Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis

2022

Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis var stofnað árið 1932. Fyrstu stjórn skipuðu þeir Guðni Guðleifsson formaður, Guðmundur J. Magnússon, Guðmundur Pálsson, Danival Danivalsson og Arinbjörn Þorvarðarson. Í fyrstu var félagið einungis starfrækt í Keflavík en síðar meir sameinuðust alls fimm félög VSFK. Í júlí 1974 sameinuðust Verkalýðsfélag Hafnahrepps og Verkalýðsfélag Vatnsleysustrandarhrepps félaginu. Verkakvennafélag Keflavíkur og Njarðvíkur og VSFK sameinuðust árið 1989 og þann 1. janúar 1998 sameinuðust VSFK og Verkalýðs- og sjómannafélag Gerðahrepps. Að lokum sameinaðist Bifreiðafélagið Keilir VSFK þann 5. febrúar 1999. VSFK á aðild bæði að Starfsgreinasambandi Íslands og Sjómannasambandinu. Í gegnum aðildina að þessum landssamböndum, er félagið eitt af aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands.

Stjórnendur
Sex formenn hafa starfað hjá félaginu síðan það var stofnað og eru það Axel Björnsson, Guðni Guðleifsson, Ragnar Guðleifsson, Karl Steinar Guðnason, Kristján Gunnarsson og núverandi formaður Guðbjörg Kristmundsdóttir.
Í stjórn félagsins eru 12 manns, 7 í aðalstjórn og 5 í varastjórn. Stjórnina skipa auk formanns Gunnar Sigurbjörn Auðunsson varaformaður, Hulda Örlygsdóttir ritari, Fjóla Svavarsdóttir féhirðir og meðstjórnendur Gunnar Þór Jóhannsson, Jón Rúnar Halldórsson og Guðríður Bríet Kristjánsdóttir. Varastjórn eru Miroslaw Zarski, Ásdís Ingadóttir, Steingerður Hermannsdóttir, Kristinn Þormar Garðarsson og Sigurður Kr. Sigurðsson. Núverandi formaður Guðbjörg Kristmundsdóttir starfar einnig á skrifstofu félagsins.

Aðsetur og starfsfólk
Í meira en þrjá áratugi hafði félagið haft höfuðstöðvar sínar að Hafnargötu 30 í Víkinni, eða allt þar til í maí 2009, þegar félagið flutti í nýtt húsnæði að Krossmóa 4. Fjöldi félagsmanna hefur hægt og bítandi aukist, sérstaklega með fjölgun starfsmanna á Keflavíkurflugvelli sem er stærsti vinnustaðurinn á svæðinu. Hjá félagsinu starfa 7 manns og að auki starfa 3 ráðgjafar hjá félaginu við starfsendurhæfingu ( VIRK).

Verkefni
Helstu baráttumál dagsins í dag eru líkt og þegar félagið var stofnað – að tryggja og bæta kjör og réttindi launafólks. Verkefni dagsins snúast ekki síst um atvinnumál á svæðinu, orlofsmál, fræðslumál félagsmanna og sjúkra- og slysatryggingar, auk hefðbundinnar kjarabaráttu. Ekkert viðfangsefni sem snertir kjör og réttindi launafólks er félaginu óviðkomandi.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd