Vélsmiðja Ísafjarðar hf. var stofnuð af tveimur stálsmiðum Braga Magnússyni (f.1936) og Friðgeiri Hrólfssyni (f.1943 – d.1991). Sumarið 1972 var hafist handa við byggingu Vélsmiðju Ísafjarðar á malarfyllingu milli bryggjusvæðanna á Ísafirði sem nefnt er Sundahöfn. Í upprunalegri stjórn Vélsmiðju Ísafjarðar voru: Bragi Magnússon, Friðgeir Hrólfsson, Sæmundur Guðmundsson, Magnús Jóhannesson og Magnús Jónsson. Í núverandi stjórn fyrirtækisins eru Bragi Magnússon og Steinþór Bragason.
Starfsemin
Starfsemi Vélsmiðjunnar byggðist að mestu leyti á viðgerðum á þungavinnuvélum fyrir einstaklinga og Vegagerð Ríkisins. Í framhaldi af því varð mikil uppbygging í sjávarútvegi á svæðinu. Spilaði þar stóran hlut veiðar á bolfisk, rækju og hörpudisk. Var þjónustusvæðið norðanverðir Vestfirðir. Á uppvaxtarárum Vélsmiðjunnar var mikil uppbygging í rækju- og hörpudiskveiðum. Það voru 4 bolfiskfrystihús, 5 rækju- og hörpudiskverksmiðjur, um 40 bátar og 6 togarar gerðir út frá Ísafirði og Súðavík sem var helsta þjónustusvæði Vélsmiðju Ísafjarðar með 10 menn í vinnu. Á þessum tíma var mesta vinnan á sumrin og til að hafa fulla starfsemi voru smíðaðar blakkir, skelplógalæsingar og krökur í dauða tímanum á veturna.
Fram til ársins 2006 fækkaði starfsmönnum niður í þrjá með lokunum á rækju- og fiskvinnslum. Frá árinu 2006 hefur reksturinn vaxið og hefur fiskeldið verið stór þáttur í því. Helsta vinnan hefur verið við vélaviðgerðir, glussakerfi, hönnun og sérlausnir. Það sem hefur staðið rekstrinum mest fyrir þrifum eru innviðirnir og þá aðallega samgöngurnar og aðgangur að fjármagni til nýsköpunar. Lokunardagar vegna veðurs hafa farið upp í 45 daga á vetri sem er þjónustufyrirtækjum mjög erfiður tálmi. Rekstrargrundvöllur fyrirtækja myndi batna stórlega ef samgöngum á Vestfjörðum væri hleypt upp á 21 öldina. Vestfirðingar haltra þar langt á eftir öðrum landshlutum sem sést vel meðal annars á því að 4 nýjustu fjallvegirnir á Íslandi eru á Vestfjörðum.
Árið 2013 opnaði Vélsmiðja Ísafjarðar verslunina Smiðjuna sem kom til vegna lokunar verslana N1 og Olís. Smiðjan verslun er til húsa að Sindragötu 12C. Í framhaldi af þessari ákvörðum tók Steinþór Bragason við rekstri Vélsmiðjunnar. Um þetta leyti fór laxeldið að fara af stað á Vestfjörðum og hefur veltuaukningin orðið um 20% á ári síðan 2013. Fiskeldið hefur mikil áhrif á þessa veltuaukningu. Með tilkomu fiskeldisins hefur unga fólkið fengið tækifæri að snúa aftur til sinnar heimabyggðar, bæði sem starfmenn fiskeldisins og í störfum sem verða til með tilkomu þess. Fjöldi starfsmanna í Vélsmiðju Ísafjar ðar er 8-10 árið 2021.
Framtíðarsýn
Framtíðarsýnin er björt ef samgöngur ná 21. öldinni og vegir eru færðir niður á láglendi þannig að auðvelt verði að ferðast til og frá svæðinu. Fjölbreytt atvinna þarf að fá að dafna á svæðinu og er fiskeldið hluti af þeirri heildarmynd. Við þurfum nauðsynlega að fá að byggja upp svæðið eftir þörfum og við þurfum næga raforku til að hafa sömu möguleika og aðrir landshlutar til vaxtar. Það er nefnilega rosalega gott að búa á Vestfjörðum.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd