Verkalýðsfélag Snæfellinga er samsett úr mörgum eldri verkalýðsfélögum og nær saga félagsins allt aftur til ársins 1915, en þá var Verkalýðsfélag Stykkishólms stofnað, núverandi félag verður til árið 2008 við sameiningu Verkalýðsfélags Stykkishólms, Verkalýðsfélagsins Stjörnunnar Grundarfirði og Verkalýðsfélags Snæfellsbæjar.
Verkalýðsfélag Snæfellinga er deildaskipt félag, innan þess eru auk almennrar deildar, sjómannadeild, deild verslunar- og skrifstofufólks og deild starfsfólks hjá ríki og sveitarfélögum. Félagið er því aðili að Starfsgreinasambandi Íslands, Sjómannasambandinu og LÍV sem eru svo aðilar að Alþýðusambandi Íslands.
Stjórn
Stjórn félagsins er kosin af félagsmönnum á aðalfundi til tveggja ára í senn, kosið er um helming stjórnar á hverjum aðalfundi. Árið 2020 eru eftirfarandi í stjórn félagsins: Vignir S. Maríasson formaður, Jóhanna Steingrímsdóttir varaformaður, Dana Sif Óðinsdóttir ritari, meðstjórnendur eru Bergvin Sævar Guðmundsson formaður sjómannadeildar, Ólöf Hallbergsdóttir, Margeir Ingi Rúnarsson og Dallilja Inga Steinarsdóttir.
Starfsemi
Verkalýðsfélag Snæfellinga sér um kjarasamningagerð fyrir félagsmenn sína við þá viðsemjendur sem hafa atvinnustarfsemi á Snæfellsnesi, þar eru helst Samtök atvinnulífsins, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, sveitarfélögin, ríkið, Landssamband smábátaeigenda, Samband smærri útgerða og Bændasamtökin. Starfsemi verkalýðsfélagsins er fjölbreytt, félagið aðstoðar þá félagsmenn sem á þurfa að halda í samskiptum við atvinnurekendur vegna launamála, ráðningasamninga og öllu því er viðkemur vinnumarkaðnum, fylgir því eftir að kjarasamningar séu virtir á félagssvæðinu með vinnustaðaeftirliti. Baráttan um betri réttindi fyrir verkafólk er helsta viðfangsefni félagsins og hefur verið í rúm hundrað ár ásamt því að verja áunnin réttindi, sú barátta mun halda áfram um ókomna tíð því alltaf verður þörf fyrir að verja kjarasamningsbundinn rétt verkafólks. Félagið mun í framtíðinni vera það sameiningar- og baráttuafl sem það á að vera til að þjóna þeim fjölbreytta hóp sem félagsmenn þess eru.
Hjá félaginu eru þrír starfsmenn auk formanns sem sjá um afgreiðslu mála sem upp koma og aðra starfsemi er viðkemur félaginu.
Aðsetur
Félagið rekur þrjár skrifstofur, aðalskrifstofan í Ólafsvík en einnig eru skrifstofur í Grundarfirði og Stykkishólmi.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd