Stofnandi fyrirtækisins Véltækni hf. Pétur Jónsson, var einn af frumkvöðlum í íslenskri verktakastarfsemi og tókst að stýra fyrirtæki sínu Véltækni farsællega í gegnum eitt mesta nýsköpunarskeið í sögu verklegra framkvæmda eftir miðja síðustu öld. Pétur stofnaði Véltækni hf. árið 1958. Véltækni byrjaði smátt með eina skóflu og vörubíl og fáa en góða starfsmenn, m.a. bræður Péturs þá Hauk og Einar. Á þessum árum voru gríðarleg höft á öllum innflutningi og ekki auðhlaupið að því að kaupa vélar og bíla erlendis frá. Annað sem hefti framgang verklegra framkvæmda var að flestöll verk voru á vegum ríkisins. Útboð til einkaaðila voru svo til óþekkt. Á sjötta áratugnum fór að losna um ríkishöftin og menn sáu sér hag í því að bjóða stór verk út til verktaka í lokuðum útboðum.
Véltækni hf. er nú til húsa að Stórhöfða 35 í Reykjavík.
Verkefnin
Fyrstu ,,stóru“ verk Véltækni voru framkvæmdir við hinn nýja Landsspítala og hús Reykjalundar í Mosfellsbæ. Næsta stóra verkefni Véltækni var lagning hitaveitu í Reykjavík. Fram að þessu hafði ríkið skaffað verkamönnum sínum haka og skóflu til að grafa skurði, en Pétur horfði til nýrra tíma. Grafið skyldi með vélskóflu sem sparaði mikinn tíma og kostnað. Ekki voru allir hrifnir af framkvæmdinni en Pétur hélt sínu striki og var frumkvöðull að því að nota vélskóflu við skurðgröft. Árið 1962 var ein stærsta framkvæmd ríkisins, gerð Fossvogsræsis, boðin út. Um var að ræða 7 km leið gegnum holt og hæðir, mýrar jafnt sem kletta. Pétur bauð í verkið og varð hlutskarpastur. Grjótmulningsstöð var reist í Fífuhvammi, ein sú fyrsta sinnar tegundar, steypustöð til að steypa rörin og gríðarmikill bor var fluttur til landsins, að ekki sé talað um þær risagröfur, ýtur, vélskóflur og trukka sem menn höfðu aldrei séð fyrr.
Á sjöunda og áttunda áratugnum varð samdráttur í efnahagslífinu. Mörg fyrirtæki lögðu upp laupana en Véltækni hélt alltaf sjó og leitaði nýrra miða. Næstu áratugi var helsti vettvangur Véltækni hf. á sviði nýrrar gerðar slitlags á vegi landsmanna allt í kringum landið.
Stjórnunarstefna Péturs Jónssonar var einföld og árangursrík. Haga seglum eftir vindi, hafa augun sífellt opin í leit að nýjum tækifærum. Láta sér annt um velferð starfsmanna. Gæta hófs í yfirbyggingu fyrirtækisins og vera heiðarlegur í viðskiptum. Þessi stefna hefur ætíð verið leiðarljós stjórnenda Véltækni. Áður en Pétur seldi fyrirtækið í hendur syni sínum Kristni Einari Péturssyni árið 1994 hafði hann komið auga á nýja tækni sem nýta mætti hér á landi. Það var kantsteypuvélin, sem lagði kanta í heilli lengju meðfram gangstéttum. Véltækni varð sér úti um slíka galdravél og hefur síðan lagt kantsteina í flestöllum bæjum landsins og kynnt kantsteypuvélina víða um heim eins og í Noregi, Svíþjóð, Færeyjum og Saudi-Arabíu. Síðustu áratugi hefur Véltækni hætt jarðvinnslu og sérhæft sig í lagningu kantsteina.
Starfsmenn
Á upphafsárunum stóð Pétur fyrir mikilsverðum nýjungum í starfsmannahaldi. Hann kom á þeirri skipan að verkamennirnir fengu frían mat í hádeginu og neyttu hans í vistlegum vinnuskúrum. Fram að þessu höfðu mennirnir verið keyrðir til síns heima til að snæða hádegisverð. Hann bauð einnig starfsmönnum sínum og mökum til árshátíða, sem þá var nýlunda.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd