Verkalýðsfélag Akraness var stofnað þriðjudaginn 14. október 1924 í Báruhúsinu á Akranesi. Dagana á undan hafði verið unnið að undirbúningi formlegrar stofnunar félagsins og fyrir þeim undirbúningi stóð hópur sjómanna og verkamanna auk einnar konu sem vann við fiskþvott. Allt þetta fólk átti það sameiginlegt að vinna oft við erfiðar aðstæður og kom saman með von í brjósti um að verkalýðsfélag gæti bætt lífsgæði þeirra hvað varðaði bæði kaup og aðbúnað. Fyrsti fundur þessa hóps var haldinn þann 9. október þar sem ýmsir töluðu fyrir stofnun félagsins og lagðar voru línurnar. Framhaldsfundur var svo haldinn þann 14. október sem endaði með stofnun félagsins. Stofnendur voru 108 talsins og starfssvæði félagsins var Ytri-Akraneshreppur. Fyrsti formaður félagsins var Sæmundur Friðriksson. Í 2. grein laga félagsins stóð meðal annars: „Tilgangur félagsins er að efla og styðja hag og menningu alþýðunnar á því svæði, sem félagið nær yfir, með því að vinna að sjálfsbjargarviðleitni almennings, ákveða vinnutíma og kaupgjald.“
Hlutverk félagsins
Eins og sjá má af þessum texta var félaginu ætlað að koma inn sem jákvætt afl á vinnumarkaðinn á þessu svæði og myndaðist með stofnun þess mikilvægur kjarni fyrir verkafólk í bænum. Starfsár Verkalýðsfélags Akraness urðu 96 talsins árið 2020 og má segja að félagið hafi verið mikilvægur hluti af samfélaginu síðan það var stofnað þó svo að mismunandi áherslur hafi fylgt hverjum stjórnartíma. Auk þess að sinna því mikilvæga hlutverki sem stéttarfélög gera varðandi kjör og réttindi félagsmanna sinna hefur það einnig alltaf haft mikilvægt hlutverk í samfélaginu og má þar nefna hátíðarhöld í kringum baráttudag verkalýðsins 1. maí sem hafa sett svip sinn á bæinn í gegnum tíðina. Sem dæmi voru hátíðarhöldin óvenju metnaðarfull árið 1948 þegar kröfugangan endaði á útifundi með ræðuhöldum og tónlistarflutningi, því næst var dagskrá í Bíóhöllinni sem samanstóð af leikþætti, ljóðalestri og gamanvísum og loks var haldinn dansleikur í Báruhúsinu.
Starfsemi félagsins
Það sem hefur fyrst og fremst einkennt starfsemi Verkalýðsfélags Akraness eftir að núverandi stjórn tók við árið 2003 með Vilhjálm Birgisson sem formann er mikill og áberandi baráttuandi sem er sýnilegur í þjóðfélaginu. VLFA var lengi í minnihluta innan Alþýðusambands Íslands þar sem stjórn félagsins var ekki sammála ýmsum áherslum í starfi sambandsins. Nær ógerlegt var fyrir fulltrúa félagsins að hafa áhrif á málefni innan ASÍ á þeim tíma. Miklar breytingar urðu á þessu árið 2018 þegar nýir formenn höfðu verið kjörnir hjá stéttarfélögunum VR og Eflingu, formenn sem höfðu sömu sýn á kjarabaráttu fólksins í landinu og formaður VLFA. Með þeim sameiningarkrafti sem þar myndaðist var mögulegt að knýja fram breytingar innan ASÍ og koma nýjum sjónarmiðum að. Í raun má segja að þessar breytingar hafi verið upphafið á mjög mikilvægum kafla í sögu Verkalýðsfélags Akraness þar sem aukin aðkoma að innviðum ASÍ getur verið félagsmönnum VLFA sem og öllu verkafólki í landinu til mikilla bóta. Formaður félagsins var kjörinn varaforseti ASÍ og starfaði mikið á þeim vettvangi líka en vegna ágreinings um ákveðin mál tók formaður VLFA þá ákvörðun að segja af sér sem varaforseti ASÍ í apríl 2020. Hann leggur áherslu á að félagið eigi í mjög góðu samstarfi við fjölmörg aðildarfélög innan ASÍ. Framtíðarsýn félagsins er tvímælalaust sú að bæta stöðugt hag verkafólks í landinu og eru margar hliðar á þeirri baráttu sem meðal annars snerta kaup og kjör en líka aðstæður á vinnumarkaði og í samfélaginu öllu.
Fyrir félagsmenn
Í starfi félagsins er lögð rík áhersla á tengsl við félagsmennina og að þeir finni að félagið er þeirra bakhjarl. Ef upp koma stór vandamál sem hafa áhrif á félagsmenn og fjölskyldur þeirra, til dæmis í formi uppsagna, kappkostar félagið að aðstoða eins og hægt er. Ýmsar mikilvægar hefðir eru jafnframt til staðar í félaginu og má þar nefna árlega ferð sem farin er með eldri félagsmenn til að þakka þeim fyrir þeirra störf og eiga góða stund saman. Um er að ræða dagsferð þar sem merkilegir staðir eru skoðaðir og góður matur borðaður. Þessar ferðir eru ómissandi hluti af starfinu og ætíð er góð þátttaka í þeim. Skrifstofa félagsins var lengi staðsett að Sunnubraut 13 á Akranesi í húsi sem lét ekki mikið yfir sér en leyndi á sér þegar inn var komið. Hinsvegar var orðið þröngt um starfsemina og því fjárfesti félagið í nýju skrifstofuhúsnæði að Þjóðbraut 1. Mikil vinna var lögð í að aðlaga rýmið að starfseminni og flutti félagið þangað í byrjun nóvember 2020. Húsnæðið er 311m2 og þar er rúmgóð móttaka en auk þess 6 lokaðar skrifstofur. Í nýja húsnæðinu er góður fundarsalur sem býður upp á að ýmsar kjaraviðræður geti farið fram þar sem og allir fundir stjórnar félagsins.
Hjá félaginu starfa auk formannsins 4 starfsmenn sem sinna meðal annars allri móttöku og afgreiðslu við félagsmenn, iðgjaldaskráningu, skráningu styrkumsókna, bókhaldi og ýmsu fleiru. Auk þess starfa í húsinu tveir ráðgjafar Virk starfsendurhæfingarsjóðs. Mikill viðsnúningur hefur orðið á rekstri félagsins undanfarna tæpa tvo áratugi. Má þar helst þakka góðri skráningu og innheimtu á iðgjöldum og skipulagi í rekstri. Með því móti hefur verið hægt að veita félagsmönnum sem besta þjónustu. Félagsmenn geta leitað til félagsins ef þeir telja að á þeim sé brotið eða þurfa aðstoð við eitthvað sem tengist þeirra réttindum og kjörum. Jafnframt býður félagið upp á fjölmarga styrki úr sjúkrasjóði sem eru vel nýttir og má þar nefna fæðingarstyrk, gleraugnastyrk, heilsufarsskoðunarstyrk, heilsueflingarstyrk og styrk vegna sjúkraþjálfunar. Einnig geta félagsmenn sótt um menntastyrki í gegnum félagið til fræðslusjóða. Þessu til viðbótar eru orlofshús félagsins vel nýtt en það á 8 orlofshús auk þriggja íbúða á Akureyri. Það er óhætt að segja að félagsmenn nýti vel alla þá þjónustu sem í boði er hjá Verkalýðsfélagi Akraness og styrkir það stöðu þess sem virkt stéttarfélag með hagsmuni félagsmanna sinna í fyrirrúmi.
Formenn Verkalýðsfélags Akraness frá stofnun þess á árinu 1924
1924 – 1925 Sæmundur Friðriksson
1925 – 1937 Sveinbjörn Oddsson
1937 – 1961 Hálfdán Sveinsson
1961 – 1966 Guðmundur K. Ólafsson
1966 – 1981 Skúli Þórðarson
1981 – 1986 Agnar Jónsson
1986 – 1989 Guðmundur M. Jónsson
1989 – 2003 Hervar Gunnarson
2003 – Vilhjálmur E. Birgisson
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd