Valeska ehf. var stofnað á Dalvík í október 2009 af Óskari Óskarssyni og Lilju Björk Ólafsdóttur. Meginstarfsemi fyrirtækisins er löndunarþjónusta og frá upphafi hefur stærsti viðskiptavinur þess verið Samherji Ísland ehf. Þar að auki sér Valeska um landanir úr þeim fiskiskipum sem koma inn til löndunar á Dalvík og Akureyri.
Sagan
Valeska ehf. dregur nafn sitt af allstóru tréskipi sem Þorsteinn og Sigurður Páll Jónssynir (bræður Petrínu Þórunnar ömmu Óskars) keyptu á Akureyri laust fyrir 1930. Þeir drógu skipið á þann stað á Dalvík sem þeir töldu vænlegan til útgerðar og þar var því strandað og efnið nýtt í bryggju. Skip þetta hét Valeska og með þessari framkvæmd var stigið stórt skref í átt til varanlegrar bryggjugerðar á Böggvisstaðasandi. Á kambinum þarna fyrir ofan byggði Þorsteinn verbúðir og fiskhús ásamt góðri aðstöðu fyrir aðra starfsemi tengda útgerðinni.
Kristjánsbúrið
Í kjölfar alvarlegs vinnuslyss á starfsmanni hefur Valeska lagt mikla áherslu á að bæta öryggismálin og að sérsníða löndunarferli að hverju skipi fyrir sig og gæta fyllsta öryggis við hverja löndun. Valeska, í samstarfi við Samherja og Hamar ehf. kynnti til sögunnar „Kristjánsbúrið“ sem varð bylting í öryggisbúnaði í löndunum á ferskum fiski.
Kristjánsbúrið er búnaður til löndunar á fiskikörum, sérhannaður í samstarfi Samherja og
Valeska á Dalvík. Kristjánsbúrið er framleitt af vélsmiðjunni Hamri ehf. og markaðssett
af Sæplast ehf. Búnaðurinn fyrirbyggir slysahættu sem skapast hefur þegar karastæður hrapa við hífingu til eða frá borði.
Helstu kostir Kristjánsbúrsins eru:
– Búrið lokast sjálfkrafa við hífingu og opnast sjálfkrafa þegar það lendir
– Engin hætta á hruni karastæðu
– Ekki lengur þörf á að húkka í og úr körum við hífingar
– Bætt meðhöndlun kara þar sem ekkert álag er á horn í hífingu
– Aukin afköst við löndun
– Stóraukið öryggi starfsmanna við löndun
Kynningarmyndband á ensku um Kristjánsbúrið er á www.youtube.com, “SAFE2LAND”
Starfsemin
Með fækkun á frystiskipum í flota landsmanna hefur löndunum á frosnum fiski fækkað mikið síðustu ár og hafa sum þau fyrirtæki sem sinna þeirri þjónustu í dag aukið samstarf sín á milli til að nýta mannskap sem best. Árið 2017 keypti Valeska fiskvinnsluhús O. Jakobsson á Ránarbraut 4 Dalvík og hóf í framhaldi frystingu á grálúðu fyrir Samherja svo og söltun á grásleppuhrognum og frystingu á grásleppuhvelju. Í framhaldi tók Valeska yfir alla slægingarþjónustu sem Fiskmarkaður Norðurlands hafði áður sinnt.
Árið 2019 keypti Valeska fyrirtækið PE plastsuða ehf. en það fyrirtæki sér um viðgerðir á fiskikerjum úr plasti. Í framhaldi var gerður samstarfssamningur við iTub um að sjá um allar viðgerðir á þeim fiskikerjum sem iTub leigir út hér á landi.
Til viðbótar við áðurnefnda starfsemi er Valeska með framleiðslu á vörubrettum úr timbri á Dalvík og timburendurvinnslustöð að Réttarhvammi 3 á Akureyri. Brettasmiðja Valeska framleiðir aðallega vörubretti fyrir sjávarútveginn svo og önnur fyrirtæki í matvælaiðnaði. Fyrirtækið býður upp á bretti í margskonar stærðum og gerðum.
Samhliða brettasmíðinni hefur Valeska farið út í endurvinnslu á því timbri sem til fellur hjá
fyrirtækinu og viðskiptavinum þess. Við framleiðslu eru notaðar vélar frá Hollandi og
Ítalíu til að endursmíða bretti úr því timbri sem er í lagi. Annað timbur er pressað og
kurlað í köggla sem eru notaðir sem undirburður í hesthúsum og öðrum gripahúsum.
Fyrirtækið er með starfsstöðvar á eftirtöldum stöðum:
Ránarbraut 4, Dalvík – Löndunarþjónusta, karaviðgerðir og brettasmíði
Réttarhvammur 3, Akureyri – Timbur endurvinnsla og brettasmíði
Fiskitangi, Akureyri – Löndunarþjónusta og viðhald
Í dag starfa um 20 starfsmenn hjá Valeska og eru helstu stjórnendur eftirtaldir:
Óskar Óskarsson, framkvæmdastjóri
Magnús Árnason, rekstrarstjóri
Stefán Bragi Þorgeirsson, rekstur og viðhald tækja og áhalda
Jón Gestsson, timbur og endurvinnsla
Adrian Wilicki, karaviðgerðir
Stjórnarformaður félagsins er Lilja Björk Ólafsdóttir
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd