Vélsmiðjan Logi ehf.

2022

Logi ehf. var stofnaður 1955 og eru því sextíu og sex ár liðin frá því að fyrirtækið var stofnað og er það elsta starfandi atvinnufyrirtæki á Patreksfirði.

Sagan
Aðalhvatamaður að stofnun fyrirtækisins var Sæmundur Kristjánsson, vélsmiður, en aðrir hluthafar ásamt honum voru Friðgeir Guðmundsson, Snorri Gunnlaugsson, Hlynur Ingimarsson, Þórður Helgason og Bogi Þórðarson, kaupfélagsstjóri fyrir hönd Kaupfélags Patreksfjarðar sem var stærsti hluthafinn fyrstu áratugina. Friðgeir Guðmundsson var verkstjóri Vélsmiðjunnar Loga fyrstu árin þar til Sæmundur tók við verkstjórastörfum sem hann sinnti til dauðadags 1991, síðan hefur sonur hans Barði Sæmundsson stýrt fyrirtækinu.
Fyrir stofnfé var ráðist í byggingu húss að Aðalstræti 112, en það hýsir starfsemina enn í dag. Enn fremur var fjárfest í nauðsynlegum búnaði til vélsmiðjureksturs. Á árunum 1980 til 1990 var byggt við húsnæðið og á síðustu árum hefur verið lögð áhersla á að endurnýja tækjabúnað þannig að nú er Vélsmiðjan Logi mjög vel búin að tækjum og húsnæði.

Starfsemin
Fyrirtækið þjónustar atvinnulífið á sunnanverðum Vestfjörðum. Eins og í mörgum öðrum byggðarkjörnum á landsbyggðinni þá byggir Patreksfjörður afkomu sína af sjávarútvegi. Þar er að finna ýmsar tegundir og stærðir af skipum sem öll þurfa á nauðsynlegri viðgerðaþjónustu að halda. En það eru helst útgerðarfyrirtæki og laxeldi, bæði bátar og vinnsla, verktakar á sjó og landi. Einnig er mikið að gera við þjónustu smábátaflotans. Meginhlutverk vélsmiðjunnar Loga ehf. er að sinna almennum skipa- og vélaviðgerðum ásamt tilfallandi viðhaldsvinnu. Sérsmíði af ýmsum toga og uppsetningar þeim tengdar hafa aukist til mikilla muna síðustu árin. Frá upphafi hefur Logi ehf. stundað sérsmíðar á fiskigoggum og fiskihökum, sem nálgast má hjá söluaðilum víða um land. Vélsmiðjan Logi hefur einnig ávallt séð um viðgerðir á stærri bifreiðum og þungavinnuvélum.
Logi rekur líka verslun í samvinnu við N1 sem sniðin er að þörfum heimamanna.

Starfsfólk
Í Loga starfa 8 -10 manns að jafnaði en Loga hefur haldist einkar vel á starfsfólki og er það eitt mesta lán fyrirtækisins.
Vélsmiðjan Logi hefur lagt áherslu á að hafa menntaða starfsmenn í sinni iðn og hefur í gegnum tíðina útskrifað 14 nema í vélvirkjun.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd