Valka ehf

2022

Hugmyndin af hátæknifyrirtækinu Völku varð til árið 2003 þegar verkfræðingurinn Helgi Hjálmarsson var í fæðingaorlofi með tvíburadætur sínar. Um það leiti sem dæturnar stigu sín fyrstu skref voru drög að vél Völku orðin til í bílskúrnum hjá systur Helga í Kópavogi.
Í dag er fyrirtækið enn með starfstöð í Kópavogi en nú í 4000 fermetra húsnæði við Vesturvör þar sem ríflega hundrað manna starfa. Hjá dótturfyrirtækinu Valka AS í Alta í Noregi starfa þar fimm manns. Með Völku vildi Helgi sem í dag er framkvæmdastjóri fyrirtækisins stuðla að frekari sjálfvirkni og framþróun tæknilausna í fiskvinnslu. Í upphafi voru hluthafar félagsins fáir, ásamt Helga sjálfum nokkrir félagar hans úr verkfræðinni sem og ættingjar. Fljótlega bættust þó fleiri í hópinn, fjárfestar og íslenskir sjóðir, fyrst Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og síðan Frumtak fjárfestingasjóður, báðir með nokkuð stóra hluti. Sjóðirnir héldu hlutum sínum í um það bil áratug þegar þeir seldu sína hluti til annarra þáverandi hluthafa en einnig bættust þá nýir í hópinn. Það hefur verið gæfa fyrirtækisins að vera með sterkan hóp eiganda með breiða þekkingu og reynslu sem hefur hjálpað til við hraðan vöxt og útrás.

Vinnulag og framleiðsluferli
Valka hannar og framleiðir hátækni lausnir fyrir bolfisk og laxavinnslur. Fyrstu vörur Völku voru mötunar, flokkunar og pökkunarlausnir á ferskum fiski en á árinu 2009 var komin hugmynd um að skera beingarð úr fiski sjálfvirkt með vatnsskurði. Það hafði verið þó verið reynt áður en hugmynd Völku gekk út á að setja rötngenmyndavél fyrir framan til að greina nákvæma staðsetningu beinanna áður en skorið væri. Verkefnið um hönnun á skurðarvélinni var styrkt af Tækniþróunarsjóði í samstarfi við HB Granda og var fyrsta frumgerðin tilbúin og sett upp hjá HB Grandi í byrjun árs 2012. Hún var notuð til að skera bein og bita úr karfa.
Það má segja að síðan þá hafi vatnsskurðarvélin verið hjartað í starfseminni og Valka er í dag leiðandi í þróun þeirrar tækni. Fleiri vörur og lausnir í kringum skurðarvélina hafa jafnt og þétt bæst við og Valka hefur getað boðið viðskiptavinum sínum upp á heildarkerfi frá árinu 2015.
Valka hefur einnig frá árinu 2011 boðið flokkunar- og pökkunarlausnir fyrir lax en það ár afhenti Valka fyrstu heildarlausnina fyrir framleiðslu á heilum laxi. Kerfi sem þessi eru umfangsmikil, samanstanda af bæði vél- og hugbúnaði og Valka er í dag eitt fárra fyrirtækja sem getur boðið þannig lausnir. Valka hefur frá upphafi einblínt á að auka afköst, bæta nýtingu og meðhöndlum hráefnis hjá viðskiptavinum með því að auka sjálfvirkni.

Skipulag og sérstaða
Valka skilgreinir sig sem hátæknifyrirtæki og það er hugvitið, hönnunin á kerfunum og forritunin sem gefur Völku sérstöðu. Hluta framleiðslunnar hefur í gegnum árin verið úthýst en eftir því sem fyrirtækið hefur stækkað þá hefur hlutur innanhúss framleiðslu aukist. Öll tæki og kerfi eru sett saman og prófuð hjá Völku fyrir flutning og uppsetningu.
Kjarninn í Völku er áherslan á nýsköpun, hönnun, sölu- og þjónustu.

Mannauður og starfsmannafjöldi
Starfsmenn Völku í heild eru rúmlega hundrað talsins og er hópurinn með fjölbreytta menntun. Verkfræðingar og fólk með próf úr iðngreinum eru áberandi í hópnum en þar má einnig finna viðskiptafræðinga, tölvunarfræðinga, tæknifræðinga, sjávarútvegsfræðinga auk annara.

Framtíðarsýn
Stjórnendur Völku líta björtum augum á framtíðina og sjá fjölmörg vaxtartækifæri. Valka einblínir sem stendur einvörðungu á lausnir fyrir fiskvinnslur þó svo að vörurnar gætu átt erindi við annan prótein iðnað eins og t.d. kjúklingaiðnað. Sérþekking, skilningur og reynsla starfsfólks af greininni er styrkleiki og tækifæri til nýsköpunar í fiskiðnaði og vaxtar eru til staðar.
Noregur ásamt Íslandi hefur verið lykilmarkaður fyrir Völku og er fyrirséð að norski markaðurinn verði enn stærri fyrir Völku og sjá stjórnendur Völku frekari tækifæri til uppbyggingar þar sem og víðar. Dótturfélag Völku í Noregi var stofnað árið 2014, viðskiptavinum hefur fjölgað ört og uppbygging á sterku þjónustuteymi er í fullum gangi. Viðskiptavinum í öðrum löndum hefur jafnframt fjölgað mikið og það er hluti af framtíðarsýn fyrirtækisins að fjölga dótturfélögum í öðrum löndum til að fylgja eftir nýjum sölum og bjóða viðskiptavinum uppá framúrskarandi þjónustu.
Valka hefur átt í góðu samstarfi við einstök sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi og í Noregi og unnið að hugmyndum og útfærslum að nýjum vörulausnum í samstarfi við þau. Þá hefur Valka notið bæði íslenskra og norskra styrkja við verkefni sín. Það er skoðun stjórnenda að áframhaldandi öflug nýsköpun verði skilvirkust í nánu samstarfi við greinina og skilgreint markmið fyrirtækisins að halda áfram á þeirri vegferð.

Velta og hagnaður
Valka hefur verið í örum vexti og tvöfaldaðist velta fyrirtækisins til að mynda árið 2018 frá fyrra ári. Gert er ráð áframhaldandi jöfnum vexti fyrirtækisins á komandi árum.

Staðan í dag
Núna er Ice Tech stærsti hluthafi Völku með 24% eignarhlut. Aðrir stórir hluthafar eru Helgi Hjálmarsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Völku með 14%, Vogabakki með 14%, Vindhamar með 13%, Fossar með 11% og Isder með 4%. Önnur félög og einstaklingar 20%, þar á meðal starfsmenn, eiga samtals um 20% í félaginu. Helstu stjórnendur Völku eru Helgi Hjálmarsson, stofnandi og framkvæmdastjóri, Soffía Lárusdóttir fjármálastjóri, Sigríður Olgeirsdóttir, sviðsstjóri þjónustu, Jón Birgir Gunnarsson sviðsstjóri sölu- og markaðsmála, Róbert Hafsteinsson sviðsstjóri framleiðslu og Ívar Meyvantsson sviðsstjóri þróunar og Leifur Geir Hafsteinsson sviðsstjóri rekstrarsviðs.
Valka er með starfsemi á Íslandi og í Noregi og hefur selt tæki og kerfislausnir til ellefu landa.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd