húsi félagsins eftir endurbætur árið 1981.
Útvík hf. kaupir helming í 30 tonna bát árið 1981 í félagi við Valdimar Halldórsson úr Garði í Gerðahreppi. Valdimar selur Útvík sinn hlut í bátnum árið1982. Báturinn stundaði línu og netaveiðar frá Sandgerði og færaveiðar frá Drangsnesi tvö sumur. Útvík selur bátinn austur á Bakkafjörð árið 1983 með samningi um löndun tvær vertíðir hjá Útvík hf.
Nýir eigendur gerðu því bátinn út næstu tvö ár frá Reykjavík og Þorlákshöfn.
Árið 1984 festir Útvík kaup á m.b. Margréti frá Siglufirði, sem var 11 tonna bátalónsbátur og síðan 1987 kaupir Útvík annan samskonar bát, m.b. Mána frá Suðureyri og lögðu þeir báðir upp aflann hjá fyrirtækinu.

Starfsemin
Unnið var í saltfisk og skreið fyrstu árin en árið 1988 voru sett upp frystitæki og frystiklefi og hófst þá vinnsla í frystingu og ferskan fisk sem að mestu leyti var seldur til Ora hf., til niðursuðu. Einnig voru unnin grásleppuhrogn.
Árið 1992 var ákveðið, til að tryggja grundvöll fiskvinnslunnar, að festa kaup á stálbátnum m.b. Magnúsi Guðmundssyni ÍS. Frá Flateyri. M.b. Máni var settur upp í kaupin. Fékk nýi báturinn nafn og einkennisstafi m.b. Mána HF 149.
M.b. Máni var lengdur árið 1994 og aftur árið 1996, þegar sett voru í hann snurvoðarspil og var hann næstu ár gerður út á snurvoð og netaveiðar þar til hann var seldur til Ísafjarðar ásamt kvóta árið 2005. Árið 1997 var húsnæði Útvíkur hf. stækkað þegar byggt var við húsið úr stálgrind u.þ.b. 380 fm. Húsnæðið var svo aftur stækkað um aðra 380 fm árið 2001.
Eftir sölu á m.b. Mána HF 149, árið 2005 voru keyptir til félagsins tveir smábátar sem fengu nöfn forvera sinna, m.b. Margrét HF 149 og m.b. Máni HF 149. Voru þeir gerðir út á línu og handfæri þar til þeir voru seldir og útgerð hætt.
Árið 2007 ákváðu eigendur Útvík hf. síðan að hætta fiskvinnslu og var húsnæðið selt til Sigurjóns Þorsteinssonar hjá Fiskvinnslunni Útvík hf. og rekur hann nú fiskvinnslu þar.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd