Verkhönnun ehf

2022

Rafmagnsverkfræðistofan Verkhönnun var stofnuð í janúar 2007 af þeim Magnúsi Brynjólfi Þórðarsyni og Bjarnþóri Sigvarði Harðarsyni. Þeir höfðu starfað saman í fjölda ára bæði á verkfræðistofum og sem iðnaðarmenn á árum áður. Á fyrstu árum í rekstri störfuðu allt að 5 manns hjá fyrirtækinu þar til áhrif efnahagskreppunar 2009 gerðu það að verkum að Magnús og Bjarnþór störfuðu einir í nokkurn tíma. Í janúar 2012 hóf Sesselja Jónsdóttir störf hjá fyrirtækinu eftir nám á Ítalíu, hún hafði starfað með Bjarnþóri og Magnúsi áður í nokkur ár. Seinna sama ár bættust Grétar Örn Jóhannsson og Kristín Ósk Þórðardóttir í hópinn. Árið 2015 gerðust þau 3 meðeigendur í fyrirtækinu. Grétar og Kristín hurfu til annarra starfa árið 2018. Síðan þá hafa Magnús, Bjarnþór og Sesselja verið eigendur fyrirtækisins og setið í stjórn þess auk þess sem Magnús gegnir stöðu framkvæmdastjóra.

Aðsetur
Verkhönnun hóf starfsemi sína í Arkalind 6 í Kópavogi þar sem fyrirtækið hafði aðsetur árin 2007 til 2013. Þá fluttist það í Þórunnartún 2 í Reykjavík. Á þeim tíma stækkaði fyrirtækið umtalsvert sem varð til þess að starfsemin var flutt í glæsilegt stærra húsnæði við
Katrínartún 4 árið 2019 þar sem starfsemin er til húsa í dag.

Mannauður
Verkhönnun hefur vaxið jafnt og þétt í takt við uppgang í þjóðfélaginu og síðustu 5 ár hafa starfsmenn verið á bilinu 12-16 manns. Árið 2020 störfuðu að jafnaði 12 manns hjá fyrirtækinu. Hjá Verkhönnun starfar fólk með fjölbreytta menntun og reynslu sem gefur okkur víða sýn á þau verkefni sem við tökum að okkur. Þar má nefna bókari, tækniteiknarar, innanhússarkitekt, byggingafræðingur, rafvirkjameistarar, rafmagnstæknifræðingur og rafmagns- og tölvuverkfræðingar. Stór meirihluti hönnuða og ráðgjafa Verkhönnunar hafa starfað sem iðnaðarmenn áður sem gefur þeim og fyrirtækinu sem heild góða innsýn inn í framkvæmdaferlið – slík reynsla er ómetanleg þegar kemur að samskiptum við viðskiptavini og framkvæmdaaðila.

Skipulag
Verkhönnun veitir ráðgjöf og sér um hönnun á þremur ólíkum en tengdum sviðum.
Rafkerfi – Verkhönnun sérhæfir sig í rafkerfum í allar tegundir bygginga. Engin verk eru of smá eða of stór. Verkefni allt frá sumarhúsum upp í stærðarinnar skrifstofu- og verslunarhúsnæði, flugskýli, íþróttamannvirki og skóla hvort sem er hérlendis eða erlendis. Hönnun rafkerfa er mjög vítt hugtak og kemur við sögu á öllum stigum framkvæmda til að mynda frá djúpum jarðskautum, lögnum í steypu, stýringa á ýmsum kerfum og allt til fullnaðarfrágangs.
Lýsingarhönnun – er unnin í nánu samstarfi við verkkaupa og aðra hönnuði eins og arkitekta. Góð lýsingarhönnun hefur úrslitavægi í því hvort verkefni heppnist vel eða ekki. Við lýsingarhönnun leggjum við áherslu á það sem skiptir máli í hverju verkefni fyrir sig, hvort sem um ræðir að lýsa upp umferðargötur, flugplan fyrir breiðþotur, skrifstofur, verslanir eða heimili og allt þar á milli. Öll verkefni krefjast mismunandi nálgunar. Við verklok eru mælingar gerðar til að tryggja það að hönnun hafi verið vel heppnuð og standist staðla og kröfur.
Hússtjórnarkerfi – fela í sér virkni og stýringu á til dæmis loftræstikerfum, sundlaugum, ljósa- og hitastýrikerfum í byggingar ásamt viðmóti við þau fyrir notanda. Til að tryggja að kröfur hönnuða og viðskiptavinar skili sér alla leið til notandans býður Verkhönnun upp á forritun á þeim kerfum sem það hannar auk þess sér Verkhönnun um forritun á ýmsum kerfum sem hönnuð eru af öðrum.

Verkefni
Helstu verkefni undanfarin ár hafa m.a. verið ráðgjöf, hönnun, forritun og útboð á rafkerfum fyrir skrifstofu- og verslunarhúsnæði, hótelbyggingar, fjölbýlishús, hjúkrunarheimili, skóla, íþróttamannvirki og sundlaugar. Viðskiptavinir hafa verið og eru einstaklingar, stórir og smáir verktakar, sveitafélög og ríki. Verkefnin hafa verið stór og smá bæði hérlendis og erlendis.
Verkhönnun hefur frá árinu 2012 sérhæft sig og unnið með BIM forrit í öllum sínum verkum. Fyrirtækið er því mjög vel sett þegar kemur að því að vinna stærri verk þar sem BIM er krafa og mikið lagt upp úr samræmingu á milli hönnuða. Um er að ræða þrívíða hönnun þar sem byggt er líkan í BIM hugbúnaði af byggingunni sem verið er að hanna ásamt öllum kerfum sem í bygginguna koma. Með slíkum aðferðum er hægt að draga verulega úr framkvæmdakostnaði.
Starfsmenn Verkhönnunar hafa tekið að sér ýmsa kennslu í gegnum árin. Þar má nefna kennslu við á BIM hugbúnað í Tækniskólanum, ýmis námskeið í lýsingarhönnun hjá Rafiðnaðarskólanum og við Háskólann í Reykjavík.

Sérstaða
Einn af helstu kostum og sérstöðu Verkhönnunar er stærð þess, en fyrirtækið er ekki stórt miðað við aðrar verkfræðistofur í sama geira. Stærð þess hefur reynst viðskiptavinum mjög vel þar sem persónuleg tengsl við stjórnendur, ráðgjafa og hönnuði er mjög góð. Fyrirtækið er heldur ekki of smátt þar sem það getur og hefur leyst mjög stór verkefni á hagkvæman hátt fyrir sína viðskiptavini.

Framtíðarsýn
Framundan eru spennandi tímar þar sem Verkhönnun sér ýmis tækifæri til vaxtar og þátttöku í áhugaverðum og krefjandi verkefnum sem munu setja sinn svip á umhverfið sem við búum í. Verkhönnun er stöðugt að þróa og bæta hvernig það nálgast verkefni með hagkvæmni að leiðarljósi. Hagkvæmni á bæði við um framkvæmd ásamt rekstri bygginga. Þannig er Verkhönnun góður kostur þegar kemur að vali á samstarfsaðila.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd