Vélvirki ehf

2022

Vélvirki ehf. var stofnað á Dalvík, 2. maí árið 1990 af þeim Gunnari Sigursteinssyni, vélvirkja og rennismið, Jóhannesi Hafsteinssyni, vélvirkja og Þór Ingvasyni, bifvélavirkja. Markmið fyrirtækisins er að veita góða þjónustu á alhliða viðhaldi báta og bíla, auk nýsmíðar.

Fjölbreytt verkefni og sérhæfing
Vélvirki er einkahlutafélag og hefur haldist í eigu sömu aðila frá stofnun fyrirtækisins. Sérstaða fyrirtækisins er þjónusta við sjávarútveginn sem hefur mótast vegna staðsetningar þess. Þar liggur mikil og víðtæk þekking á viðgerðum báta og skipa sem og uppsetningu, viðgerðum og smíði á fiskvinnslutækjum. Flest verkefni fyrirtækisins eru í heimabyggð en nokkuð er um viðgerðir á bátum annarsstaðar af Norðurlandi. Fyrirtækið þjónustar hitaveitu Dalvíkurbyggðar og hefur smíðað allar dælur í hitaveituholur sveitarfélagsins og séð um viðhald á þeim. Fyrirtækið sinnir einnig minni verkefnum sem til falla í litlu bæjarfélagi. Þau geta verið af ýmsum toga eins og að bora út pípuna fyrir prestinn, sjóða í göt á súpupottum fyrir Fiskidaginn, brýna laufabrauðshjól fyrir jólin eða sérsmíða bökunarplötur í ofna fyrir einstaklinga.

Sagan
Í upphafi voru tveir starfsmenn, þeir Gunnar, sem gegnir stöðu framkvæmdastjóra og Jóhannes sem er stjórnarformaður. Þór hefur aldrei starfað hjá fyrirtækinu en situr í stjórn þess sem meðstjórnandi. Starfsemin hófst í 100 m2 bragga á Sandskeiði 21 á Dalvík. Fyrsti búnaður fyrirtækisins var rennibekkur og fræsivél sem var stór fjárfesting. Á þeim tíma voru ekki til peningar fyrir fræsivélinni svo eigendurnir tóku með sér undirritað skuldabréf sem seljandi tók gott og gilt sem tryggingu fyrir greiðslu. Fyrirtækið stækkaði smám saman og störfuðu orðið fimm starfsmenn í litla bragganum þegar ákveðið var að festa kaup á stærra húsnæði. Árið 2004 kaupir Vélvirki ehf. Hafnarbraut 7 á Dalvík, sem hýsir starfsemina í dag. Húsnæðið, sem staðsett er við Dalvíkurhöfn og er 1100 fm, hafði gengt ýmsum hlutverkum. Upphaflega var þar rekin fiskvinnsla og síðar kjúklingabú og var því mikil vinna lögð í að breyta því svo það myndi henta starfsemi Vélvirkja.
Árið 2006 keypti Vélvirki, 260 m2 húsnæði að Sandskeiði 8 á Dalvík. Í því húsnæði var rekið bílaverkstæði sem þeir tóku við og reka undir nafninu, Vélvirki-bíladeild. Tækjakostur fyrirtækisins hefur vaxið í gengum árin og er það nú vel búið góðum og fullkomnum tækjum. Stefna þess hefur verið að fjárfesta í og viðhalda búnaði fyrir hagnað hverju sinni.

Verkefni og sérhæfing
Vélvirki hefur sérhæft sig í viðgerðum og viðhaldi á smábátum, þar með talið viðgerð á plastbátum. Minna er um nýsmíði en alltaf eitthvað og má þar nefna hausabrjót sem þeir hönnuðu og smíðuðu í samstarfi við hausaþurrkunina á Dalvík. Tækið brýtur fiskhausa og gatar áður en þeir fara í þurrk. Þetta tæki flýtir fyrir og auðveldar vinnuferlið til muna. Áður voru hausarnir glenntir og brotnir í höndunum sem var erfiðisvinna og olli oft á tíðum slæmri sinaskeiðabólgu hjá starfsmönnum. Nú þurfa starfsmenn einungis að raða hausunum á þurrkgrindur og sinaskeiðabólgan heyrir sögunni til. Götunin á hausunum flýtir einnig fyrir þurrkun þeirra.

Starfsfólk
Það hefur verið stefna fyrirtækisins að bjóða nema velkomna til starfa og hefur eigendum fundist það sín ábyrgð gagnvart stéttinni. Til gamans má þess geta að Jóhannes er fyrsti nemi Gunnars og síðan hafa þeir tekið við um 16 nemum í gegnum árin. Í dag starfa 17 manns hjá fyrirtækinu með víðtæka iðnmenntun auk starfsmanns á skrifstofu.

Framtíðarsýn
Eins og staðan er núna er ekki annað að sjá en eftirspurn verði eftir þeirri þjónustu sem Vélviki veitir og á meðan nýir nemar sækjast eftir að viðhalda þekkingunni þá heldur þessi starfsemi áfram.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd