Verkalýðsfélag Þórshafnar

2022

Verkalýðsfélag Þórshafnar var stofnað 16. júlí 1926, að frumkvæði Guðmundar Einarssonar í Garði á Þórshöfn. Stofnendur með honum voru Halldór Guðbrandsson, Egill Halldórsson, Zóphónias Pétursson, Helgi Þorsteinsson, Tryggvi Sigfússon og Aðalsteinn sonur Guðmundar. Var Guðmundur formaður og var einn í stjórn til að byrja með, en tveimur árum síðar voru kosnir í stjórnina þeir Halldór Guðbrandsson, Zóphónías Pétursson og Sigfús Helgason. Í dag er fimm manna aðalstjórn, þriggja manna stjórn sjúkrasjóðs, þriggja manna stjórnir í sjómanna-, iðnaðar-, verslunardeild og siðanefnd auk 8 manna trúnaðarráðs og tveggja manna kjörstjórnar og varamanna í öllum stjórnum. Ásamt því að beita sér fyrir bættum kjörum verkamanna lét félagið sig varða hin ýmsu málefni. Átti m.a. fumkvæði að fá vatnsveitu í þorpið, átti hlut í félagsheimilinu, lagði fjármagn í SAK þegar það var reist, kirkjubyggingu á Þórshöfn, styrkti fátæka o.fl. Árið 1938 gekk félagið í ASÍ og 1965 í Starfsgreinasambandið. Árið 1960 var stofnuð sjómannadeild og verslunar-og skrifst.- og iðnaðarmannadeild árið 2009. Árið 1954 var félagssvæðið fært út og náði þá líka yfir Sauðaneshrepp og 1970 yfir Svalbarðshrepp. Með sameiningu Þórshafnar og Bakkafjarðar árið 2006 stækkaði svæðið enn meira. Árið 1996 seldi félagið orlofshús sem það átti í Aðaldal og keypti hús í Kjarnaskógi við Akureyri. Árið 2012 festi það svo kaup á öðru húsi á sama stað. Í janúar 2001 var gerður samstarfssamningur við Framsýn á Húsavík og hefur sérþekking þeirra sem þar starfa verið mikils virði.

Stjórnendur og félagsmenn
Þeir sem hafa gengt formennsku eru: Guðmundur Einarsson, Jónas Sigurðsson, Jóhann Jónsson, Vilhjálmur Sigtryggsson, Þorsteinn Ólason, Jón Jóhannsson, Axel Davíðsson, Guðjón Kristjánsson, Jón Pálsson, Egill Halldórsson, Angantýr Einarsson, Njáll Þórðarson, Jósep Leósson, Þórir Björgvinsson, Eysteinn Sigurðsson, Kristinn Jóhannsson, Kristinn Lárusson, Sæmundur Jóhannesson, Karen Konráðsdóttir, Kristín Kristjánsdóttir, Sigríður Jóhannesdóttir og Svala Sævarsdóttir núverandi formaður. Svala hefur fært bókhald félagsins frá árinu 1998. Árið 1971 var ráðinn aðstoðarmaður stjórnar, Guðjón Kristjánsson. Oftast voru það formenn sem voru helstu starfsmenn félagsins en í dag er Aneta Potrykus starfsmaður í um 70% starfi. Var það mikill fengur fyrir félagið að fá einstakling sem talar pólsku, íslensku og ensku vegna fjölbreytileika félagsmanna. Árið 2002 var Kristinn Jóhannsson gerður heiðursfélagi í Verkalýðsfélagi Þórshafnar en hann gengdi formennsku í mörg ár af mikilli röggsemi.
Til eru fundargerðir félagsins allt frá árinu 1945 til dagsins í dag, en eldri gögn glötuðust í eldi.
Árið 2020 voru 230 fullgildir félagsmenn skráðir í félagið en um 330 sem greiddu í það.
Stjórn: Svala Sævarsdóttir formaður, Kristín Kristjánsdóttir varaformaður, Hulda Ingibjörg Einarsdóttir ritari, Jóhanna Sigríður Jónsdóttir gjaldkeri og Ari Sigfús Úlfsson meðstjórnandi.

Aðsetur
Skrifstofa félagsins er að Langanesvegi 2 á Þórshöfn.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd