Vaskur

2022

Hraðhreinsun Austurlands var stofnuð í september 1989 og starfaði í leiguhúsnæði í Fellabæ fyrstu þrjú árin. Starfsemin var í fyrstu almenn fatahreinsun og lítilsháttar þvottur.
Árið 1992 kaupir fyrirtækið 66 fm eigið húsnæði í Miðvangi 2 Egilsstöðum og flutti starfsemi sína þangað og þá var starfsemin orðin meiri í þvottaþjónustu þá aðallega fyrir hótel og fyrirtæki.
Í maí 2001 var flutt í 390 fm nýtt iðnaðarhúsnæði að Miðási 7, þá bættist við verslun með hreinlætis og rekstrarvörur, aðallega fyrir hótel og fyrirtæki.
2009 var nafninu á fyrirtækinu breytt í Vaskur ehf. í takt við að þjónusta fyrirtækisins sem var ekki lengur einungis fatahreinsun.
Árið 2014 var ákveðið að leggja enn meiri áherslu á verslunarrekstur en áður og einnig var afkastageta þvottahúss aukin til að anna mikilli aukningu í þvottaþjónustu til ferðaþjónustunnar. Afkastageta þvottahússins er nú mjög mikil og árið 2014 var verslunin færð í 550 fm húsnæði með sama aðsetur og þvottahúsið við Miðás 7.

Eigendur, stjórnendur og starfsmenn
Stofnendur og eigendur fyrirtækisins eru Sigríður Guðmarsdóttir og Guðjón Sigmundsson. Þau hafa unnið við fyrirtækið frá upphafi og hafa bæði staðgóða reynslu í fyrirtækjarekstri og er Guðjón menntaður vélvirkjameistari og með verslunarpróf og Sigríður stundaði nám á viðskiptabraut í menntaskóla ástamt Brautargengi, námskeiði í fyrirtækarekstri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Guðjón er framkvæmdastjóri félagsins og Sigríður er stjórnarformaður og hefur unnið við bókhald frá upphafi, einnig starfa börnin þeirra tvö og tengdasonur hjá fyrirtækinu. Hafþór Valur Guðjónsson verkstjóri ásamt að sjá að hluta um innkaup og sölu og Tinna Björk Guðjónsdóttir og Guðmundur Þór Þórðarson sjá um innkaup og sölustjórn ásamt markaðssetningu. Fastir starfsmenn eru 8 og á álagstímum í rekstrinum er bætt við lausráðnu fólki og starfsmenn hafa verið allt að 24 þegar mest er.

Núverandi starfsemi
Starfsemi Vasks byggir í dag á eftirfarandi rekstrarþáttum:
Verslun: Stór verslun með fjölbreytt úrval af vöruflokkum. Hannyrðir, skíði, reiðhjól, leikföng, hljóðfæri og búsáhöld eru dæmi um vöruflokka sem Vaskur býður upp á. Markaðssvæði er allt Austurland og með nýstofnaðri vefverslun er allt landið orðið að markaðssvæði.
Fyrirtækjaþjónusta: Sala á rekstrarvörum til ræstinga og hreinsunar ásamt einnota vörum til fyrirtækja og stofnana á svæðinu.
Þvottur: Þvottaþjónusta við fyrirtæki og ferðaþjónustuaðila á svæðinu. Útleiga á líni, dúkum og mottum ásamt allri almennri þvottaþjónustu við fyrirtæki og einstaklinga.
Fatahreinsun: Almenn fatahreinsun fyrir íbúa á svæðinu.
Ýmsar áskoranir hafa verið í starfsemi Vasks á árinu 2020. Heimsfaraldurinn hefur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir markaðsumhverfi Vasks á margan hátt. Á vormánuðum var ljóst að straumur erlendra ferðamanna til landsins yrði einungis brot af því sem verið hefur undanfarin ár. Það var því ljóst að mikil óvissa yrði um rekstur þvottahúss sem þjónustar aðallega ferðaþjónustuaðila. Þrátt fyrir að innlend ferðamennska yfir hásumarið hafi verið töluverð þá dróst starfsemi þvottahúss mikið saman frá árinu 2019. Sveigjanleiki í rekstri Vasks er þónokkur, á meðan þvottahúsrekstur dróst saman þá varð meiri áhersla á verslunarhlutann til þess að höggið vegna heimsfaraldurs yrði ekki mjög þungt. Verslun Vasks naut góðs af fjölda innlendra ferðamanna á ferðalagi um Austurland og aukinnnar verslunar í heimabyggð, sérstaklega í útivistar og hannyrðavörum. Vaskur nýtur einnig góðs af að vera í nálægð einnar hagkvæmustu flutningsleiðar á vörum til Íslands, sem eru ferðir Norrænu til Seyðisfjarðar. Beinn innflutningur á ýmsum vörum hefur stóraukist, og hefur þessi flutningsæð til Austurlands opnað margvíslega möguleika á hagkvæmum innflutningi á vörum frá erlendum birgjum. Helstu styrkleikar fyrirtækisins eru þeir að geta breytt áherslum í rekstrinum allt eftir markaðsaðstæðum. Ennþá er óvissa vegna heimsfaraldurs og mun líklega vera áfram næstu misseri og mun Vaskur leggja áherslu á að laga sig að því og bregðast við þeirri óvissu með aukinni þjónustu og vöruúrvali fyrir heimamarkaðinn, ásamt aukinni þjónustu við innlenda ferðamenn. Eins mun netverslun Vasks auka möguleika fyrirtækisins að koma einstöku vöruúrvali sínu á framfæri til allra landsmanna.

Miðási 7 við Fagradalsbraut
700 Egilsstöðum
4700010
Þjónustuflokkar
Upplýsingar
Fyrirtækjaskrá Staðsetning á korti

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd