Vaðlaheiðargöng liggja milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals og eru í eigu hlutafélags með sama nafni. Göngin voru opnuð fyrir umferð 21. desember 2018 en voru formlega vígð 12. janúar 2019. Innheimta veggjalda hófst í ársbyrjun. Sögu Vaðlaheiðargangna má skipta í þrjú tímabil, þ.e. forsögu, framkvæmd og rekstur.
Forsagan
Sögu Vaðlaheiðargangna má rekja allt aftur til 2002 að kannaðir voru kostir þess að stofna félag til undirbúnings að gerð og rekstri jarðgangna undir Vaðlaheiði. Félagið Greið leið ehf. var stofnað þann 28. febrúar 2003. Hluthafar voru öll sveitarfélög á Norðurlandi eystra auk tíu fyrirtækja. Félagið skipti sköpum við að þoka verkefninu áfram. Meðal annars stóð það fyrir umfangsmiklum jarðfræðirannsóknum á gangnaleiðinni, sambærilegum rannsóknum og við önnur jarðgöng á Íslandi.
Árið 2010 samþykkti Alþingi lög þar sem m.a. er kveðið á um heimild til stofnunar hlutafélags um gerð Vaðlaheiðarganga. Á grundvelli þeirra var félagið Vaðlaheiðargöng hf. stofnað þann 9. mars 2011. Hluthafar voru tveir, Vegagerðin og Greið leið ehf.
Með lögum nr. 48/2012 var ráðherra f.h. ríkissjóðs heimilað að undirrita samning við Vaðlaheiðargöng hf. um lán til gangnaframkvæmda. Ríkissjóður ábyrgðist lán til framkvæmdarinnar. Hlutafé í Vaðlaheiðargöngum hf. er 600 milljónir kr. þar af er hlutur Greiðrar leiðar ehf. 66% og hlutur ríkissjóðs 34%.
Framkvæmdin
Sjálf gangnagerðin varð um margt söguleg. Sprenging gangnanna hófst í júlí 2013. Áætlanir gerðu ráð fyrir opnun gangnanna í desember 2016. Vaðlaheiðargöng eru fyrstu jarðgöng á Íslandi í nýjum staðli með 9,5 metra breidd í veghæð, í stað 8,5 metra í eldri göngum. Við gröft gangnanna komu upp fordæmalausar aðstæður. Annars vegar innstreymi af miklu magni af heitu vatni og hins vegar hrun samfara miklu innstreymi af köldu vatni. Þetta kallaði á nýjar lausnir og olli miklum töfum og kostnaði. Norðurorka áformar að nýta kalda vatnið fyrir vatnsveitu á Svalbarðsströnd og Akureyri. Heita vatnið er leitt út í sér lögn til notkunar síðar.
Heildarlengd ganganna er um 7,5 km með vegskálum. Vegir að göngunum austan og vestan Vaðlaheiðar eru samtals 4,1 km og teljast hluti framkvæmdarinnar við göngin. Með Vaðlaheiðargöngum styttist vegalengd milli Akureyrar og Húsavíkur eða Mývatns um 16 km.
Rekstur
Vegfarendur greiða veggjald fyrir að aka um Vaðlaheiðargöng. Tekjum af veggjaldi er ætlað að standa undir rekstri ganganna og afborgunum af lánum. Rekstur ganganna hefur nú staðið í um eitt ár. Skv. lánasamningi fer endurfjármögnun fram í ársbyrjun 2021 þegar reynslutölur tveggja ára liggja fyrir. Árið 2010 var umferð um Víkurskarð 1220 bílar á sólarhring, árið 2018 var hún 1820 bílar. Árið 2019, fyrsta rekstarár Vaðlaheiðargangna, var umferð um Vaðlaheiðargöng 1447 bílar að meðaltali á dag og 477 bílar um Víkurskarð, eða samtals 1924 bílar, sem var 6% aukning á heildarumferð.
Vaðlaheiðargöng eru fyrsta samgöngumannvirkið með eingöngu rafræna innheimtu og því án tafa á umferð. Innheimta veggjalda fer fram rafrænt á www.veggjald.is eða www.tunnel.is. Notendur búa til sitt svæði þar, skrá inn númer ökutækis eða ökutækja og tengja við greiðslukort sitt. Hægt er að greiða fyrir staka ferð eða fyrir fleiri ferðir á afsláttarkjörum. Á veggjald.is eru upplýsingar um gjaldskrá og þar er hægt að hlaða niður appi fyrir síma. Myndavélar taka myndir af númerum ökutækja sem ekið er um göngin. Veggjaldið skuldfærist sjálfkrafa á það greiðslukort sem skráð er við bílnúmerið. Tækifæri gefst til að greiða veggjald fyrir óskráð ökutæki að lokinni ferð en að öðrum kosti er það innheimt af skráðum umráðamanni ökutækis. Að jafnaði tekst myndavélaaflestur í um 97% tilvika. Í vafatilvikum kemur til kasta þjónustufulltrúa að yfirfara myndirnar.
Skrifstofa Vaðlaheiðargangna hf. er á Akureyri. Framkvæmdastjóri félagsins er Valgeir Bergmann Magnússon byggingatæknifræðingur. Með honum starfar rekstrarstjóri og tveir þjónustufulltrúar. Frá stofnun Vaðlaheiðarganga hf. hafa eftirtaldir gegnt formennsku stjórnar: Kristín H. Sigurbjörnsdóttir, Pétur Þór Jónasson, Ágúst Torfi Hauksson, Friðrik Friðriksson og Hilmar Gunnlaugsson núverandi formaður.
Framtíðin
Göngin eru að skila samfélagslegum áhrifum með áþreifanlegum hætti, s.s. í umferðaröryggi, öryggi í heilbrigðisþjónustu og í umhverfismálum. Framtíðarsýn félagsins er að rekstur félagsins haldi áfram að styrkjast, hærra hlutfall ökutækja fari um göngin og umferð aukist, áfram verði framþróun í tækni til aflesturs bílnúmera, aukin sátt verði í þjóðfélaginu um framkvæmdina og gjaldtökuna.
Verkfræðistofan Raftákn og hugbúnaðarhúsið Stefna, ásamt stjórnendum Vaðlaheiðargangna, hönnuðu gjaldtökukerfið veggjald.is sem er í eigu Vaðlaheiðargangna hf. Hann hentar vel til innheimtu í önnur mannvirki. Augljós kostur er því að nýta þann búnað og reynslu Vaðlaheiðarganga hf. til að sinna annarri innheimtu sem tengist ökutækjum, s.s. annarra veggjalda, verði þeim komið á og bílastæðagjalda.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd