Vatnajökull Travel

2022

Vatnajökull Travel á sér langa, farsæla en umfram allt fjölbreytta sögu. Stofnandinn er Guðbrandur Jóhannsson sem hefur alla tíð átt og rekið fyrirtækið. Það má segja að grunnurinn hafi verið lagður árið 1983 þegar Iceland Breakthrough leiðangurinn var farinn. Leiðangurinn samanstóð af þremur Bretum, fimm Frökkum, Bandaríkjamanni og tveimur Íslendingum. Hópurinn kom á seglskútu til Íslands frá Bretlandi og markmiðið var að ferðast þvert yfir mitt Ísland frá Jökulsárlóni til Öxarfjarðar. Ferðast var á kajökum, svifdrekum, vélsleðum og snjóbíl. Hugmyndin var að fara á kajökum og ferja þá með svifdrekum þar sem annars var ekki fært. Guðbrandur kom að undirbúningi og leiðsagði teyminu á ferðinni.

Verkefni og starfsemi
1984 rak annað stórt verkefni á fjörur Jökulsárlóns og Guðbrands en það var vinna við upptökur á James Bond myndinni A View to a Kill sem var tekin að hluta til upp á lóninu. Þá var meginverkefnið að vera flotastjóri fyrir þá 11 báta sem þurfti til verksins.
1985 og 1986 sinnir Guðbrandur sannkölluðu frumkvöðlaverkefni þegar hann hefur siglingar með ferðamenn í bátsferðir á Jökulsárlóni. Þar var lagður grunnurinn að einum stærsta ferðamannastað landsins. Þetta farsæla framtak tók snöggan enda þegar ný hreppsnefnd á svæðinu var kosin sem hafði sínar eigin hugmyndir um rekstur ferðaþjónustu við Jökulsárlón. Það má segja að framsýni og hugmyndaauðgi Guðbrandar hafi lagt hornsteininn að þessari vinsælu ferðamannaperlu og sannast þar orðtakið að þeir njóta sjaldnast eldanna sem fyrstir kveikja þá.
Næsta verkefni var að bjóða ferðamönnum í dagsferðir inn á Lónsöræfi sem er stórfengleg og vanmetin náttúruparadís rétt utan við Höfn. Sá rekstur stóð í 7 ár. Um svipað leyti fór fyrirtækið að sinna skólaakstri úr Öræfum í Nesjaskóla. Það var svo árið 2005 sem Vatnajökull Travel er formlega stofnað í þeirri rekstrarmynd sem það er í dag. Sama ár er ákveðið að bjóða út allan skólaakstur á vegum sveitarfélagsins Hornafjarðar og er gengið til samninga við Vatnajökull Travel sem varð hlutskarpast í útboðinu.
Á þessum árum sinnti fyrirtækið viðamiklum skólaakstri sveitarfélagsins á veturna og á sumrin var boðið upp á akstur með ferðamenn út á Jökulsárlón og upp á Vatnajökul. Á þessum tíma var að hefjast sá mikli vöxtur í ferðamennsku sem við þekkjum í dag.
Allt frá árinu 1985 til dagsins í dag hefur Guðbrandur sinnt fjölmörgum erlendum og innlendum kvikmynda- og auglýsingaverkefnum. Þar á meðal er vinna við stórmyndirnar James Bond: Die another day og Batman Begins ásamt verkefnum fyrir Audi, Vogue og Glamour.
Á síðustu árum hefur fyrirtækið sinnt farþegum skemmtiferðaskipa sem leggjast að bryggju við Djúpavog og Höfn. Samhliða öllu þessu hefur fyrirtækið einnig séð um rekstur á svæðinu fyrir bílaleiguna Hertz og neyðarþjónustu við ferðamenn sem hafa lent í vanda á ferðum sínum um svæðið.
Síðustu ár hefur svo orðið til ný starfsemi þar sem fyrirtækið gangsetti í húsnæði sínu að Bugðuleiru dekkjaverkstæði, sem sinnir í dag farartækjum af öllum stærðum og gerðum og hefur sá hluti starfseminnar vaxið mikið síðastliðin ár. Í dag skiptist reksturinn í dekkjaverkstæðið annars vegar og akstur með hópa hins vegar.

Eigendur og starfsfólk
Guðbrandur Jóhannsson er stofnandi og framkvæmdastjóri Vatnajökull Travel. Kristín Kristjánsdóttir kona Guðbrands hefur tekið mikinn þátt í rekstrinum og að jafnaði eru tveir aðrir starfsmenn til staðar. Einstök verkefni geta þó kallað á vel á annan tug bílstjóra og leiðsögumanna.

Framtíðin
Samhliða hinum gríðarlega vexti ferðamennsku á Íslandi og vinsælda Vatnajökuls-svæðisins er framtíðin björt og eftirspurn eftir þjónustu fyrirtækisins mikil og viðvarandi.

Stjórn

Stjórnendur

Álaleira 14
780 Höfn í Hornafirði
8941616
Þjónustuflokkar
Upplýsingar
Vefur Fyrirtækjaskrá Staðsetning á korti

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd