Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis

2022

Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis er elsta starfandi stéttarfélag á Suðurnesjum. Það var á haustmánuðum 1929 að verkamenn og sjómenn í Miðneshreppi kölluðu til fundar í þeim tilgangi að stofna með sér félag. Þann 10. október 1929 var stofnfundurinn haldinn í barnaskólahúsinu sem stóð við skólatjörnina. Aðalhvatamaður að stofnun félagsins var þó ekki verkamaður heldur kennarinn Sigurbogi Hjörleifsson. Í fyrstu stjórn voru kjörnir Guðjón Jónsson bóndi, oftast kenndur við Endagerði, Sigurður Ólafsson sjómaður var ritari og Björn Samúelsson gjaldkeri. Á fyrsta árinu gengu 60 manns í félagið.

Sagan
Lög félagsins voru samþykkt á framhaldsstofnfundi félagsins sem haldinn var 27. október 1929 og telst sá dagur stofndagur félagsins. Í lögunum var meðal annars skilgreint takmark félagsins. Eins og gefur að skilja var það að bæta kjör verkalýðsins í Miðneshreppi en einnig setti félagið sér það markmið að, stuðla að sjálfstæðri þátttöku bænda í stjórn sveitarfélagsins og vinna að hverskonar umbótum sem mega verða til þess að efla hag og velgengni hreppsins í nútíð og framtíð. Samkvæmt þessu var félagið ekki einungis verkalýðsfélag heldur einnig almennt hagsmunafélag fyrir hreppsbúa. Þetta ákvæði mun vera tilkomið vegna þess að stærstu atvinnurekendur í hreppnum voru utanbæjarmenn; Haraldur Böðvarsson hafði bækistöð á Akranesi og Loftur Loftsson í Reykjavík.
Verkalýðsfélag Sandgerðis stofnað 27. október 1929
Verkalýðs- og sjómannafélag Gerða- og Miðneshrepps stofnað 17. maí 1937
Verkalýðs- og sjómannafélag Miðneshrepps stofnað 2. janúar 1949. Árið 1990 breyttist nafn félagsins í Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis þegar Sandgerði varð bær.

Aðsetur og starfsemi félagsins
Árið 1980 keypti félagið húsnæði að Tjarnargötu 8 í Sandgerði. Árið 2017 flutti félagið sig um set og keypti nýtt húsnæði að Miðnestorgi 3 (Vörðunni) þar sem starfsemin er í dag.
Félagssvæðið er í dag Suðurnesjabær eftir sameiningu Sandgerðis og Garðs. Félagsmenn í Verkalýðs- og sjómannafélagi Sandgerðis eru um 600. Hlutfall sjómanna hefur minnkað þar sem útgerð hefur dregist mikið saman á Suðurnesjum miðað við það sem áður var. Stærsta atvinnugreinin í Suðurnesjabæ er fiskvinnsla og starfsemin í og við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis gerðist stofnaðili að Verkamannasambandinu á sínum tíma og á núna aðild að Starfsgreinasambandinu, svo og Sjómannasambandi Íslands. Í gegnum þau samtök er félagið einnig aðili að Alþýðusambandi Íslands.
Félagið hefur tekið þátt í samningagerð í samvinnu við þessi heildarsamtök. Félagið er í samstarfi við Landsmennt, Sveitamennt og Sjómennt um endur- og símenntun félagsmanna. Meginvinna stéttarfélaga er undirbúningur og vinna við kjarasamningagerð og eftirfylgni með að þeir séu virtir. Einnig afgreiðsla menntastyrkja og námskeiða af ýmsum toga ásamt heilsubætandi styrkjum sem félagið veitir félagsmönnum, ásamt ýmis konar aðstoð og upplýsingagjöf er varðar starfsréttindi félagsmanna.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd