Verkalýðsfélag Suðurlands

2022

Eitt af helstu hlutverkum Verkalýðsfélags Suðurlands er að standa vörð um hagsmuni og réttindi sem þegar hefur verið samið um í kjarasamningum sem og að berjast fyrir betri kjörum. Stéttarfélagið kemur fram fyrir hönd félagsmanna sinna við gerð kjarasamninga. Það veitir einnig félagsmönnum sínum ýmsa þjónustu ásamt lögfræðilegri ráðgjöf er varðar ágreiningsmál gagnvart atvinnurekanda sínum. Samið hefur verið um styrktarsjóði í kjarasamningum. Í kjarasamningum stéttarfélagsins hefur verið samið um sjúkra- orlofs- og menntasjóð. Sjúkrasjóður stéttarfélagsins styrkir félagsmenn sína í veikindum og slysum, einnig veitir hann ýmsa styrki til forvarna. Orlofssjóðnum er m.a. ætlað að styrkja félagsmenn til dvalar í orlofshúsum þar sem hægt er að njóta orlofsins og hvíldar. Menntasjóðurinn styrkir félagsmenn sína til ýmissa námsleiða, allt frá tómstundanámi til háskólanáms.

Verkalýðsfélag Suðurlands
var stofnað 1. desember 2001 eftir nokkurn undirbúning. Stofnfundur þess var að Fossbúð, Austur-Eyjafjöllum þann sama dag og voru þar mættir gestir frá Alþýðusambandi Íslands og frá Starfsgreinasambandi Íslands. Félagssvæði hins nýja félags náði þá frá Þjórsá í vestri að Lómagnúp í austri. Stofnendur voru félagsmenn þriggja verkalýðsfélaga á Suðurlandi; Verkalýðsfélagsins Rangæings (Rangárvallasýsla), Verkalýðsfélagsins Víkings (Mýrdalshreppi) og Verkalýðsfélagsins Samherja (Skaftárhreppur). Fyrsti formaður stéttarfélagsins var kosinn Már Guðnason og varaformaður var kosinn Eiríkur Tryggvi Ástþórsson sem gegnir því starfi enn í dag. Már gegndi formannsstarfinu til ársins 2016 en frá þeim tíma hefur Guðrún Elín Pálsdóttir verið formaður félagsins.Tilgangurinn með stofnun félagsins var að gera félagssvæði þessara sameinuðu þriggja félaga virkara með öflugri og markvissri þjónustu. Við sameininguna voru komin saman í eitt félag 528 manns og var fyrsta verkefni sameiðaðs félags að huga að gerð kjarasamninga.

Rangæingur verkalýðsfélag
Verkalýðsfélag Suðurlands var sem fyrr segir stofnað upp úr þremur öðrum félögum og var Rangæingur verkalýðsfélag eitt þeirra. Saga Rangæings hófst þann 8. júní 1950 þegar stofnað var félag í Rangárvallasýslu sem fékk nafnið Verkamannafélagið Rangæingur. Stofnfélagar voru 23, fyrsti formaður þess var Pétur Á. Brekkan og var Baldur Ólafsson kosinn varaformaður. Félagið gerðist aðili að Alþýðusambandi Íslands á stofnári. Á árinu 1970 sameinuðust Verkamannafélagið Dímon og Verkamannafélagið Rangæingur og árið 1989 gekk Bílstjórafélagið Rangæingur einnig í félagið. Eftir þessar sameiningar var nafni sameinaðra félaga breytt í Rangæingur verkalýðsfélag. Rangæingur var einn af stofnaðilum Lífeyrissjóðs Rangæinga sem stofnaður var árið 1971. Fyrir sameiningu í Verkalýðsfélag Suðurlands var Rangæingur stærsta félagið sem átti þátt í sameiningunni, Már Guðnason var þá formaður Rangæings.

Verkalýðsfélagið Víkingur
Víkingur, Vík í Mýrdal var annað þriggja félaganna sem sameinaðist í Verkalýðsfélag Suðurlands. Víkingur var stofnað þann 15. desember árið 1932 og var því elsta félagið í sameiningunni. Við sameiningu Víkings í Verkalýðsfélag Suðurlands var Tryggvi Ástþórsson formaður. Fyrsti formaður Víkings var Oddur Jónsson, varaformaður var Guðmundur Guðmundsson. Fyrsti aðalfundur Víkings var haldinn þann 5. janúar 1933. Var þar ákveðið að árstillag félagsmanna skyldi vera 4 krónur fyrir karla og 2 krónur fyrir konur og unglinga. Á sama fundi var samþykkt að sækja um upptöku í Alþýðusambandi Íslands og varð félagið formlegur aðili að sambandinu þann 28. janúar sama ár. Tildrög að stofnun Víkings voru þau að vorið 1932 kom Jón Baldvinsson alþingismaður, forseti Alþýðuflokksins og Alþýðusambands Íslands til Víkur. Hann kvaddi Guðmund Guðmundsson skósmið á sinn fund og hvatti hann til að standa fyrir stofnun verkalýðsfélags í Vík sem varð úr eins og fyrr segir. Stofnendur voru 48 talsins og ákveðið var að gefa hinu nýja félagi nafnið Víkingur. Félagssvæðið var Hvamms- og Dyrhólahreppar sem síðar urðu að Mýrdalshreppi. Guðmundur skósmiður hafði verið aðalhvatamaðurinn að stofnun félagsins. Hann var mikill verkalýðssinni og ávallt reiðubúin til sóknar ef hagsmunir verkalýðsins voru til umræðu. Hann gegndi formennsku í félaginu frá 1936 til 1948 og aftur frá 1953 til 1. apríl 1964 er hann lést á heimili sínu í Vík.

Verkalýðsfélagið Samherjar
Samherjar var þriðja félagið sem sameinaðist í Verkalýðsfélag Suðurlands. Félagið var stofnað 23. september 1951. Þá komu saman í Hrífunesi í Skaftártungu nokkrir áhugamenn um stofnun verkalýðs- og bifreiðastjórafélags fyrir Leiðvallahrepp (hinn forna). Voru þrír menn tilnefndir til að undirbúa og boða fyrirhugaðan stofnfund, Böðvar Jónsson í Norðurhjáleigu, Tómas Gíslason á Melhól og Árni Jónsson í Hrífunesi. 15. desember sama ár var svo haldinn stofnfundur að verkalýðs- og bílstjórafélagi þriggja hreppa austan Mýrdalssands. Fundurinn var haldinn í Hrífunesi og mættu 24 á fundinn. Nafn félagsins var valið með því að útbýta miðum og skrifaði hver fundarmanna það nafn sem honum datt í hug. Niðurstaðan varð sú að fundarmenn komu sér saman um nafnið Samherjar. Stofnendur töldust vera 55. Fyrsti formaður félagsins var Árni Jónsson í Hrífunesi og Sveinn P. Gunnarsson á Flögu var kosinn varaformaður. Á fundi stjórnar og trúnaðarráðs þann 22. desember 1951 var gengið frá umsókn um inngöngu félagsins í Alþýðusamband Íslands. Í október 1968 var félagssvæðið stækkað og náði þá yfir alla hreppana á milli sanda. Á aðalfundi í desember 1970 var samþykkt að gerast aðili að sameiginlegum lífeyrissjóði Suðurlandsumdæmis. Var þá lesið upp bréf frá ASÍ þar sem hvatt var til að öll félög gerðust aðilar að lífeyrissjóðnum svo að hann yrði sem stærstur og þjónaði sem best sínu hlutverki. Þá var rætt um stofnun ASS (Alþýðusambands Suðurlands), en vegna ýmissa deilna félaga var ákveðið að taka ekki afstöðu til málsins meðan deilt væri um stofnun sambandsins. Félagsmenn í Samherjum við sameiningu VLFS voru 82 og var Sveinbjörg Pálsdóttir þá formaður Samherja.

 

Í dag skipa stjórn og varastjórn félagsins 11 manns.
Aðalstjórn:
Guðrún Elín Pálsdóttir formaður
Tryggvi Ástþórsson varaformaður
Aldís Harpa Pálmarsdóttir
Kristján Pálmason
Ólafur Helgi Gylfason
Sigrún Jónsdóttir
Einar Aron Kjartansson
Varastjórn:
Steinar Guðmundsson
Erla Ósk Sigurðardóttir
Sóley Ösp Karlsdóttir
Helga Fjóla Guðnadóttir

Einnig á félagið fulltrúa í stjórn ASÍ-Ung:
Ástþór Jón Tryggvason

Starfsmenn á skrifstofu:
Finnborg Elsa Guðbjörnsdóttir
Marta Kuc
Einar Ármann Sigurjónsson

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd