Vébjarnarnúpur ehf

2022

Árið 2008 keypti Blakknes ehf. í Bolungarvík, í eigu bræðranna Guðmundar og Jóns Þ. Einarssona Klitt ehf. en nafni þess var síðar breytt í Vébjarnarnúp ehf. Félaginu fylgdu nokkur tonn af krókaflahlutdeildum sem voru leigð Blakknesi ehf. Lítil starfsemi var hjá félaginu fyrstu árin en í desember 2017 keypti félagið Einar Hálfdáns ÍS 11(2790) af Blakknesi ehf. ásamt aflaheimildum sem var aðallega steinbítur. Á Einari Hálfdáns starfa 10 starfsmenn, 6 í landi við handbeitningu og fjórir á sjó, en tveir á sjó í einu og tveir í fríi. Blakknes ehf. lét smíða Einar Hálfdáns ÍS 11(2790) hjá Trefjum ehf. í Hafnarfirði og fór sinn fyrsta róður frá Bolungarvík 27. október 2009. Báturinn hefur reynst afar vel og á þeim 11 árum sem báturinn hefur verið gerður út frá Bolungarvík hefur hann landað 13.370 tonnum, aðallega, þorski, steinbít og ýsu. Afli bátsins er aðallega seldur á fiskmarkaði.

Reksturinn
Félagið býr yfir um 136 þorskígildistonnum, aðallega steinbít. Helsta áskorun félagsins er að láta reksturinn vera réttu megin við núllið sem er erfitt þar sem aflaheimildir félagsins eru alltof litlar. Rekstur línubáta með handbeittri línu hefur þyngst mjög mikið á síðustu árum. Miklar hækkanir hafa verið í launum, beitu og leigu aflaheimilda. Steinbítsveiðar eru stór hluti af rekstri línubáta með handbeittri línu, en nokkra mánuði á ári fiskast nánast eingöngu steinbítur á línuna. Afkoma af steinbítsveiðum hefur versnað síðustu ár. Einhverra hluta vegna hafa reiknimeistarar fengið það út að veiðigjöld á steinbít eigi að vera svipuð og í þorski þrátt fyrir að verð steinbíts nái ekki helming á verði þorsks, allavega meðan hann veiðist hér fyrir vestan.

Mannauður
Í áhöfn Einars Hálfdáns eru þrír í dag, tveir á sjó og einn í fríi. Ásmundur Harðarson er skipstjóri, Birgir Már Jóhannsson afleysingarskipstjóri og Jón Egill Guðmundsson háseti. Lengst af hafa Pétur Jónsson og Guðjón Ingólfsson verið skipstjórar, en einnig hafa feðgarnir Guðmundur Einarsson og Einar Guðmundsson verið skipstjórar á bátnum. Steinar Ásgeirsson og Rúnar Geir Guðmundsson voru einnig lengi á bátnum og leystu einnig af sem skipstjórar.
Við beitningu í landi er Hrólfur Einarsson landformaður. Lengst hafa þessir unnið við beitningu: Grzegorz Urbanowski, Suphansa Phongsa, Siriporn Singsawat, Sitthidet Singsawat og Baldur G. Ingimarsson. Margt ungmennið í Bolungarvík hóf sína fyrstu vinnu við beitningu á Einari Hálfdáns ÍS 11. Eigendur Einars Hálfdáns ÍS-11 hafa verið mjög heppnir með sitt starfsfólk, allt dugnarðarfólk.

Eigendur
Vébjarnarnúpur ehf. er í eigu bræðranna Guðmundar og Jóns Þ. Einarssona.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd