Verkalýðsfélag Vestfirðinga

2022

Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Verk Vest, tók til starfa 1. janúar 2002. Á formlegum stofnfundi í 21. september sama ár sameinuðust níu félög verkafólks og sjómanna í Súðavík, á Hólmavík, Flateyri, Þingeyri, Patreksfirði og Bíldudal og félög verkafólks, bygginga-manna og verslunar- og skrifstofufólks á Ísafirði. Á næstu þrem árum bættust í hópinn félögin á Tálknafirði, Drangsnesi, Reykhólum og Suðureyri og Sjómannafélag Ísfirðinga. Verkalýðsfélag Vestfirðinga byggir á traustum grunni.
Félagið er arftaki Alþýðusambands Vestfjarða sem stofnað var árið 1927 og starfaði í átta áratugi, en var formlega sameinað Verk Vest árið 2016. Með sameiningu stéttarfélaganna í Verk Vest varð til öflugur málsvari vinnandi fólks á Vestfjörðum.
Verkalýðsfélag Vestfirðinga – Verk Vest er stéttarfélag verkafólks, sjómanna, iðnaðarmanna, opinberra starfsmanna og verslunar- og skrifstofufólks á Vestfjörðum. Félagssvæðið nær um alla Vestfirði (nema í Bolungarvík, þar sem verslunar-, skrifstofufólk og iðnaðarmenn eiga aðild að Verk Vest). Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að Alþýðusambandi Íslands og landssamböndum þess.

Þjónusta við félagsmenn
Hlutverk Verkalýðsfélags Vestfirðinga er að vinna að bættum kjörum félagsmanna sinna með gerð kjarasamninga í samvinnu við önnur stéttarfélög á landinu og að tryggja réttindi félagsmanna samkvæmt ákvæðum laga og kjarasamninga. Auk þess vinnur félagið að bættum lífskjörum félagsmanna á öllum sviðum.
Félagið starfrækir sjúkrasjóð, orlofssjóð og fræðslusjóð sem þjóna félagsmönnum með styrkjum vegna veikinda eða annarra áfalla, fræðslustyrkjum og með útleigu íbúða og sumarhúsa víða um land. Mikilvægur hluti starfseminnar felst í því að tryggja kjör og réttindi félagsmanna með virku eftirliti og aðhaldi, öflugri fræðslustarfsemi og víðtæku trúnaðarmannakerfi.
Starfsmenn félagsins standa dyggan vörð um réttindi félagsmanna, sem sannaðist eftirminnilega á árinu 2020 þegar alvarleg brot áttu sér stað á réttindum sjómanna vegna kórónaveirusýkingar um borð í togara.

Skrifstofa
Skrifstofur félagsins eru á Ísafirði, Patreksfirði og Hólmavík. Skrifstofa Verk Vest þjónar einnig félagsmönnum Félags járniðnaðarmanna á Ísafirði. Ráðgjafar VIRK starfsendurhæfingarsjóðs eru með aðstöðu á skrifstofu félagsins á Ísafirði.

Starfsmenn félagsins
Finnbogi Sveinbjörnsson, Agnieszka M. Tyka, Ásdís Birna Pálsdóttir, Bergvin Eyþórsson, Hulda V. Steinarsdóttir, Kolbrún Sverrisdóttir og Stefanía Heiðrún Árnadóttir. Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir og Henný Þrastardóttir eru ráðgjafar Virk starfsendurhæfingar.
Vefsíða: verkvest.is

 

Stjórn Verk Vest 2021-2023:
Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður
Bergvin Eyþórsson, varaformaður
Kolbrún Sverrisdóttir, gjaldkeri
Eygló Harðardóttir, ritari
Varastjórn skipa:
Guðbjörg Svandís Þrastardóttir
Guðfinna B. Guðmundsdóttir
Ómar Sigurðsson
Ólafur Baldursson

Formenn deilda eru jafnframt stjórnarmenn:
Verslunar- og skrifstofudeild: Margrét Jóhanna Birkisdóttir.
Sjómannadeild: Sævar Kr. Gestsson.
Iðnaðardeild: Viðar Kristinsson.
Matvæla- og þjónustudeild: Gunnhildur B. Elíasdóttir.
Opinber deild, starfsmanna sveitafélaga og ríkisstofnana: Ingvar G. Samúelsson.
Trúnaðarráð félagsins skipa ofangreindir auk 30 félagsmanna frá öllum starfssviðum félagsins, búsettir um allt félagssvæðið.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd