Veðurstofa Íslands var sett á stofn með lögum nr. 70/2008 og tók til starfa 1. janúar 2009. Hún heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Stofnunin varð til við sameiningu starfsemi Veðurstofu Íslands, hinnar eldri með því nafni, og Vatnamælinga Orkustofnunar. Jafnframt var hinni nýju stofnun falið að sinna auknum verkefnum á sviði náttúruvár og loftslagsmála, sem og annast allar almennar vatnafarsrannsóknir.
Tekist á við náttúruöflin í heila öld
Veðurstofa Íslands hin eldri tók til starfa 1. janúar 1920 og var í upphafi deild í Löggildingar-stofunni, en þegar hún var lögð niður í árslok 1924 varð Veðurstofan sjálfstæð stofnun. Veðurstofa Íslands fagnaði því 100 ára afmæli sínu árið 2020.
Hlutverk Veðurstofunnar er að stuðla að bættu öryggi almennings, eigna og innviða gagnvart öflum náttúrunnar jafnframt því að styðja sjálfbæra nýtingu hennar og samfélagslega hagkvæmni. Því er sinnt með vöktun lofts, láðs og lagar, byggðri á öflun, varðveislu og greiningu gagna, rannsóknum, þróun og miðlun upplýsinga.
Gildi Veðurstofunnar eru þekking, áreiðanleiki, samvinna og framsækni.
Framtíðarsýn og áherslur Veðurstofunnar eru sem hér segir:
Veðurstofan hefur mótað sér stefnu í fjórtán málaflokkum, þ.e. stefnu um náttúruvá og þjónustu, rannsókna- og þróunarstefnu, stefnu um mælikerfi, mannauðsstefnu, launastefnu, gæðastefnu, gagnastefnu, skjalastefnu, innkaupastefnu, umhverfisstefnu, öryggisstefnu, upplýsingaöryggisstefnu, stefnu í stafrænni miðlun og persónuverndarstefnu. Stefnurnar ná til allra starfsmanna og eru þeir ábyrgir fyrir árangri stofnunarinnar. Þá hefur hlutverk einstakra sviða verið skilgreint og framtíðarsýn þeirra mótuð.
Fjölbreytt starfsemi sem snýr ekki einungis að veðri
Árni Snorrason forstjóri er æðsti stjórnandi stofnunarinnar og hefur framkvæmdaráð sér til ráðgjafar. Í framkvæmdaráði sitja ellefu stjórnendur, forstjóri, fjórir framkvæmdastjórar sviða, fjármálastjóri, náttúruvárstjóri, samskiptastjóri, mannauðsstjóri, gæða- og upplýsinga-öryggisstjóri og lögfræðingur.
Athugana- og tæknisvið sér um rekstur allra mælikerfa Veðurstofunnar. Þar er um að ræða mælikerfi til veður-, vatna- og jarðeðlisfræðilegra mælinga sem og mælitæki til fjarkönnunar. Mælistöðvarnar eru í heild um 500 að tölu. Reksturinn er allur samningsbundinn við önnur svið stofnunarinnar, opinberar stofnanir og fyrirtæki. Framkvæmdastjóri sviðsins er Óðinn Þórarinsson.
Úrvinnslu- og rannsóknasvið vinnur m.a. að almennum rannsóknum á veðri, vatni og jörð og rannsóknum á loftslagsbreytingum. Ennfremur að rannsóknum á náttúruvá þar sem megináherslan er á ofanflóð skv. samningi við Ofanflóðasjóð, en einnig á jarðvá, eldgosavá, vatnavá, veðurvá og sjávarflóðavá. Þá má nefna umhverfisrannsóknir, ekki síst í tengslum við upptöku og innleiðingu vatnatilskipunar og flóðatilskipunar. Framkvæmdastjóri sviðsins er Jórunn Harðardóttir.
Eftirlits- og spásvið sinnir allri veðurþjónustu allan sólarhringinn, þ.m.t. flugveðurþjónustu. Ennfremur ber sviðið ábyrgð á sólarhringsvöktun á náttúruvá vegna ofanflóða, jarðskjálfta, veðurs, vatns, eldgosa, hafíss og sjávarflóða. Framkvæmdastjóri sviðsins er Ingvar Kristinsson.
Upplýsingatæknisvið hefur með höndum rekstur upplýsingakerfa Veðurstofunnar og hugbúnaðarþróun sérlausna. Ennfremur leggur það til sérfræðiþekkingu til þjónustu og þróunar á vettvangi upplýsingatækni. Sviðið ber ábyrgð á tölvugögnum í samræmi við gerða samninga. Framkvæmdastjóri sviðsins er Gunnar Bachmann Hreinsson.
Skrifstofa fjármála ber ábyrgð á stýringu fjármála stofnunarinnar. Undir það fellur meðal annars áætlanagerð, greiðsla reikninga, færsla bókhalds og uppgjör rekstrar, launabókhald og skýrslugjöf um fjárhagstengd viðfangsefni til innri og ytri aðila. Fjármálastjóri er Guðmar Guðmundsson.
Skrifstofa rekstrar sinnir rekstri á húsnæði, aðstöðu og stoðkerfum stofnunarinnar. Þá heldur hún utan um þjónustu og miðlun upplýsinga, jafnt til innri sem ytri aðila.
Skrifstofa forstjóra
Skrifstofa forstjóra hefur þá stjórnendur sem sitja í framkvæmdaráði innan sinna vébanda að frátöldum framkvæmdastjórum og fjármálastjóra. Þessir aðilar bera ábyrgð á stefnumótun og framkvæmd verkefna hver á sínu starfssviði. Skrifstofan ber ábyrgð á að opinber verkefni stofnunarinnar séu unnin í samræmi við árangursstjórnunarsamning milli Veðurstofunnar og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Þá heldur skrifstofan utan um samninga við Alþjóðaflugmálastofnunina og Ofanflóðasjóð, sem og þau verkefni er varða hlutverk Veðurstofunnar á sviði vöktunar fyrir alþjóðaflug (State Volcano Observatory). Loks annast skrifstofan samskipti við aðrar stofnanir, innlendar sem erlendar.
Starfsstöðvar
Starfsstöðvar Veðurstofunnar eru fimm. Höfuðstöðvarnar eru á Bústaðavegi 7-9 í Reykjavík, en hinar eru á Ísafirði, Keflavíkurflugvelli og Akureyri auk Vagnhöfða 25 í Reykjavík. Í árslok 2020 störfuðu 152 starfsmenn á starfsstöðvum stofnunarinnar auk 66 athugunar- og eftirlitsmanna víðsvegar um land. Um 63% starfsmanna er karlkyns en 43% stjórnenda er kvenkyns. Rekstrarkostnaður árið 2020 var rúmlega 2,8 milljarðar króna og er um 55% kostnaðar greiddur af sértekjum, s.s. styrkjum, framlögum og seldri þjónustu, en um 45% með fjárveitingu ríkisins. Um 57% sértekna eru vegna erlendra verkefna.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd