Garðvík

2022

Garðvík var stofnað árið 2000 af Hilmari Dúa Björgvinssyni og var rekið af honum, Friðrikku Guðjónsdóttur og Gunnari Bóassyni þar til 1. apríl 2016 þegar hjónin Guðmundur Vilhjálmsson og Jóhanna Sigríður Logadóttir keyptu fyrirtækið. Guðmundur og Jóhanna ráku þá heildverslunina Vélavörur ehf. sem var stofnuð 2006. Vélavörur seldu þrifavörur og pappír til fyrirtækja á Húsavík og nágrenni.
Garðvík hefur frá stofnun verið rekið sem skrúðgarðyrkjufyrirtæki og sinnt tengdri þjónustu. Fyrirtækin voru rekin samhliða í 2 ár þar til þau sameinuðust undir merkjum Garðvíkur. Aðaláhersla sameinaðs fyrirtækis er skrúðgarðyrkja, heildsala og þrifaþjónusta.
Guðmundur er Langnesingur í báðar ættir, kemur frá Syðra-Lóni á Þórshöfn. Foreldrar hans eru Vilhjálmur Guðmundsson og Brynhildur Halldórsdóttir (frá Gunnarsstöðum). Guðmundur útskrifaðist frá Vélskóla Íslands árið 1994 og hlaut meistararéttindi í vélsmíði árið 2001. Útskrifaðist sem véliðnfræðingur og rekstariðnfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík árið 2000. Hefur lengst af starfað sem vélstjóri á stærri skipum, togurum og nótaskipum, síðast hjá HB Granda á árunum 2008-2015.
Jóhanna Sigríður er ættuð frá Húsavík. Dóttir hjónanna Loga Sigurðssonar, stýrimanns (lést 2006) og Guðrúnar Sigurðardóttur, sjúkraliða. Jóhanna útskrifaðist sem sjúkraliði 1994 og BS í iðjuþjálfunarfræðum frá Háskólanum á Akureyri 2017. Starfaði hjá HSN Húsavík og Félagsþjónustu Norðurþings.

Vinnulag og framleiðsluferli
Skrúðgarðyrkja og hellulagnir hafa í gegnum tíðina breyst lítið í grunnin en þurft hefur að taka tillit til tískusveiflna í garðahönnun og útliti.

Skipulag og sérstaða
Aðaláhersla Garðvíkur er á skrúðgarðyrkju, heildsölu og þrifaþjónustu.
Skrúðgarðyrkja: Skrúðgarðyrkja og hellulagnir
Heildsala: Fyrirtækið hefur einbeitt sér að því að þjónusta ferðaþjónustufyrirtæki og önnur fyrirtæki á Húsavík, Mývatnssveit og nágrenni. Sérstaðan er fólgin í persónulegri þjónustu, ráðleggingum og heimsendingu á vörum.
Þrifaþjónusta: Sá hluti fyrirtækisins sér um að semja við og uppfylla þrifasamninga við fyrirtæki á Húsavíkursvæðinu. Við tökum einnig að okkur tilfallandi verkefni með stuttum fyrirvara.

Framtíðarsýn
Hvernig næstu ár líta út?
Í okkar bransa er erfitt að spá fyrir um framtíðina því efnahagur almennings og sveitarfélaga stjórnar því hversu mikið þau eyða í verkefni sem falla undir okkar starfsemi.
Aðsetur
Aðalaðsetur fyrirtækisins er við Kringlumýri 2 á Húsavík. Fest voru kaup á gömlu bifreiða-verkstæði að Haukamýri 1 haustið 2019. Í Kringlumýri er aðstaða fyrir skrifstofur, heildsölu, þrifateymi, kaffistofu og hluta af lager. Í Haukamýri er aðstaða fyrir hluta af lager, verkstæði og kaffistofa. Aðalstarfsemi fyrirtækisins er á Húsavík og nágrenni. Einnig höfum við sinnt verkefnum á Þórshöfn, Fjarðabyggð og Mývatnssveit.

Mannauður og starfsmannafjöldi
Fjöldi starfsmanna fer eftir árstíma. Fastir starfsmenn eru 5, þrír íslendingar og 2tveir erlendir. Menntun þeirra er margvísleg. Sumarstarfsfólkið okkar kemur úr mörgum greinum atvinnulífsins og eru mörg í skóla eða við það að klára skóla. Fjöldi þeirra eru um það bil 15 á hverju sumri. Við höfum einn gæðastjóra sem einnig er meistari í skrúðgarðyrkju.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd