Fyrirtækið Vagnar og þjónusta ehf. var stofnað árið 1987. Stofnendur þess eru bræðurnir Gestur Bragi og Björn Rúnar Magnússynir. Hjá fyrirtækinu starfa nú samtals 16 manns. Starfssvið fyrirtækisins fólst upphaflega í því að byggja yfir sendi- og flutningabíla og að búa þá lyftum, en nú jafnframt í framleiðslu, sölu og þjónustu á bílskúrshurðum, iðnaðarhurðum vörukössum og alls konar tilheyrandi búnaði til flutninga.
Starfsemin
Bílskúrshurðir – Vagnar og þjónusta ehf. hefur smíðað bílskúrshurðir allt frá árinu 2002. Bílskúrshurðirnar eru alfarið vönduð íslensk framleiðsla. Þær eru búnar þéttilistum og einangrun og koma í hvítum lit (RAL 9002) en fá má hurðirnar í hvaða lit sem er úr RAL litakerfinu.
Iðnaðarhurðir – Vandaðar iðnaðarhurðir eru fáanlegar í þeim stærðum sem viðskiptavinur óskar og geta verið sérstyrktar fyrir mikið vindálag. Þær fast einnig með stórum gluggum og öflugum rafstýrðum opnunarbúnaði. Hurðirnar koma í hvítum lit en þær má einnig fá í hvaða lit sem hentar úr RAL litakerfinu.
Kerrur – Hestakerrur – Vagnar og þjónusta ehf. smíðar hesta kerrur sem henta fyrir 3 til 7 hross. Hægt er að fá alls konar aukabúnað með kerrunum eins og slár (til að hafa á milli hrossa), hnakkageymslu og myndavélar til eftirlits. Fjórhjólakerrur – lengri kerrur með 2 hjólapör (2 hjól á sitt hvorri hlið) sem eykur stöðugleika. Burðargeta 750 kg. Farangurskerrur – smíðaðar í ýmsum útfærslum. Eins öxuls kerrur – opnar kerrur á einum öxli með burðargetu frá 750 kg til 1500 kg.
Vörukassar – Allar gerðir vörukassa fáanlegar með mismunandi mikilli opnun eftir óskum viðskiptavina. Einnig frystikassar. Sérsmíðaðir vörukassar fyrir vöruflutninga og sendibíla sem og Dhollandia vörulyftur á allar stærðir flutninga og sendibíla en Vagnar og þjónusta ehf. er umboðsaðili Dhollandia. Lyfturnar má fá í ýmsum gerðum með mismunandi lyftigetu.
Það handverk sem liggur til grundvallar er járnsmíði og trésmíði. Upphaflega voru yfirbyggingar úr járngrindum sem klæddar voru með áli að utan og krossviði a innan. Nú eru klæðningarnar úr plasti, sem kemur í plötum erlendis frá. Helsta samkeppnin er við erlendan innflutning en yfirbyggingar Vagna og þjónustu þykja skara fram úr hvað varðar gæði enda aðstæður og veðurfar á Íslandi með öðru móti en víðast annar staðar og stífar kröfur gerðar til styrkleika og endingar slíkra yfirbygginga. Ör og mikil þróun hefur átt sér stað innan fyrrtækisins og miklum tíma verið varið í að betrumbæta vöruna vegna vaxandi krafna viðskiptavina t.d. þegar um fiskflutninga í körum er að ræða.
Aðrar vörur – Rafrænar myndavélar, bæði þráðlausar og kapaltengdar, til öryggis og eftirlits. Bakkmyndvélar og myndavélar til eftirlits með flutningi (t.d. hrossum). Þá má fá kerruefni í úrvali til eigin smíða, svo sem öxla, kúlutengi, bretti, dekk og felgur sem og aðra íhluti.
Starfsmenn, staða og aðsetur
Starfsemin er þess eðlis að hún kallar fyrst og fremst á karlastörf þótt eitt stöðugildi skiptist á tvær konur. Starfsmannastefnan einkennist af jákvæðni og samheldni. Flestir starfsmanna okkar hafa meira en 10 ára starfsaldur. Árshátíðir eru haldnar reglulega bæði innanlands og erlendis og hefur hópurinn farið utan til að fagna stóráföngum bæði 20 og 30 ára afmælum fyrirtækisins. Markaðshlutdeild Vagna og þjónustu er nú um 40%. Veltan hefur vaxið jafnt og þétt þótt smá bakslag hafi orðið í kreppum hérlendis eins og árin 1990, 2000 og 2008.
Aðsetur Vagna og þjónustu er að Tunguhálsi 10, 110 Reykjavik.
Áhrif COVID-19
Laga þurfti starfsemina að gildandi reglum Almannavarna, loka verkstæði og verslun fyrir viðskiptavinum, ástunda mikla sprittun og vinna bókhaldið heima.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd