Vegagerðin er einn helsti burðarásinn í samgöngukerfi Íslands og mikilvægur hlekkur í starfsemi fjöldamargra fyrirtækja hér á landi. Stofnunin heyrir undir samgönguráðherra sem skipar forstjóra en auk hans er yfirstjórn Vegagerðarinnar skipuð framkvæmdastjórum fjögurra sviða og forstöðumanni lögfræðideildar. Fjárframlög til rekstursins eru ákveðin á fjárlögum með hliðsjón af samgönguáætlun sem er skipulögð til fimmtán ára og fimm ára.
Umsvif Vegagerðarinnar hafa meiri áhrif í landinu heldur en marga grunar. Starfsemin fer fram í miðstöð og á fimm svæðum. Flestir í miðstöð eru með aðsetur í Borgartúni 5-7 í Reykjavík en þar fer fram stjórnun, stefnumótun og rannsóknavinna stofnunarinnar. Svæðin skiptast í Suðursvæði, Vestursvæði, Norðursvæði, Austursvæði og Höfuðborgarsvæði. Hvert þeirra annast framkvæmdir, viðhald og rekstur vegakerfisins innan sinna marka og hafa umsjón með þjónustu við vegfarendur. Hjá Vegagerðinni starfa um 330 manns.
Söguágrip
Um miðbik 19. aldar voru troðningar og reiðgötur helstu samgönguæðar íslendinga og flutningar fóru fram á klyfjahestum. Fyrsta tilskipun um vegalagningu var staðfest af Danakonungi árið 1861. Með henni var búið í haginn fyrir ferðir hestvagna á sérstökum flutningabrautum sem skiptust í þjóðvegi og aukavegi. Árið 1893 tók Sigurður Thoroddsen við sem landsverkfræðingur, en hann var fyrstur Íslendinga til að mennta sig í faginu. Sigurður mældi t.d. fyrir akvegi yfir Hellisheiði og niður Kamba.
Fyrsta bifreiðin kom til Íslands árið 1904, en eins og að líkum lætur markaði sá viðburður mikil tímamót í vegagerð á Íslandi. Skipulegur bifreiðainnflutningur fór þó ekki í fullan gang fyrr en á öðrum áratug 20. aldar og árið 1913 var í fyrsta skipti ekið frá Reykjavík austur í Rangárvallasýslu. Ný vegalög voru samþykkt árið 1924 og kváðu þau á um skipun Vegamálastjórnar auk sérstaks embættis vegamálastjóra. Í beinu framhaldi var farið af stað með ýmsar samgöngubætur með það fyrir augum að tengja betur saman einangraðar byggðir landsins. Fyrsti veghefill var tekinn í notkun árið 1926 og ári síðar komst bíll í fyrsta skipti yfir Holtavörðuheiði.
Vegur frá Reykjavík og norður í land opnaðist um Kaldadal árið 1929. Fyrsti vegur um Hvalfjörð var lagður árið 1932 þó svo að Holtavörðuheiði væri ekki opnuð fyrir almenna umferð fyrr en árið 1939.
Á árum seinni heimsstyrjaldarinnar tók hið eiginlega íslenska vegakerfi á sig mynd. Með hernámsliðunum fylgdu stórvirk vinnutæki og nýmóðins jarðýtur, sem ruddu betri og breiðari vegi og með meiri afköstum en áður hafði tíðkast. Tengingu Vestfjarða við aðalvegakerfi landsins lauk ekki fyrr en árið 1959 en með henni höfðu allar helstu byggðir náð vegtengingu. Þegar vegur yfir Skeiðarársand var opnaður árið 1974 var miklum áfanga náð í samgöngumálum Íslendinga en þá var í fyrsta skipti hægt að aka Hringveginn óslitið. Á sama tíma hófust viðamiklar endurbætur á öllum helstu þjóðbrautum íslenska vegakerfisins og þær lagðar bundnu slitlagi. Þessar framkvæmdir hafa staðið yfir alveg fram á síðustu ár og er svo komið í dag að eingöngu 86% stofnvega er lagður bundnu slitlagi en 28% tengivega.
Hlutverk
Vegagerðin er veghaldari og því opinber umsjónaraðili yfir meginhluta íslenska vegakerfisins. Helsta hlutverk Vegagerðarinnar er að þróa og annast samgöngukerfi, á sjó og landi, á sem hagkvæmastan hátt með þarfir samfélagsins að leiðarljósi, með áherslu á að samgöngur séu tryggar allt árið með eins litlum tilkostnaði og eins miklum þægindum og hægt er fyrir vegfarendur. Sérstök áhersla er lögð á samgöngur innan þjónustusvæða og að leiðarvísun sé eins skilmerkileg og frekast er kostur. Við gerð vega og viðhald þeirra er lögð sérstök áhersla á að slys verði sem fæst á vegfarendum ekki síst hinum óvarða eða gangandi vegfaranda. Reynt er að taka sem mest tillit til óska vegfarenda og að sambúð vegar og umferðar við umhverfi og íbúa sé sem best. Vegagerðin leggur áherslu á að standa vel að umhverfismálum og stýra áhrifum starfseminnar í þann farveg að hún valdi sem minnstu jarðraski eða mengun í náttúrunni. Stofnunin hefur sett sér umhverfisstefnu þar sem helstu áhersluþættir eru skilgreindir. Sjö umhverfisnefndir starfa á landsvísu auk þess sem Vegagerðin styrkir mörg rannsóknaverkefni. Mat á umhverfisáhrifum er unnið vegna einstakra framkvæmda en ferlið er breytilegt eftir því hvort framkvæmdin er lögformlega háð slíku mati eða ekki.
Vegagerðin stýrir hafnabótasjóði og ýmsu er snýr að hönnun og byggingu hafna fyrir hafnarfélögin, sinnir sjóvörnum og Landeyjahöfn sem er eina höfnin í eigu ríkisins.
Almenningssamgöngum er sinnt hjá Vegagerðinni er snýr að ferjurekstri, landsamgöngum á landsbyggðinni og flugi á þá staði þar sem ekki er hægt að halda úti tryggum heilsárssamgöngum á vegakerfinu. Vegagerðin stefnir að því að starfrækja virkt gæðakerfi sem tekur mið af ISO 9001 og beitir aðferðum gæða- og árangursstjórnunar til þess að ná sem bestum árangri í öllum sínum verkefnum.
Vefsíða Vegagerðarinnar,
www.vegagerdin.is gegnir sérlega veigamiklu hlutverki. Þar er t.d. hægt að nálgast ítarlegar upplýsingar um veður og færð á landinu, ástand hálendisleiða og fjarlægðir á milli áfangastaða ásamt tengingum við vefmyndvélar í öllum landsfjórðungum. Samskonar upplýsingar fyrir hafsvæðið umhverfis Ísland má finna á sjolag.is, einnig er hægt að nálgast fróðleik um yfirstandandi og fyrirhugaðar framkvæmdir. Upplýsingar um færð og ástand vega má einnig fá í þjónustusíma Vegagerðarinnar 1777.
Vegagerðin er einnig fyrirferðarmikil á Twitter og Facebook.
Flokkun vegakerfisins
Vegakerfið á Íslandi á margt sameiginlegt með æðakerfi mannslíkamans, þar sem starfseminni er viðhaldið með tryggu blóðstreymi um alla hluta líkamans. Með sama hætti er traust vegakerfi og greiðar samgöngur forsenda þess að mannlíf geti vaxið og dafnað, í þéttbýli eða dreifbýli, hvor heldur er á sjó eða landi. Vegakerfi landsins er skipt upp í þjóðvegi og sveitarfélagavegi sem eiga að mynda samfellda tengingu um byggðir landsins. Með þjóðvegum er átt við vegi sem taldir eru upp í vegaskrá og ætlaðir eru almenningi til frjálsrar umferðar og haldið er við af ríkisfé. Þjóðvegakerfið er flokkað í stofn-, tengi-, héraðs- og landsvegi, auk stofnvega á hálendi. Með sveitarfélagavegum er átt við vegi innan þéttbýlis sem eru í umsjón viðkomandi sveitarfélaga. Með flokkast einnig göngu-, hjólreiða- og reiðstígar. Einkavegir teljast hvorki þjóðvegir né sveitarfélagavegir og eru ýmist í eigu einstaklinga, fyrirtækja eða opinberra aðila.
Rannsóknar- og þróunarstarf
Til að uppfylla markmið sín á hverjum tíma vinnur Vegagerðin stöðugt að því að afla nýrrar þekkingar á sínu sérsviði. Af þeim sökum hefur rannsókna- og þróunarstarf ávallt verið nokkuð stór þáttur í starfseminni. Jafnhliða rekstrinum stendur stofnunin fyrir viðamiklum jarðfræðirannsóknum til þess að afla efnis til vegagerðar auk jarðvegs- og bergkönnunar í tengslum við mat á umhverfisáhrifum. Vegagerðin vinnur að söfnun upplýsinga og kortlagningu náma en einnig hefur verið hrint af stað átaksverkefni um frágang aflagðra efnistökusvæða sem eru á ábyrgð stofnunarinnar. Á hverju ári veitir Vegagerðin styrki til vísindaverkefna sem, að stærstum hluta, eru fjármögnuð af svo nefndu tilraunafé sem nú er 1,5% af tekjum stofnunarinnar. Mikil áhersla er lögð á að afrakstur rannsókna- og þróunarstarfs geti skilað af sér nýjum reglum og leiðbeiningum þar sem t.d. er kveðið á um hagkvæma efnisnotkun og vinnuaðferðir. Vegagerðin á einnig þátt í margvíslegu erlendu samstarfi á sviði rannsókna og þróunar. Í þessu skyni hafa starfsmenn tekið þátt í ýmsum ráðstefnum og fundahöldum erlendis og þangað verið sótt þekking sem miðlað er áfram innan stofnunarinnar. Árið 2008 tók Vegagerðin við forsæti Norræna Vegasambandsins (NVF) og er það í fyrsta sinn í 75 ára sögu þess. Því tímabili lauk árið 2012 með 960 manna ráðstefnu, Via Nordica, í Reykjavík.
Söguágrip
Um miðbik 19. aldar voru troðningar og reiðgötur helstu samgönguæðar íslendinga og flutningar fóru fram á klyfjahestum. Fyrsta tilskipun um vegalagningu var staðfest af Danakonungi árið 1861. Með henni var búið í haginn fyrir ferðir hestvagna á sérstökum flutningabrautum sem skiptust í þjóðvegi og aukavegi. Árið 1893 tók Sigurður Thoroddsen við sem landsverkfræðingur, en hann var fyrstur Íslendinga til að mennta sig í faginu. Sigurður mældi t.d. fyrir akvegi yfir Hellisheiði og niður Kamba.
Fyrsta bifreiðin kom til Íslands árið 1904, en eins og að líkum lætur markaði sá viðburður mikil tímamót í vegagerð á Íslandi. Skipulegur bifreiðainnflutningur fór þó ekki í fullan gang fyrr en á öðrum áratug 20. aldar og árið 1913 var í fyrsta skipti ekið frá Reykjavík austur í Rangárvallasýslu. Ný vegalög voru samþykkt árið 1924 og kváðu þau á um skipun Vegamálastjórnar auk sérstaks embættis vegamálastjóra. Í beinu framhaldi var farið af stað með ýmsar samgöngubætur með það fyrir augum að tengja betur saman einangraðar byggðir landsins. Fyrsti veghefill var tekinn í notkun árið 1926 og ári síðar komst bíll í fyrsta skipti yfir Holtavörðuheiði. Vegur frá Reykjavík og norður í land opnaðist um Kaldadal árið 1929. Fyrsti vegur um Hvalfjörð var lagður árið 1932 þó svo að Holtavörðuheiði væri ekki opnuð fyrir almenna umferð fyrr en árið 1939.
Á árum seinni heimsstyrjaldarinnar tók hið eiginlega íslenska vegakerfi á sig mynd. Með hernámsliðunum fylgdu stórvirk vinnutæki og nýmóðins jarðýtur, sem ruddu betri og breiðari vegi og með meiri afköstum en áður hafði tíðkast. Tengingu Vestfjarða við aðalvegakerfi landsins lauk ekki fyrr en árið 1959 en með henni höfðu allar helstu byggðir náð vegtengingu. Þegar vegur yfir Skeiðarársand var opnaður árið 1974 var miklum áfanga náð í samgöngumálum Íslendinga en þá var í fyrsta skipti hægt að aka Hringveginn óslitið. Á sama tíma hófust viðamiklar endurbætur á öllum helstu þjóðbrautum íslenska vegakerfisins og þær lagðar bundnu slitlagi. Þessar framkvæmdir hafa staðið yfir alveg fram á síðustu ár og er svo komið í dag að eingöngu 86% stofnvega er lagður bundnu slitlagi en 28% tengivega.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd