Verkalýðsfélagið Hlíf

2022

Verkmannafélagið Hlíf var stofnað um mánaðamótin janúar/febrúar árið 1907, ári áður en Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi. Þá bjuggu í bænum um 1.500 manns, mest sjómenn og verkamenn. Alþýða fólks bjó við kröpp kjör, þannig að jarðvegurinn var frjór. Á stofnfundinum, sem haldinn var í Góðtemplarahúsinu, gengu um 40 karlar og konur í félagið. Fyrsti formaður var Ísak Bjarnason á Bakka í Garðahreppi. Nokkrum vikum síðar voru félagsmennirnir vel á þriðja hundrað, um þriðjungur konur.

Félagið
Félagið sótti fyrirmynd að stofnun og skipulagi talsvert til Dagsbrúnar, auk þess sem forystumennirnir sóttu talsvert til Dagsbrúnar í aðdraganda félagsstofnunarinnar. Þetta gerði það að verkum að starfsháttum og skipulagi svipaði nokkuð til Góðtemplara-reglunnar, enda sóttu mörg félög fyrirmyndir til hennar á þessum árum þ.m.t. Dagsbrún. Sá munur var á Dagsbrún og Hlíf, að Hlíf var blandað félag kvenna og karla, en Dagsbrún var eingöngu karlafélag. Í fyrstu lögum félagsins er kveðið á um að inngöngu í félagið get fengið „hver sá karl og kona sem er orðinn fullra 15 ára að aldri og er fær til algengrar vinnu”.
Í þessum fyrstu lögum félagsins er markmiðum félagsins lýst á þennan hátt:

  • Að styrkja og efla hag og atvinnu félagsmanna.
  • Að koma betra skipulagi á alla daglaunavinnu.
  • Að takmarka vinnu á öllum helgidögum.
  • Að auka menningu og bróðurlegan samhug innan félagsins.
  • Að styrkja þá félagsmenn eftir megni er verða fyrir slysum eða öðrum óhöppum.

Sagan
Félagið lét mikið að sér kveða strax í upphafi. Strax þann 1. mars á stofnárinu gaf félagið út prentuð „aukalög”, þar sem auglýstir voru kauptaxtar félagsins og ýmiss konar fyrirkomulag vinnunnar. Þar var m.a. kveðið á um að almennur vinnudagur væri frá kl. 6 á morgnana til kl. 7 á kvöldin. Öll vinna utan þess tíma skyldi talin eftirvinna. Þessi „aukalög” um kjör og aðbúnað hafnfirsks verkafólks ollu straumhvörfum. Laun hækkuðu umtalsvert og ýmis réttindi náðust fram. Til dæmis er talið að þetta sé í fyrsta skipti sem viðurkenndur var hærri taxti fyrir nætur- og helgidagavinnu. Hitt var þó ekki síður mikilvægt, að atvinnurekendur gátu ekki lengur ákveðið kjör verkafólks nánast einhliða.

Konur í Hlíf
Konur létu mikið að sér kveða á fyrstu starfsárum Hlífar. Það var reyndar fátítt að félögin væru bæði fyrir karla og konur í upphafi. T.d. var Dagsbrún hreint karlafélag. Í Hlíf var um þriðjungur félagsmanna konur, þegar í byrjun. Í fyrstu aukalögum Hlífar voru skilgreindir sérstakir kauptaxtar fyrir konur. Þeim vildu atvinnurekendur ekki una. Þá lögðu konurnar niður vinnu og gengu atvinnurekendur þá fljótlega að kröfunum. Þetta mun vera fyrsta verkfall kvenna á Íslandi. Árið 1912 efndu Hlífarkonur aftur til verkfalls, sem stóð í um mánuð. Það er af mörgum talið fyrsta verkfall kvenna á Íslandi, þótt það sé ekki allskostar rétt ef tekið er tillit til vinnustöðvunarinnar 1907. Hvað sem því líður, þá efndu Hlífarkonur til fyrstu vinnustöðvana kvenna á Íslandi.

Þrátt fyrir að konur ættu sterkan sess í félaginu, var engu að síður ákveðið að stofna sérstakt félag kvenna, Verkakvennafélagið Framtíðina. Stofndagurinn var 3. desember 1925. Þetta var gert í góðu samráði við og með stuðningi Hlífar. Störfuðu félögin tvö samhliða og oft í náinni samvinnu (deildu t.d. skrifstofuaðstöðu um langt skeið), þar til þau sameinuðust árið 1999 og nafnið varð Verkalýðsfélagið Hlíf.

Félagið í dag, húsnæði og orlofsmál
Talið er að stofnfélagar hafi verið um 40 talsins og að fáum vikum síðar hafi félagsmenn verið orðnir um 230. Um síðustu aldamót, þegar Verkamannafélagið Hlíf og Verkakvennafélagið Framtíðin sameinuðust, voru þeir um 2.500 talsins. Í dag eru þeir á bilinu 3.500-4.000, eftir því hvenær ársins er. Í Verkalýðsfélaginu Hlíf er einkum verkafólk á almennum vinnumarkaði, ófaglært starfsfólk sveitarfélaga á félagssvæðinu (sem er Hafnarfjörður og Garðabær), ófaglært starfsfólk í umönnunarstörfum, svo sem hjúkrunarheimilum og svo almennt starfsfólk í álverinu í Straumsvík.

Fram til 1930 rak félagið ekki sjálfstæða skrifstofu og erindi voru rekin á heimilum stjórnarmanna. Fyrsta skrifstofan var herbergi á loftinu í Verkamannaskýlinu. Árið 1944 flutti skrifstofan í hús Bjarna riddara Sívertsen. Þaðan flutti skrifstofan um áratug síðar að Austurgötu 17 og árið 1954 að Austurgötu 47. Tveimur árum síðar flutti skrifstofan í Akurgerðishúsið að Vesturgötu 10 og árið 1969 í Skiphól og þaðan í Venusarhúsið, Strandgötu 11 árið 1971. Árið 1977 flutti skrifstofan á Reykjavíkurveg 64, þar sem hún er í dag.

Félagið á 8 orlofshús í dreifbýli, fjögur á Suðurlandi og fjögur í Borgarfirði. Jafnframt á það parhús með tveimur íbúðum í Stykkishólmi og þrjár orlofsíbúðir í fjölbýli á Akureyri.

Verkalýðsfélagið Hlíf er eitt 19 aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands og á þar að auki aðild að Alþýðusambandi Íslands. Það á aðild að fræðslusjóðunum Starfsafli og Flóamennt og heldur jafnframt úti fræðslusjóði Hlífar.

Í stjórn Hlífar eru sjö félagsmenn og fimm til vara. Á skrifstofunni eru sex starfsmenn í fullu starfi, þar af tveir Virk ráðgjafar og svo einn í hlutastarfi.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd