Verkalýðsfélag Grindavíkur

2022

Verkalýðsfélag Grindavíkur rekur starfsemi sína í eigin húsnæði við Víkurbraut 46 í Grindavík. Gerð kjarasamninga og varðstaða um aðbúnað og kjör félaganna eru helstu hlutverk félagsins. Það sér einnig um útleigu sumarbústaða og íbúðar á Tenerife til félagsmanna. Almenn félagsstörf, fræðsla og upplýsingagjöf til félagsmanna er mikilvægur þáttur í starfseminni og beitir það sér fyrir námskeiðahaldi af ýmsu tagi. Félagsmenn eru einkum fiskverkafólk, annað verkafólk og starfsfólk í verslun og þjónustu.

Starfsmenn eru þrír, Hörður Guðbrandsson, formaður félagsins, Guðrún Inga Bragadóttir og Jóhanna Sigrún Einarsdóttir. Skrifstofan er opin alla daga frá 09.00 til 15.00.

Styrktarsjóðir félagsins
Félagið er með sérstaka sjúkrasjóðsnefnd. Hún hittist einu sinni í mánuði. Hlutverk hennar er að fara yfir umsóknir sem berast sjóðnum. Hlutverk sjóðsins er að veita sjóðfélögum fjárhagsaðstoð vegna veikinda, slysa eða andláts. Verkefni sjóðsins er ennfremur að vinna að fyrirbyggjanda aðgerðum sem snerta öryggi og heilsufar.
Félagið rekur einnig styrktarsjóð í þágu félagsmanna, þar sem hægt er að sækja um styrki vegna ýmissa útláta eða áfalla. Þar má nefna styrki til kaupa á gleraugum, heyrnartækjum, tannviðgerðum, styrki til heilsueflingar og forvarna, dánarbætur og útfarastyrki, styrki vegna tæknifrjóvgunar og krabbameinsskoðunar og meðferðar- og aðgerðastyrki.

Stofnað 1937
Verkalýðsfélag Grindavíkur var stofnað í febrúar 1937 og var fyrsti formaður þess Erlendur Gíslason. „Voru allir sammála um að nauðsynlegt væri að stofna verkalýðsfélag sem léti sig skipta kjör manna, bæði á sjó og í landi.“

Fyrstu verkefni voru að samræma kjör á bátum og tryggja lágmarkslaun verkafólks í landi. Þá var fljótlega gengið í Alþýðusamband Íslands. Fyrsti kjarasamningur félagsins við vinnuveitendur í Grindavík var gerður nokkrum dögum eftir stofnun félagsins eða þann 25. febrúar 1937. Sjómenn yfirgáfu félagið 1976 og stofnuðu þá eigið félag, Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur.
Fyrir utan hefðbundin störf stéttarfélaga stofnaði félagið, ásamt atvinnurekendum, sér lífeyrissjóð árið 1970. Sjóðurinn fékk nafnið Lífeyrissjóður verkafólks í Grindavík. Hann var síðar sameinaður Lífeyrissjóði Suðurnesja þann 1. janúar árið 2000, sem síðar gekk inn í Festu lífeyrissjóð.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan fyrstu kjarasamningarnir voru gerðir heima í Grindavík og beint við útvegsmenn þar. Núna fylgja kjarasamningar félagsins almennum samningum sem Starfsgreinasambandið, áður Verkamannasambandið, gerir fyrir hönd félagsmanna.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd