Vélvík var stofnuð þann 30. september árið 1988 af Daníel Guðmundssyni, rennismíða-meistara, og fyrsta árið var hann eini starfsmaður fyrirtækisins, sem starfar á sviði sérhæfðrar rennismíði. Árið 1991 kom Magnús Ingi Magnússon til starfa og hefur hann starfað hjá Vélvík allar götur síðan. Fyrirtækinu óx fiskur um hrygg næstu misserin, starfsmönnum þess fjölgaði smátt og smátt og árið 1994 ákvað Daníel að breyta rekstrinum úr einkafyrirtæki í hlutafélag, og um leið kaupir Magnús hlut í starfseminni. Sama ár festi fyrirtækið kaup á hálfri skemmu að Höfðabakka 1 og formleg starfsemi hófst í nýja húsnæðinu 2. janúar 1995. Fyrsta tölvustýrða smíðavélin, sem var fræsivél, var tekin í gagnið 1996 og ári síðar kom tölvustýrð smíðavél númer tvö, og var það rennibekkur. 1998 festi Vélvík svo kaup á neistagrafi, en það er sérstakt tæki sem framkvæmir neistagröft. Af öðrum tækjum sem Vélvík hefur tekið í sína þjónustu á undanförnum árum má nefna CNC fræsivél sem bættist við árið 2000, CNC rennibekkur árið 2003, 5 ása fræsivél árið 2005 og svo CNC rennibekkur og CNC fræsivél árið 2007. Árið 2010 byrjar Vélvík svo fjárfestingar upp á nýtt og síðan þá hefur fyrirtækið fest kaup á 9 tölvustýrðum smíðavélum ásamt mælivél til að bæta gæðaeftirlit enn frekar. Enn í dag, rúmum 30 árum frá stofnun, er Daníel framkvæmdastjóri Vélvíkur og Magnús Ingi er yfirsmiður.
Vinnulag og framleiðsluferli
Sem fyrr segir sinnir Vélvík sérhæfðri nákvæmnismíði. Rennismíði hefur verið til sem fag frá því um miðja 19. öld og hefur þróast frá algerlega handstýrðum búnaði af einföldustu gerð yfir í algerlega tölvustýrðar vélar. Undirstaðan í rennismíði er gamla lagið og á því byggir nýja lagið. Nemar eru því látnir vinna á eldri tækjum til að öðlast skilning og tilfinningu fyrir smíðinni í byrjun, svo taka þeir tæknina í sína þjónustu. Vinnulagið hjá Vélvík hefur gerbreyst á þeim rúmu 30 árum sem fyrirtækið hefur starfað og í dag býr það yfir 17 tölvustýrðum vélum. Síðustu 10 ár hefur sú þróun orðið á helstu verkefnum Vélvíkur að í stað þess að sinna viðgerðum og framleiðslu jöfnum höndum, þá sinnir fyrirtækið nánast eingöngu framleiðslu núorðið. Sú framleiðsla getur svo aftur á móti verið á allt frá einu stykki upp í 15.000 einingar.
Skipulag og sérstaða
Vélvík er með fjölbreyttasta vélakost renniverkstæða á Íslandi, það best búna af tækjum á sviði sérhæfðrar nákvæmnismíði. Í viðbót við framangreindan tækjabúnað eru slípivélar og plastsprautuvélar hluti af vélakosti Vélvíkur, og mótasmíði hefur verið framkvæmd hjá fyrirtækinu allt frá upphafi. Hjá Vélvík fer saman handverkskunnátta afburða fagmanna og hátæknibúnaður sem ekkert annað fyrirtæki býr yfir hérlendis. Þar á meðal má nefna neistagrafið, en neistagröftur er tækni sem byggir á rafskauti sem hefur það form sem búa á til hverju sinni, og með neistagrafi má búa til form sem ógerlegt er að ná með annarri tækni. Enn í dag er þessi vél sú eina sinnar tegundar á Íslandi.
Einnig er vert að nefna CMM mælivél af gerðinni Zeiss sem hefur styrkt gæðaeftirlit Vélvíkur til mikilla muna, enda gerir hún auðvelt að mæla flókna hluti og skilar hárnákvæmri og áreiðanlegri niðurstöðu.
Framtíðarsýn
Rennismíðin er í grunninn sama aðgerðin og í árdaga greinarinnar, þó tölvustýringin hafi valdið þar byltingu síðustu 30 árin eða svo. Þróun vélakosts heldur áfram þó ekki séu neinar frekari byltingar í sjónmáli á þessari stundu – rennibekkurinn og fræsivélin, eins og þau tæki eru uppbyggð, koma vart til með að breytast. Hugbúnaðurinn og vinnuhraðinn eru það helsta sem líklegt er að taki breytingum í nánustu framtíð, þó hægfara verði. Hvatinn til þróunar er þó afgerandi til staðar því það er nánast sama hvert litið er í daglegu lífi, allt á sér uppruna í rennismíði, hvort heldur um ræðir tölvumúsina á borðinu, minnisbókina í vasanum, snjallsímann eða hvað sem vera skal – allt hefur á einhverjum tímapunkti komist í snertingu við hlut sem var renndur eða fræstur. Ekki þarf annað en að líta yfir nöfn viðskiptavina Vélvíkur til að fá staðfestingu á þessu. Þar á meðal eru Teledyne Gavia, Landsvirkjun, Orka náttúrunnar, Marel, Stjörnu Oddi, stoðtækjaframleiðandinn Össur, Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík og Valka. Tækninni mun alltaf fleygja fram og engin leið að sjá fyrir endann á þeirri þróun.
Aðsetur
Starfsemi Vélvíkur fer öll fram í húsakynnum fyrirtækisins að Höfðabakka í Reykjavík og er það eina starfsstöð fyrirtækisins. Hún hefur reyndar stækkað frá því Vélvík flutti fyrst þar inn árið 1994; árið 2013 festi fyrirtækið kaup á hinum helmingi skemmunnar og tvöfaldaði þannig stærð starfsstöðvarinnar.
Mannauður og starfsmannafjöldi
Starfsmenn Vélvíkur eru 18 talsins, samtals með margra áratuga reynslu. Þeir eru allir lærðir rennismiðir, ef frá er talið starfsfólk á skrifstofu sem heldur utan um bókhald og skjalavinnu. Starfsaldur margra hjá Vélvík er vel yfir 20 ár, aðrir hafa verið hjá fyrirtækinu í rúm 10 ár. Á hverjum tíma eru svo nokkrir nemar í rennismíði að störfum hjá fyrirtækinu, mismargir eftir föngum. Vélvík hefur því haldist ákaflega vel á starfsfólki, nokkuð sem fyrirtækið lítur á sem lykilatriði enda þekking, kunnátta og reynsla kjarninn í sérstöðu Vélvíkur.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd